06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

72. mál, forræðislausir foreldrar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég er ekki hér með greinargerð yfir það hver hefur orðið niðurstaða í þessum 71 úrskurði og hvernig framhaldið hefur þar orðið og veit ekki hversu auðvelt er að afla þeirra upplýsinga. Ég vil aðeins undirstrika það, sem ég held að hafi komið hér fram hjá báðum síðustu ræðumönnum, að þessi mál eru ákaflega viðkvæm og erfið. Vissulega er hörmulegt að það skuli þurfa að koma til úrskurðar um umgengnisrétt, því að æskilegt er að samkomulag geti orðið milli foreldra um það hvernig umgengnisréttinum yrði hagað þrátt fyrir að þau hafi ákveðið að slíta samvistir.

En vegna þess sem hv. 10. landsk. þm. sagði, að ekki ætti að gera greinarmun á skilgetnum og óskilgetnum börnum eins og ég hefði gert í mínu svari, þá held ég að það sé ómögulegt annað en gera það í sambandi við þá breytingu sem varð á lögunum. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum ég hefði átt að gera það á annan hátt vegna þeirrar breytingar sem einmitt varð á þessu atriði við lagabreytinguna. Ég held að í mínu máli hafi hvorki komið fram neinn dómur eða sakfelling á þessi börn, heldur var ég aðeins að skýra frá staðreyndum lagabreytingarinnar.

En sá annmarki sem ég hef orðið var við er fyrst og fremst sá sem ég gat um í mínu svari, þ.e. dráttur á svari frá barnaverndarnefndum þegar til þeirra hefur þurft að leita. Og jafnframt að þessi mál taka nokkurn tíma því að það hlýtur að verða að skoða þau rækilega til þess að kveða þar ekki upp einhverja sleggjudóma heldur reyna að leita þeirrar lausnar sem er sanngjörnust og best, fyrst og fremst auðvitað fyrir barnið en síðan þá einnig fyrir foreldrana.