10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6123 í B-deild Alþingistíðinda. (5581)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna þessa frv. sem hér er komið til Nd. vil ég minna á umræður sem fóru fram um verðlagningu á olíuvörum af tilefni þáltill. sem flutt var af hv. 3. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni. Við þá umræðu var rætt um þann samanburð sem gerður hefur verið á verðlagningu olíuvara, annars vegar hérlendis og hins vegar í nágrannalöndum, ekki síst til fiskiskipa. Hæstv. viðskrh. reiddi fram í þeirri umræðu munnlegar upplýsingar um stöðu þessara mála eins og hann taldi hana vera varðandi samanburð á verði á olíuvörum hérlendis og erlendis. Ég óskaði eftir því af þessu tilefni að þingið fengi skilmerkilega aðgang að þeim upplýsingum sem viðskrn. vissi réttastar í þessum efnum. En sem kunnugt er hefur mikið verið rætt og ritað um verðlagningu á olíuvörum hér. Síðast í desember s. l. og raunar aftur í mars, ef ég man rétt, komu fram upplýsingar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem engan veginn voru samhljóma þeim upplýsingum sem hæstv. viðskrh. gerði grein fyrir.

Ég vænti þess að hv. þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar fái einnig upplýsingar sem þessa hluti snerta en teldi hins vegar mjög æskilegt að hæstv. viðskrh. kæmi á framfæri við þingið upplýsingum um verðmyndun, verðlagningu og samanburð á verði á olíuvörum hérlendis og í grannlöndum, svo sem Bretlandi, Danmörku og Noregi.