06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði. Hæstv. ráðh. skýrir frá því í svörum sínum, sem ég þakka fyrir, að um þetta mál hafi verið samið í ríkisstj. Um hvað er verið að semja? Það er verið að semja um undanþágu til tiltekins fyrirtækis frá annars lögboðnum gjöldum. Að vísu nú með ákveðnum skilyrðum. Þeim skilyrðum að þetta skattalausa forréttindafyrirtæki skuli þar á móti láta svo lítið að lækka verð sitt, a.m.k. til bráðabirgða, um svona nokkurn veginn þá upphæð sem ella ætti að renna í ríkissjóð.

Þetta er ákaflega sérkennileg afgreiðsla á málum. Lög eru í landinu um það að fyrirtæki og samkeppnisaðilar eigi að standa jafnt að vígi með því að greiða slíka skatta og slík gjöld og allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Og ef um er að ræða að einhver fyrirtæki greiði ekki slík gjöld, eins og t.d. vörugjald og söluskatt, eru við því hin ströngustu viðurlög, jafnvel lokun á rekstri fyrirtækisins og sektir og hegningar. En hér hafa ráðh. náð pólitískri samstóðu um að þetta fyrirtæki skuli njóta alveg sérstakrar fyrirgreiðslu. Þetta er alveg sérstaki pólitíski fyrirgreiðslufyrirtæki, einn hornsteinninn að þessu makalausa milliliðakerfi Framsfl. í landbúnaðarmálum.

Ég verð að segja fyrir mig að ég gef enn ekki upp alla von vegna svara hæstv. ráðh. Hann sagði þó að þetta væri tímabundið ástand, að lengra hefði hann ekki komist fyrir ofríki framsóknarmanna í báðum flokkum og í ríkisstj. Hann hefði þó komið því til leiðar að verðið yrði lækkað til neytenda þangað til niðurstöður kæmu og þær ætti að leggja fyrir þing í haust. Af því sjá menn að það var ekki út í hött að spyrja. Og viturleg ákvörðun hjá herra forseta að leyfa þessar utandagskrárumræður á sínum tíma. Það er ástæða til að halda þessu máli vakandi. Það er ástæða til að spyrja: Hvenær lýkur þessari úttekt og þessari rannsókn á hinni óeðlilegu verðmyndun sem hér um ræðir? Ég ber fyllsta traust til þeirra manna sem um þetta fjalla. Ég þykist hins vegar vita að annars vegar fulltrúi landbrh. og hins vegar eðlisfræðingur Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum, Þorvaldur Búason, eigi langa leið áður en þeir ná sameiginlegum niðurstöðum um þetta.

En kjarni málsins er sá að við bíðum enn eftir niðurstöðum. Og þetta er ekkert ómerkilegt mál. Þetta er ekkert smámál og þetta er ekkert gamanmál. Þetta er mál sem snertir grundvallaratriði eins og það hvort menn eru jafnir hér fyrir lögum eða ekki. Og það snertir vægast sagt gífurlega pólitíska hagsmuni. Það eru engar ýkjur þegar sagt er að sjaldan hafi hrikt jafnrækilega í feysknum máttarstoðum þessa stjórnarsamstarfs eins og í þessu máli, sbr. þau frv. sem þm. Framsfl. lögðu fram en að vísu gufuðu upp í meðförum þings.

Ég vil aðeins, herra forseti, um leið og ég endurtek þakkir mínar til ráðh. fyrir þessi svör, árétta að þessu máli verður haldið vakandi, því verður fylgt eftir, það verður spurst fyrir um það í framhaldi af þessu og ef langur dráttur verður á endanlegum niðurstöðum leitast við að fá þær kynntar hér á hinu háa Alþingi. Ég vitna enn til þess að hæstv. ráðh. er í þeirri stöðu að hann hefur sagt: Ég er einfær um að framfylgja lögum í þessu landi, ég þarf enga ráðherranefnd mér til halds og trausts í því efni. Hins vegar hefur hann sagt: Það er sjálfsagt að taka þetta mál í víðara samhengi og rannsaka til hlítar þá verðmyndun sem lýsir sér í því að fyrirtæki af þessu tagi geta stundað stórkostlega fjárfestingu án þess að leita til lánastofnana, m.ö.o. með því að taka það úr rekstri og velta kostnaðinum jafnóðum yfir á neytendur. Drög að frv. voru kynnt s.l. vor, sagði hæstv. ráðh. Og ef ég man rétt úr umr. á seinasta þingi höfðu þau þegar verið kynnt ríkisstj. fyrr. Hæstv. ráðh. hefur ákveðið að leggja þetta frv. fyrir ríkisstj. á ný.

Þessu máli verður haldið vakandi. Ég verð að játa að þetta er óeðlileg afgreiðsla á máli sem raunverulega, ef einhver Jón Jónsson úti í bæ ætti hlut að máli, væri dómstólamál.