05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5936 í B-deild Alþingistíðinda. (5327)

523. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er um að ræða fylgifrv. með frv. því um húsnæðissparnaðarreikninga sem hér var til umr. fyrr í dag. Ég sé ástæðu til að segja örfá orð vegna ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan. Mér fannst hann bæta gráu ofan á svart og þá tel ég svart þá ræðu sem hæstv. forsrh. flutti hér fyrr í dag í umr. um þingsköp.

Hæstv. fjmrh. talaði um það að sú iðja stjórnarandstæðinga, sem hann svo nefndi, að reka fleyga í þetta stjórnarsamstarf hefði ekki borið árangur, stjórnarsamstarfið væri gott og heilt og allt vel um það. Ég vil aðeins segja við hæstv. fjmrh.: Stjórnarandstæðingar hafa ekki þurft að reka neina fleyga í þetta stjórnarsamstarf. Stjórnarliðarnir hafa alveg séð um það. Það hefur komið afar glögglega í ljós, einkum í því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan og ég ætla ekki að fara að lengja þessa umr. með því að tíunda það hér að nýju. Hann lýsti stöðunni mjög glöggt og skilmerkilega. Fram kom að erfiðleikarnir, sem ríkisstj. á nú við að etja, eru ekki erfið stjórnarandstaða. (Gripið fram í.) Það er stuðningslið stjórnarinnar. Forsrh. er oft einkar lagið að greina skýrt og skilmerkilega frá því sem honum er í hug jafnvel þótt það sé kannske ekki það sem ég teldi að væri æskilegast og ég er honum mjög ósammála. En hann setur sitt mál einkar skýrt og skilmerkilega fram og ég hef ekkert við það að athuga þó að ég hyggi að ef menn lesa í samfellu þær umr., sem farið hafa fram hér í þessari hv. d. í dag, sé það næsta ljóst hver munur var á málflutningi hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. í þessum umr.

En það hefur komið fram áður að fjh.- og viðskn. mun taka sparnaðarreikningafrv. til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. í tilefni þeirra ábendinga sem fram komu hér frá hv. 5. þm. Vesturl. Það er þá eðlilegt að einnig verði litið á þetta frv. sem við erum hér með vegna þess að mér sýnist við nánari athugun að 1. gr. þessa frv. sé með þeim hætti að þar þurfi að lagfæra a. m. k. orðalag og setningaskipan því að hún er ekki mjög aðgengileg og ekki mjög skiljanleg. Hún er raunar ekki á mannamáli, eins og menn stundum taka til orða. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa þessa grein, en hún hljóðar svo:

„3. mgr. 16. gr. laganna orðist svo:

Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst mismunur á söluverði þess annars vegar og stofnverði þess að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr., og 25% af innlausn innistæðu húsnæðissparnaðarreiknings, í tengslum við kaup, byggingu eða endurbætur íbúðarhúsnæðis, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um húsnæðissparnaðarreikninga, hins vegar þegar stofnverðið, söluhagnaðurinn og 25% innistæðuinnlausnar hefur verið hækkað eða lækkað skv. verðbreytingarstuðli eftir ákvæðum 26. gr.

Ég er ekki að gera neinn efnislegan ágreining um þetta mál, síður en svo. Rétt er það að skattalög eru orðin mjög flókin og þetta er kannske alveg sígilt dæmi um lagagrein, sem er nokkurn veginn alveg óskiljanleg. Ég held að við verðum að freista þess í nefndinni á morgun á þeim fundi sem formaður hefur boðað, hv. 4. þm. Norðurl. v., að fá þar aðstoð hinna hæfustu manna til að gera þennan lagatexta þó ekki sé nema ögn skýrari og skiljanlegri.