07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6025 í B-deild Alþingistíðinda. (5461)

Um þingsköp

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér einungis hljóðs til að staðfesta að það hlýtur að vera rétt sem hæstv. forseti hér sagði, það gat ekki verið um neinn misskilning þar að ræða. Ég var í ritarastól, aðstoðarritari, í fyrradag þegar málið var til umr. og þá vissi forseti ekki annað en hæstv. viðskrh. væri í húsinu. Hann bað mig að finna hann. Það var ljós á honum. Verðirnir leituðu. Forseti frestaði málinu. Það gat ekki verið að hæstv. viðskrh. hefði tjáð honum að hann yrði ekki í húsinu eða væri svo vant við látinn að hann gæti ekki tekið þátt í umr. Ég tel mér skylt að staðfesta það sem forseti sagði.

Málinu var hins vegar frestað í gær því að hæstv. viðskrh. hafði þá lögmæt forföll, en engu að síður var hann þó kominn í húsið rúmlega þrjú og þá var hægt að taka málið fyrir. Ég held að forseti hafi samt sem áður ekki gert það. Nægur tími hefur því væntanlega verið til umhugsunar. Og ég veit að hæstv. viðskrh. hefur mikið hugsað um mál þetta, einmitt þetta mál, þó að niðurstaða hans sé hins vegar röng. Það er fylgt rangri stefnu að binda sparifé þjóðarinnar. En því getum við komið að síðar. Hans stefna er röng í því. En hann hefur haft nægan tíma í allan vetur til að hugsa um þetta mál þannig að hann þurfti ekkert að biðja um neina frestun í gær.