06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5996 í B-deild Alþingistíðinda. (5414)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér eru á dagskrá tvö frv. um húsnæðismál, annað um tekjuöflun og hitt um greiðslujöfnun. Mig langar í upphafi að segja nokkur orð um húsnæðismálin almennt vegna þess að þau hafa verið mikið til umræðu hjá okkur. Það er raunar umhugsunarefni hvers vegna það er svo á Íslandi, en ekki hjá öðrum þjóðum á Vesturlöndum, að ekki hefur tekist að leysa húsnæðismál svo sæmilega viðunandi sé. Við höfum í gegnum árin leyst af hendi ýmiss konar stór verkefni, eins og að byggja upp samgöngur um landið, við höfum skipulagt á viðunandi hátt skólamál, við höfum skipulagt heilbrigðismál og yfirleitt tekist á við öll hin stóru samfélagslegu verkefni eins og aðrar vestrænar þjóðir nema húsnæðismál. Húsnæðismál, einn hinna stóru málaflokka á Íslandi, hafa í raun og veru aldrei verið tekin fyrir svo viðunandi sé. Það er líklega vegna þess að dulin öfl hafa verið þar með í spilinu á undanförnum árum. Það er verðbólgan sem hefur leyst húsnæðismálin á dularfullan hátt, svo dularfullan hátt að hellar kynslóðir skilja enn þá alls ekki hvernig þær fóru að því að koma yfir sig húsi. Heilar kynslóðir benda á einbýlishúsið sitt og segja: Þetta er svolítið sárt fyrst. Þetta tekur svona 2–3 ár, en þá ertu kominn yfir þetta.

Þetta er dæmi um stórkostlegan misskilning og hversu mikil vanþekking ríkir á Íslandi á hver raunverulegur húsnæðiskostnaður er. Ég hef stundum sagt að það muni verða mörgum hið mesta harmsefni að komast að raun um, þegar heilu kynslóðirnar þurfa — kannske fyrstar- loksins að fara að borga raunvirði húsnæðis til baka, að menn munu ekki geta byggt og búið eins og pabbi og mamma gerðu. Hinn raunverulegi húsnæðiskostnaður sem hlutfall af tekjum hefur aldrei komið í ljós. Það hefur aldrei komið í ljós hvað það kostar á heilli ævi að búa í húsnæði eins og við þekkjum nú á Íslandi.

Það kemur stundum upp í huga mér, þegar ég tek þátt í umræðum um húsnæðismál, þegar ég var eitt sinn búsettur erlendis og ætlaði að kaupa mér hús. Þá fór ég til húsnæðissjóðs eða byggingarsjóðs, building society, í Bretlandi og sagði þeim að mig vantaði hús. Þeir spurðu: Hvað hefurðu í laun? Ég sagði þeim hvað ég hefði í laun. Þá tóku þeir launin, margfölduðu þau með einhverri tölu, ég man ekki hvort það voru 2, 3 eða 4, lögðu síðan laun konu minnar við og sögðu: Þetta er lánið sem þú færð. Þetta verður að endast fyrir 95% húsverðsins. 5% færðu örugglega í banka. Þú borgar það á u. þ. b. þremur árum. Þar með ertu búinn að leysa þín húsnæðismál vegna þess að reynsla áranna segir okkur að það fer enginn á hausinn með því að taka á sig þessar skuldbindingar. — Þarna hafði stöðugt verðlag aldrei falið hinn raunverulega húsnæðiskostnað. Ég held að nú verði Íslendingar að taka húsnæðismálin fyrir og segja: Þetta mál verðum við að leysa eins og við höfum leyst samgöngumál, eins og við höfum leyst almannatryggingamál, skólamál, heilbrigðismál og önnur hin stóru viðfangsefni samfélagsins.

Eins og ævinlega þegar menn taka að velta fyrir sér efni eins og þessum málaflokki kemur í ljós að hann hefur tvær hliðar. Það er í fyrsta lagi hinn bráði vandi. Það er eldur laus í húsnæðismálum þjóðarinnar og hann verður að slökkva með öllum tiltækum ráðum vegna þess að afleiðingarnar, eins og sum okkar hafa orðið vör við á undanförnum misserum, félagslegar og heilsufarslegar afleiðingar sem við viljum ekki búa við, geta verið alvarlegar. Þá er það framtíðarlausnin eins og ég var að tala um áðan. Við verðum að spyrja: Í hvaða ramma eigum við að setja húsnæðismál á Íslandi þannig að það sé ekki angistarverkefni fimm ár lífs okkar að takast á við þessi mál? Við verðum að finna húsnæðismálum einhvern þann ramma að menn geti leyst þau á tiltölulega fyrirhafnarlítinn máta og síðan gert það annað sem þeir hafa ætlað sér í lífi sínu.

Þá eru uppi tveir möguleikar til að taka á þessum málum. Það má annars vegar reyna að mynda um þennan málaflokk einhvers konar þjóðarsátt. þ. e. að taka þetta mál út fyrir sviga eins og menn hafa að sumu leyti gert t. d. hvað snertir vegáætlun og annað. Menn hafa dregið lík mál út úr hinni brennandi orrahríð pólitíkurinnar á hverjum tíma, gert um þau langtímaáætlun sem síðan er endurskoðuð eftir því sem nauðsyn ber til hverju sinni. Það er spurning hvort hægt er að gera slíka framtíðaráætlun í húsnæðismálum á Íslandi þannig að kynslóðirnar viti nokkurn veginn að hverju þær ganga, þannig að fólk geti gengið að sæmilega öruggum hlut í húsnæðismálum og geti samtímis gert annað það sem það ætlar að gera í lífi sínu.

Hin leiðin er sú að segja bara: Húsnæðismálin eru eins og með gangbrautina. Sá sem keyrir á þig á gangbrautinni á að lækna þig. Það er ekki annarra verk að bæta þar um. Sá sem bregst þér ber ábyrgðina og á hann bendum við. Hann verður að koma með úrlausnirnar.

Ég held að menn verði að horfa á þessa möguleika. Viljum við láta húsnæðismálin á hverjum tíma byggjast á skammtímalausnum? Eigum við að láta fara með húsnæðismálin eins og landbúnað og sjávarútveg á Íslandi, að þar sé uppi neyðarástand á nokkurra missera fresti og þá séu skammtímalausnir notaðar til að bjarga málunum fyrir horn, síðan séu menn sæmilega rólegir í 4–5 mánuði þangað til næsta neyðarbylgja kemur og þá sé hún leyst á sama hátt? Eigum við að hafa þetta svona? Eigum við að taka húsbyggjendur á Íslandi á sömu jötuna og þessar gömlu atvinnugreinar og láta þá búa við skammtíma- eða bráðabirgðareddingarnar eða eigum við að reyna að marka þannig stefnu að börnin okkar og komandi kynslóðir viti nokkurn veginn að hverju þau ganga?

Það er ekki að ástæðulausu að þetta mál er tekið upp á Alþingi núna. Í fyrsta lagi hefur miklu verið lofað. Menn sem lofa miklu og eru í aðstöðu til að efna loforð sín bera mikla ábyrgð. Fyrir síðustu kosningar var lofað býsna miklu. Það voru í framboði stjórnmálaflokkar sem lofuðu t. d. 80% umframfjárþarfar. Hvað merkir það að lofa slíku fyrir kosningar? Með því eru menn að segja: Ef ég kemst til valda ætla ég að geta þetta. Þess vegna fylgir loforðunum ábyrgð.

Þessir stjórnmálaflokkar komust í ríkisstjórn og hafa haft alla möguleika til að láta loforðin rætast. Þess vegna er ábyrgð þeirra stór. Sömuleiðis hafa ráðherrar, sem líka geta ráðið og líka bera ábyrgð, sí og æ komið fram í fjölmiðlum og sagt: Nú erum við að bæta og nú erum við að breyta og nú erum við að hækka. En í hvert einasta skipti sem ráðamaðurinn kemur fram sjást viðbrögðin úti í samfélaginu. Daginn eftir að félmrh. lofar einhverju í sjónvarpi og segir að lánin eigi að hækka, þá selst þakjárn fyrir fleiri hundruð þúsunda vegna þess að fólkið trúir. Þess vegna er ábyrgð ráðamanna mikil. Við sjáum þessi ummerki út um allt.

Þetta mál er líka mikilvægt í umræðunum núna vegna þess að í hönd fara kjarasamningar. Við sáum hvernig ástand í húsnæðismálum kom eiginlega í veg fyrir að hérna gætu farið fram það sem hægt er að kalla með góðri samvisku „frjálsa samninga“ í fyrra. Það er ekki hægt að semja við eitt samningaborð við fólk sem hefur á milli sín gjá gersamlega ólíkra lífskjara eins og húsnæðismálin geta valdið. Hvernig er t. d. hægt í einum og sömu samningunum að semja fyrir iðnverkamann sem byggði og leysti sín húsnæðismál fyrir 25 árum og tvítugan iðnverkamann sem er að byggja núna? Lífskjör þeirra eru svo ólík að þeir eiga ekki samleið í þessum efnum og kjarasamningar ráða ekki við það verkefni að ná fram réttlæti. Þetta er grundvallaratriði. Og það er annað sem menn eiga að horfa á líka og eiga þess vegna að taka húsnæðismálin föstum tökum. Það er ekkert launakerfi í heiminum sem megnar að leysa húsnæðismál fjölskyldna á 5–8 árum á sama tíma og sömu fjölskyldur eru að eignast allt annað sem þarf til framtíðarinnar. Fólk er að koma sér upp heimili. Fólk er jafnvel enn í námi. Fólk er að eignast börn. Það er bundið af þessu. Hvernig í ósköpunum á launakerfi. eins og menn hafa gert kröfur til á Íslandi í gegnum árin, að leysa þetta mál á 5–6 árum? Það er ekki hægt, enda hefur sýnt sig að það er ekki hægt. Af þessum ástæðum er skylda stjórnvalda að taka þessi mál föstum tökum. Af þessum ástæðum er ekki hægt að bjóða upp á að húsnæðismál verði skiptimynt í samningum. Það er ekki hægt að standa frammi fyrir fólki og segja: Ef við framfylgjum réttlæti, eruð þið þá tilbúnir að semja við okkur? Réttlætið getur ekki verið samningsatriði. Þess vegna verður að taka húsnæðismál út fyrir sviga og það verður að gera þannig að þar sé leitað jöfnuðar og réttlætis milli kynslóða og milli stétta. Þá er kannske hægt að fara að tala um að menn geti samið sín á milli í kjarasamningum. Af þessum ástæðum held ég að húsnæðismál séu forgangsmál í íslenskri pólitík. Ég held að ef menn leysa húsnæðismál muni ganga ótal margt á eftir. Ég held t. d. að allir kjarasamningar verði ótrúlega miklu auðveldari. Það er einungis eitt dæmi um hvernig ég ímynda mér að þjóðlífið breytist ef almennilega er á þessum efnum tekið.

Það hefur verið fjallað um þessi mál í nokkrum smáatriðum áður í þessari umræðu. Það hefur verið lýst þeim viðræðum sem farið hafa fram milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég vil hins vegar lýsa því yfir að ég tel að ekki hafi verið leitað nógu sterklega annarra kosta en skattlagningarinnar. Þá á ég við ýmiss konar sparnað og hagræðingu. Það hljóta að vera til í þessu kerfi okkar peningar sem hægt sé að nýta í húsnæðismál án þess að til skattlagningar komi. Við höfum sífellt fyrir augunum þá staðreynd að við öflum mest allra þjóða. Allir venjulegir hagstuðlar og hagmælar segja: Þið eruð í efstu sætunum þegar við erum að mæla framleiðslu og þess háttar. Þegar hins vegar kemur að því að meta hversu mikið menn bera úr býtum, hvað sneiðin er stór, lendum við hryggilega aftarlega. Það hljóta að vera til peningar. Menn eiga t. d. að spyrja: Hvað hefur íslenska þjóðarbúið glatað miklum peningum á óhagstæðum lántökum? Látum lántökurnar vera, við skulum gefa okkur að þær hafi verið notaðar skynsamlega, en hvað er t. d. hver maður búinn að glata miklu á heimskulegum vaxtakjörum sem íslenska þjóðin hefur búið við? Hvað kostar okkur t. d. allt orkufylleríið, virkjanabrjálæðið og allt það? Þessara spurninga verðum við að spyrja. Við verðum að fá á því skýringu hvers vegna við bökum einhverja stærstu þjóðarköku í heimi og fáum svo einna minnstu sneiðina þegar upp er staðið. Þessara spurninga verðum við að spyrja. Hver mylur þessa köku niður á leiðinni úr bakaríinu yfir á skurðarborðið? Og ég segi: Í mylsnunni liggja þeir peningar sem geta bjargað okkur og skapað okkur sömu lífskjör og annað fólk á Vesturlöndum hefur og þeir geta eytt þeirri angist sem ríkir í húsnæðismálunum. Þess vegna segi ég að í þessum efnum, þ. e. hvað varðar sparnað og gerbreytingu á kerfinu, verðum við að leita peninga. Ef milliþinganefndin fer í þessi mál af einhverju viti verður hún að leggja áherslu á þessi sjónarmið.

Við verðum líka að taka á öðru máli sem menn eru nú farnir að tala meira um en áður. Það er lækkaður byggingarkostnaður. Ég er einn af þeim sem eru að byggja og ég veit hvernig þetta gerist. Ég veit að þó að ég verji miklu fé til hagræðingar, hvort sem það er í sambandi við teikningar eða bættar byggingaraðferðir, skilar sér ekki ein einasta króna af því til mín. Ég læt iðnaðarmönnum í té betri græjur. Ég legg í aukinn kostnað við einhverjar nýjar aðferðir. Það þýðir í sumum tilfellum tugþúsunda aukinn kostnað fyrir mig, en gamli góði uppmælingataxtinn sér um sína og það skilar sér ekki króna til baka. Sem sagt: breyttar aðferðir í húsnæðismálum hækka byggingarkostnað.

Það verður líka að taka til athugunar rekstur húsnæðis. Það er nóg nauðin við að koma húsnæðinu yfir sig. Menn verða líka að spyrja: Hvað kostar að reka þetta húsnæði? Það er líklega komið á annan áratug síðan menn fóru að benda á breyttar byggingaraðferðir á Íslandi sem mundu stórkostlega spara rekstrarkostnað og það er kannske ekki fyrr en á síðustu misserum sem menn hafa loksins tekið mark á því. Þá nefni ég t. d. breyttar aðferðir við einangrun.

Eitt er það enn sem ég tel að menn verði að líta á. Það er innlendur sparnaður. Við verðum að koma upp reikningum sem gefa þeim sem peninga eiga það öryggi sem þeir telja sig hingað til hafa haft í fjárfestingu, a. m. k. það öryggi sem þeir hafa haft í fjárfestingu í byggingu húsnæðis, og síðan eigum við að velta því fyrir okkur hvort við eigum ekki að stíga einu skrefi lengra til hvatningar og beinlínis að bjóða fólki þau kostakjör að það hneigist til þess að spara peninga sem að öðrum kosti hefðu farið í annað. Þannig fengjum við fé sem við gætum veitt þangað sem vandinn er mestur.

Ég ætla mér ekki að lengja þessa umræðu. Það er full ástæða til að hraða þessu máli. En ég ætla að ljúka máli mínu með því að minnast aftur á byggingarkostnaðinn. Ég held nefnilega að menn séu allt of lengi búnir að einblína á að afla meira fjár til húsnæðismála. Menn hafa gleymt því að það er nákvæmlega jafnmikið atriði að lækka byggingarkostnað. Sú króna sem sparast í byggingarkostnaði er þá króna sem ekki þarf að afla með sköttum, erlendum lánum eða einhverjum öðrum aðferðum sem mönnum hafa verið tiltækastar hér.

Ég ætla þá að láta máli mínu lokið um húsnæðismál að sinni. Þau koma aftur á dagskrá hér á eftir og þá mun ég víkja að öðrum atriðum.