05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5922 í B-deild Alþingistíðinda. (5279)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég kem ekki í ræðustól til að hafa uppi stórar athugasemdir við þetta frv. Það hefur enn einu sinni sannast hversu hratt og vonandi vel hv. nefndir vinna í þinginu því að skammt er síðan þetta mál kom fyrir Ed. (RA: Lokasönnunin.) Já, líklega er það.

Í 2. gr. þessa frv. stendur, með leyfi forseta, í 3. mgr.: „Samið skal fyrir fram til a. m. k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg, en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka er getur í 2. mgr. Þó er heimilt að semja fyrir fram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.“

Mér hefur óneitanlega orðið hugsað til þess af hverju ekki er jafnframt gert ráð fyrir þeim möguleika að auka sparnað og þá ársfjórðungslega eins og hér er tekið fram. Af hverju má einvörðungu semja um lækkun? Ég sé ekki að hækkun mundi fremur raska fyrir fram gerðum áætlunum en lækkun, eins og hér stendur.

Í 2. mgr. 3. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Kaupi reikningseigandi íbúðarhúsnæði til eigin nota eða hefji byggingu slíks húsnæðis skal innistæðan þó laus frá þeim tíma er hann staðfestir kaupin eða bygginguna við banka eða sparisjóð með framvísun kaupsamnings eða vottorðs byggingarfulltrúa um að bygging sé hafin, þó aldrei fyrr en full þrjú ár eru liðin frá því að fyrst var lagt inn á reikninginn.“

Hér er um það að ræða að framvísun kaupsamnings ber vitni um að kaup hafi verið staðfest. En í 3. mgr. 5. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Verði ekki af kaupum, þrátt fyrir gerð kaupsamnings skv. 2. mgr. 3. gr., skal leggja úttekið fé aftur inn á reikning innan mánaðar frá því að ljóst er að ekki varð af kaupunum. Ella skal endurgreiða allan nýttan skattafslátt að viðbættu 25% álagi, sbr. þó 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Í þessu efni vaknar sú spurning hvort ekki er um að ræða býsna hörð viðurlög, ef ég má svo að orði komast, og tími of naumur. Ég get tæpast varist þessari hugsun með tilliti til reynslunnar: Aðili, sem hefur með því að sýna kaupsamning fært fram þau gögn sem gefa tilefni til þess að hann má taka út fé af þessum reikningi, hefur hugsanlega reitt fram fé til annars aðila vegna kaupa og á grundvelli kaupsamnings. Eigi að síður fara mál iðulega þannig að kaupum er rift, það verður ekki af kaupum. Hvernig er hægt að ætlast til þess að slíkur aðili, sem lendir vafalaust í meiri eða minni fjárþröng, standi skil á þessu fé með svo skjótum hætti sem hér er gert ráð fyrir?

Herra forseti. Það voru einkum þessi tvö atriði sem ég vildi víkja að, þ. e. það sem ég síðast nefndi og eins hitt: af hverju ekki hækkun á umsömdum sparnaði allt eins og lækkun ársfjórðungslega? Ég efast ekki um að nm. hafa á þessu tiltækar skýringar.