10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6158 í B-deild Alþingistíðinda. (5609)

456. mál, Byggðastofnun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vakti á því athygli fyrr við þessa umr. að enn eru að bætast við Íslandsmet hjá hæstv. ríkisstj. Þau eru orðin býsna mörg metin sem hún hefur slegið á tveggja ára valdatíma. Hún vann það fyrst að ráðast á kjör launafólksins í landinu með harkalegri og grimmúðlegri hætti en þekkst hefur í sögu lýðveldisins. bannaði samninga um kaup og kjör í landinu eftir einræðisfyrirmyndum, stífði niður launin um hátt í þriðjung hjá launafólki. Það var ekki fyrr en launafólk tók höndum saman að unnt reyndist að hnekkja þeirri stefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar að neita samningum um kaup og kjör í landinu. Láglaunastefnunni er hins vegar við haldið af ríkisstj. enn þann dag í dag. Af þeirri braut hefur hún ekki vikið og þess sjást í raun engin merki að hún átti sig á því til hvers ófarnaðar sú stefna leiðir og þá ekki síst í byggðamálum í landinu.

Annað atriði og það sem tengist því máli sem hér er til umræðu er einmitt uppskeran af stjórnarstefnunni varðandi búsetuþróun í landinu. Síðasta ár hefur tölulega flutt fleira fólk frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en gerst hefur frá því skráning hófst á slíkum tilfærslum. þar sem ekki hafa flust færri en 1071 maður umfram aðflutta til landsbyggðarinnar. Landsbyggðin hefur tapað yfir 1000 manns nettó á einu ári. Slíkt hefur ekki gerst síðan árið 1961. Það bendir allt til þess að þessi þróun haldi áfram í enn auknum mæli. að þessi bylgja fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sé rísandi og það býsna bratt.

Eitt af því sem heldur aftur af fólki úti um landið sem hneppt er í viðjar láglaunastefnunnar og þess aðstöðumunar sem ríkisstj. hefur gert enn meiri og bitrari en áður var — því að í rauninni er það ekki vilji manna úti á landi að pakka saman og yfirgefa sína heimabyggð — eru þeir erfiðleikar sem við blasa hvarvetna úti um landið að selja þær eignir sem menn hugsanlega eiga, losna við fasteignir á einhverju því verði sem geti gert mönnum kleift að endurnýja slíkt þar sem meiri umsvil eru í þjóðfélaginu, þar sem safnast saman þeir aðilar sem njóta stjórnarstefnunnar, þangað sem fjármagnið hefur verið flutt af ríkisstjórninni með hennar stefnu.

Vegna þess að formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins hlýðir á þessa umr., hv. þm. Stefán Guðmundsson, vil ég inna hann eftir því hér, þar sem ég var að ræða um tölur varðandi fólksflutninga frá landsbyggðinni til Reykjavíkursvæðisins. hvernig standi á því að þessi mál eru ekki rakin og tíunduð í ársskýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins. Hvað veldur því að mörg meginatriði í þeirri vinnu sem starfsmenn Framkvæmdastofnunar ríkisins unnu í sambandi við byggðamálin fengu ekki rúm í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 1984 sem nýlega var lögð hér á borð þm. og ég hygg að eftir sé að mæla hér fyrir og ræða ásamt öðrum málefnum Framkvæmdastofnunar? Hvaða ástæður voru fyrir því að meiri hluti stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins vildi ekki taka inn í skýrslu stofnunarinnar þá megindrætti sem liggja fyrir í sambandi við óheillavænlega þróun byggðamála í landinu? Kinokaði stjórnin sér við því að leggja þær niðurstöður á borð þm. og fyrir fjölmiðla? Hvaða nýbreytni er það sem upp er tekin hjá meiri hluta stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins að hafa uppi ritskoðun af þessu tagi og leitast við að fela staðreyndir sem eru ekki aðeins óþægilegar fyrir landsbyggðina, sem byggðadeild Framkvæmdastofnunar á að þjóna, heldur virðist vera svo mikið feimnismál fyrir stjórnarmeirihlutann að því er hafnað að taka slíka þætti inn í ársskýrslu Framkvæmdastofnunar?

Ég vænti þess að hv. stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar ríkisins, Stefán Guðmundsson, skýri þessi mál af sinni hálfu og greini okkur þá frá því hvort það sé rangt sem ég hér staðhæfi að lagst hafi verið gegn því af stjórn Framkvæmdastofnunar að taka inn í þessa skýrslu þessi yfirlit um fólksflutninga í landinu og það Íslandsmet sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur slegið í þessum efnum að knýja fram þá þjóðflutninga sem nú eru í fullum gangi. Ég efast ekkert um að hv. þm. mun taka þátt í þessari umr. enda held ég að annað sé ekki sæmandi en að sjálfur stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar, sem byggðadeild heyrir undir, láti sig þessi mál varða og greini frá sínum hug í sambandi við þróun þessara mála.

Þegar litið er til þeirra þátta sem ráðandi eru um byggðaþróun á Íslandi er augljóst að þar ræður annað en landkostir, sem réðu búsetu manna hér og bólfestu í árdaga. Þá völdu menn sér búsetu eftir landkostum og landgæðum. Það heyrir því miður orðið sögunni til. Það eru önnur öfl sem þar ráða. Það eru öflin sem bundist hafa böndum í núverandi ríkisstjórn Íslands fastar en nokkru sinni í sögu lýðveldisins og þó lengra sé leitað, fjármagnsöflin í landinu. Þau öfl sem líta númer eitt á fjármagnið, gróðann, hagnaðinn sem áttavita í sambandi við pólitíska stefnu. Svo hefur farið að það er ekki aðeins flokkur einkaframtaksins og sá sem dýrkar gróðann sem meginleiðarljós sem stendur fyrir þessari stefnu, heldur er það flokkur sem eitt sinn var kenndur við félagshyggju, sem eitt sinn átti rætur sínar á landsbyggðinni, sem sótti fylgi sitt þangað, sem stendur fyrir þessari stefnu og er þar í forsæti, þ. e. Framsfl.

Það er fleirum en mér og fleirum en okkur Alþb.mönnum ráðgáta hvernig það má vera að þessi flokkur, sem taldi sig til þess kvaddan að reisa merki samvinnu og félagshyggju á Íslandi hér fyrr á árum, skuli nú kyssa á vönd gróðaaflanna í þjóðfélaginu aftur og aftur í sambandi við flutning og afgreiðslu mála hér á Alþingi. Andstaða flokksins við markaðshyggju og gróðaöfl birtist okkur hér á Alþingi eingöngu í sýndarsérstöðu einstakra fárra þm. flokksins sem leyfa sér það stöku sinnum til þess að hægt sé að minna á það síðar meir, kannske í orrahríð næstu kosningabaráttu, að ekki hafi allir þm. Framsfl. elt íhaldið í þessu málinu eða hinu. En því er að sjálfsögðu alltaf þannig hagað undir hinni tryggu forustu hæstv. forsrh. og liðsmanna hans, formanns þingflokks Framsfl., bóndans frá Höllustöðum, að aldrei sé nokkur vafi um hvernig meiri hluti falli þegar á reynir í slíkum málum.

Þó að stundum heyrist kvartað undan því í Morgunblaðinu að nokkur dráttur sé á afgreiðslu stöku máls í þingflokki Framsfl. á undirbúningsstigi hygg ég að þau mál heyri nánast til undantekninga miðað við það hvernig Sjálfstfl. hefur haldið á málum, hvaða vilja hann hefur knúið fram í þessu stjórnarsamstarfi í hverju stórmálinu á fætur öðru. Það er vegna efnahagsstefnu ríkisstj. og félagsmálastefnu ríkisstj. sem hún hefur slegið Íslandsmet varðandi fólksflutninga á Íslandi frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins. Þar eiga allir ráðherrarnir hlut að máli, hver einasti og einn, og þar gefa framsóknarráðherrarnir hinum íhaldsráðherrunum ekki nokkurn skapaðan hlut eftir.

Það væri út af fyrir sig ástæða til að rekja það hvernig að þessum málum hefur verið staðið í einstökum ráðuneytum. En auðvitað er hlutur forsrh. sjálfs, þess sem á að fara með efnahagsstefnuna og sem jafnframt er húsbóndi Framkvæmdastofnunar og byggðadeildar hennar, mestur og um leið verstur í þessu máli. Það var hann, forsrh., sem beygði sig á síðasta sumri, sumrinu 1984, fyrir hinum nýja krónprinsi íhaldsins, hv. þm. Þorsteini Pálssyni, með því að gefa ávöxtun fjármagnsins á Íslandi frjálsa, gefa vextina á Íslandi frjálsa og gefa Morgunblaðinu þar með tilefni og tækifæri til að hrópa með stórum fyrirsögnum að brotið hefði verið í blað í sambandi við efnahagsstefnu á Íslandi. Það er þessi okurstefna fjármagnsins sem á nú þegar drýgri þátt en flest annað í þeim fólksflutningum sem ég var að nefna og er undirrót þeirra og á eftir að koma enn frekar fram.

Hvernig halda menn að þróunin hafi verið í bankamálum á Íslandi á þessum tíma sem síðan er liðinn og reyndar í tíð ríkisstj. allrar? Þær tölur sem þar liggja fyrir og þið getið fengið hvern bankastjórann og útibússtjórann á fætur öðrum til að staðfesta sýna svo að ekki verður um villst hvar fjármagnið er, hvar menn eru aflögufærir á Íslandi og hvar menn eru orðnir þurfalingar. Þar standa tölurnar þannig t. d., svo að litið sé til Landsbanka Íslands, að í ársbyrjun 1983 voru 62.5% af heildarinnlánum hjá Landsbankanum úr Reykjavík, 37.5% utan Reykjavíkur. Á árunum 1983 og 1984 hækkaði raunvirði innlána hjá Landsbankanum um 1665 millj. kr. Af þessu nýja innlánsfé var hlutur landsbyggðarinnar hins vegar ekki lengur 37.5% eins og áður heldur aðeins 14.1%. Hlutur Reykjavíkur einnar var hins vegar kominn upp í 85.9% af innlánsaukningunni. Þetta eru tölur sem tala sínu máli.

Þetta var Landsbankinn. Lítum til annarra banka, þ. á m. Búnaðarbankans, sem á mikil viðskipti við landsbyggðina eins og hv. formaður bankaráðs Búnaðarbankans gæti staðfest og greint okkur eflaust frá mörgum tölum þar að lútandi um öfugþróun af sama tagi og ég var að rekja hér í sambandi við Landsbankann. Þar standa málin nefnilega þannig — um það er mér kunnugt af viðtölum við bankastjóra Búnaðarbankans úti um landið — að innlánsaukningin hefur rýrnað í jafnmiklum mæli og eftirspurnin eftir fjármagni hefur vaxið. Þar standa hlutirnir nákvæmlega á haus miðað við það sem áður var, miðað við innlánsaukninguna í Reykjavík og nágrenni annars vegar og hins vegar úti um landið.

Það er ekki fjandskapur við höfuðstað Íslands, Reykjavík, eða nágrenni hans að upplýsa um slíka þætti, að fara með slíkar tölur. Það er langt í frá. Ég el ekki í brjósti neinn fjandskap í garð þessa landshorns enda er ég þeirrar skoðunar að gæfa Íslands á heildina litið til lengri tíma sé ein og óskipt. Ég tel að sú þróun í byggðamálum sem nú á sér stað sé ógæfa höfuðborgarinnar og nágrennis hennar í reynd, ógæfa Íslands alls, sem á eftir að hefna sín fyrir þjóðarheildina og gerir það raunar nú þegar. Það er því aðeins raunsæi að líta á þá gífurlegu öfugþróun sem á sér stað í sambandi við fjármagnstilfærslur í landinu, aðbúnaðinn að atvinnuvegunum í landinu undir þessari ríkisstj. Það er þess vegna sem ég er að rekja þessa hluti hér. Hvernig er staða þeirra grunngreina sem verið hafa burðarásar atvinnulífs á landsbyggðinni um áratugi og eru ekki aðeins burðarásar atvinnulífs þar heldur undirstaða undir íslenskum þjóðarbúskap í reynd? Hvernig er komið stöðu þeirra burðarása sjávarútvegsins og landbúnaðarins undir forsæti Framsfl.?

Ég rakti það nokkuð tölulega fyrr í þessari umr. hvernig fjármagnið hefur verið flutt frá fyrirtækjum í sjávarútvegi, sama hvort um er að ræða einkafyrirtæki eins og í Bolungarvík, bæjarútgerð eins og á Akureyri, samvinnurekstur eða blandaðan rekstur. Alls staðar hefur verið að fjara undan fyrirtækjum í þessum greinum hringinn í kringum landið. Hvaða upphæðir eru það sem þarna er um að ræða? Jú, það er svo komið að Morgunblaðið er farið að sjá sig tilknúið loksins að nefna slíkar tölur sem hafa nánast verið bannorð í málgögnum stjórnarflokkanna að undanförnu og hv. stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins sér enga ástæðu til að taka inn í skýrslu sína um byggðaþróun í landinu. Þetta eru 6000 millj. kr. í versnandi eiginfjárstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi á aðeins tveimur árum. Er þetta ekki bara af því að þessum fyrirtækjum er svo illa stjórnað, hv. þm. Stefán Guðmundsson? Er þetta ekki bara slæm stjórn sem nauðsynlegt er að kippa í liðinn, að það fjari þannig undan fyrirtækjum í sjávarútvegi á Íslandi? Er það ekki bara versnandi afli, utanaðkomandi aðstæður? Er stjórnarstefnunni nokkuð um að kenna?

Hvernig var staðan í ráðherratíð Steingríms Hermannssonar sem sjútvrh., ætlaði þm. að segja. Það er alveg rétt. Ég ræddi þá stöðu sjávarútvegsins í fyrra og hitteðfyrra hér á Alþingi, hvernig haldið var á málum sjávarútvegsins af Steingrími Hermannssyni sem sjútvrh. Það er kannske ekki von að það batni mikið staðan við það að sami hæstv. ráðh.. formaður Framsfl., flyst úr sjútvrn. upp í forsrn. og gerist þar oddviti efnahagsstefnunnar á Íslandi. Ég er alveg reiðubúinn að rifja það upp fyrir hv. þm. hvernig haldið var á ýmsum þáttum sjávarútvegsmála á Íslandi þegar hæstv. núv. forsrh. fór með þau mál og hv. þm. Tómas Árnason, sem nú er búinn að koma sér fyrir í Seðlabanka Íslands, fór með viðskiptamál á Íslandi. Þessir tveir ráðherrar hjálpuðust að því í ríkisstjórn undir forsæti dr. Gunnars Thoroddsens að undirbúa þá öfugþróun í íslenskum sjávarútvegi sem keyrt hefur um þverbak nú þegar þeir eru komnir í kompaní við Geirsarm Sjálfstfl. þar sem reyndar allur þingflokkurinn hefur skriðið saman í núv. ríkisstj.

Ég get rifjað það upp fyrir hv. þm. Stefáni Guðmundssyni — því að hann virðist hafa þörf á að fá smávegis upprifjun — hvernig hæstv. sjútvrh. í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens tók á málum sumarið 1982. Þá var málum þannig komið að mati þeirra sem í rekstri sjávarútvegs stóðu á þeim tíma að lá við strandi. Menn töldu það blasa við að það væri alveg vonlaust að halda áfram að gera út á Íslandi við þær rekstraraðstæður sem þá voru ríkjandi og gerðu kröfu um leiðréttingu.

Sjútvrh. ætlaði að bregðast skjótt og hart við og hann setti á laggirnar það sem hann kallaði stormsveit. Ég held að það hafi verið í byrjun júlí eða var það í júnímánuði þarna um sumarið? Þessi stormsveit sérfræðinga sjútvrh. kom fram með sínar tillögur um mánaðamótin júlí/ágúst 1982 og sjútvrh. kom með þessar tillögur inn í ríkisstj. Eftir verulegar umræður í ríkisstj. og efasemdir margra samráðherra um að þessar aðgerðir nægðu til að skapa sjávarútveginum viðunandi grundvöll á sumarmánuðum 1982 var þó í meginatriðum á tillögur sjútvrh. fallist. Síðan stóð slagur um skiptin á þessu dæmi, fiskverð og annað slíkt.

En þegar upp var gert og allt átti að vera komið þokkalega á hreint neituðu menn að róa. Ég held að það hafi verið eitt fyrsta stoppið um mjög langan tíma þar sem útgerðarmenn ekki undu við niðurstöðu eftir víðtækar efnahagsaðgerðir sem sjútvrh. eðli máls samkvæmt í ríkisstj. bar meginábyrgð á. Það urðu allir ráðherrar í ríkisstj. að leggjast á eitt á þessum tíma-og það veit ég að hv. þm. og þáv. hæstv. dómsmrh., sem hér hlýðir á, man og getur staðfest — til að leysa þennan hnút sem þá lá fyrir af því að rangt hafði verið spáð í spilin í sambandi við afkomumöguleika og aðstæður í íslenskum sjávarútvegi.

Það mætti rekja fyrir hv. þm. Stefáni Guðmundssyni mörg svipuð dæmi fyrir utan það að nefna hvernig ráðherra sjávarútvegsmála á þeim tíma var alltaf fyrstur manna til að auglýsa nauðsyn gengislækkana með góðum fyrirvara áður en þær skullu á og varð að kalla til viðskrh., félaga hans, trekk í trekk til að lýsa því yfir mjög hátíðlega að þetta kæmi að sjálfsögðu ekki til greina, slíkt væri ekki til umræðu. Ég vísa til áramótanna 1982/1983. Framsfl. er því ekki fyrst að koma að sjávarútvegsmálum á Íslandi í núv. ríkisstj. En það hefur hins vegar syrt mjög alvarlega í álinn eftir að sameinast hafa í forystu ríkisstjórnar fyrrv. hæstv. sjútvrh. og núv. hæstv. sjútvrh., formaður og varaformaður Framsfl. Í þeirra tíð hefur það gerst að fjarað hefur í þessum mæli sem ég gat um undan fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi, fyrst og fremst undan fyrirtækjum á landsbyggðinni, svo nemur 6 milljörðum kr. á tveimur árum. Ég ætla ekki að fara út í fleiri upprifjanir úr fortíðinni, ég ætla ekki að fara að rífa upp innkaupastefnuna varðandi skip hér á árum áður, hún hefur verið rakin fyrr og sitthvað sem henni tengist.

Það eru ekki aðeins fyrirtækin í sjávarútvegi sem mörg hver eru þannig að komast á vonarvöl, sem er einn alvarlegasti þáttur í byggðaþróun á Íslandi nú. heldur er það svo, eins og hér hefur komið fram við umr., að ekki fæst lengur fólk til starfa í þessum fyrirtækjum vegna þeirrar láglaunastefnu og kreppustefnu gagnvart fólki sem vinnur við undirstöðuatvinnuvegi í landinu, sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Hún er búin að hrekja mikið af hæfu fólki út úr fiskvinnslustöðvum í landinu þannig að þar verður að kalla ýmist í útlendinga eða nýgræðinga til stórkostlegs tjóns fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Þetta er að gerast í kringum allt land og það veit ég að stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar ríkisins þekkir af eigin raun, úr eigin heimabyggð, hvernig sú öfugþróun hefur verið á undanförnum misserum.

Sú láglaunastefna og kjararánsstefna, sem uppi hefur verið gagnvart fólkinu sem vinnur við undirstöðuatvinnuvegi landsmanna og er um leið undirstaða atvinnulífs úti um landið, er kannske einn allra alvarlegasti þátturinn í stefnu núv. ríkisstj. Hvernig gróðaöflunum hér á Reykjavíkursvæðinu, öflum sem stunda þjónustustarfsemi af margháttuðu tagi, verslun og viðskipti, er gert kleift með efnahagsstefnu ríkisstj. að kaupa til sín vinnukraft eftir þörfum, yfirbjóða alla launataxta eftir því sem hentar, jafnt á hinum almenna vinnumarkaði sem opinbera starfsmenn. þetta þekkja allir, á sama tíma og fólki við fiskvinnslu og aðrar undirstöðugreinar eru skömmtuð laun sem á engan veg geta nægt til lífsframfæris og það býr við slíkt óöryggi í sambandi við sín störf sem blasir nú m. a. nöturlega við hér í fiskvinnslustöðvum á Reykjavíkursvæðinu og reyndar um allt land á sama tíma og stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi lætur sér sæma að fella frv. Guðmundar J. Guðmundssonar o. fl. sem átti að leiðrétta að nokkru það óöryggi sem þetta fólk, sem hörðum höndum vinnur við undirstöðuna, hýr við. Það er í rauninni orðin ósköp lítil von um að Eyjólfur hressist, að menn nái einhverjum áttum í þessari ríkisstj., þegar þeir eru eins heillum horfnir og birtist í síðustu viku þegar þetta réttindamál fólksins við undirstöðuatvinnuveg landsmanna var til atkvgr. hér á Alþingi.

En það er fleira en fiskur úti um landið. Þar er líka unnið að landbúnaði. Og ætli sé ekki sæmilega blómlegt í byggðum þar sem menn fást við landbúnað á Íslandi þessi misseri eftir meiri árgæsku en a. m. k. mjög lengi hefur gengið yfir Ísland, óvenjulega árgæsku hvað veðurguðina snertir? En hljóðið í bændum, framtöl bændastéttarinnar, skuldastaða bændastéttarinnar, staða þeirra fyrirtækja sem bændur skipta aðallega við, afurðasölufyrirtækja bænda, vitna um eitthvað allt, allt annað. Þar hafa komið upp uggvænlegar tölur, m. a. í sambandi við ársreikninga kaupfélaganna. rauðar tölur, taptölur, tölur um skuldastöðu bænda sem eru hrikalegri en sést hafa um áratugi. Það er alveg ljóst að þessari ríkisstj. er ekki aðeins að takast það að flæma fólk úr fiskvinnslustöðvum í landinu í ríkum mæli, heldur er henni að takast að reka bændur upp af búum sínum í meiri mæli en þekkst hefur á Íslandi á skömmum tíma, bændur sem hafa leitast við að koma upp lífvænlegum aðstæðum á jörðum sínum, hafa fjárfest til þess að geta framleitt fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkað vörur á því verði sem sæmilegt gæti talist fyrir neytendur, sem sagt að auka framleiðni í landbúnaði, en þeim er refsað með þeim hætti sem raun ber vitni. Skuldir fjölmargra bænda við afurðasölufélög, við kaupfélögin uxu um nærfellt 100% á síðasta ári og mörg dæmi eru um skuldaaukningu hjá þeim langt fram yfir það. Það þarf því engan að undra þó að skammt sé í að þeir menn taki pokann sinn og leiti út í óvissuna. Og hvar er boðið upp á gull og græna skóga? Ekki er það á næstu þéttbýlisstöðum. Nei, það er í borg Davíðs og nágrenni, þar sem umsvifin eru, þar sem húsgrunnarnir eru ekki lengur mældir í hundruðum fermetra heldur í hekturum í verslunarhöllum, eins og má sjá þegar menn aka hér upp Miklubrautina, þar sem einn slíkur húsgrunnur upp á a. m. k. einn hektara blasir við sjónum manna. Þar á að koma fyrir 6000 millj. sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur með efnahagsstefnu sinni verið að flytja frá landsbyggðinni undanfarin tvö ár hingað til borgar Davíðs.

Ég veit að Reykvíkingar margir hverjir, því að hér eins og alls staðar á Íslandi er meiri hluti manna vel hugsandi fólk sem ann hag þjóðarinnar í heild, horfa ekki með neinni gleði upp á þá þróun sem hér er í gangi, byggðasvæðin tíu sem eru að þjóta upp hér undir verndarvæng borgarstjórnaríhaldsins í Reykjavík og ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, hæstv. forsrh. Þeir skynja það að hér er verið að byggja upp á röngum forsendum. Undirstaðan sem menn telja sér trú um að þeir séu að leggja hér í húsgrunnunum í Reykjavík er ekki byggð á bjargi, hún er ekki bjarg, hún er í reynd sandur.

Ef þessi ríkisstjórn getur haldið áfram ætlunarverkum sínum, því að hún veit hvað hún er að gera þó að sumir hverjir þori ekki að kannast við það og síst í þessum ræðustól, þá mun ekki lengi standa sú gósentíð sem nú ríkir í Reykjavík og grennd í atvinnulegu tilliti. Þá mun einnig hér á þessu svæði fjara undan og ekki skapast viðfangsefni fyrir það fólk sem nú er verið að reka upp úr heimabyggðum sínum í þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna og af jörðum í sveitum landsins. Það er þessi þróun sem er nauðsynlegt að ræða hér ítarlega þegar verið er að fjalla um frv. til l. um Byggðastofnun sem segir nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut um það að breyta eigi um áherslur í sambandi við stjórnarstefnuna að því er varðar byggðaþróun í landinu. Frv. það sem hér er til umræðu er nánast innihaldslaust með öllu og skiptir í rauninni ekki nokkrum sköpuðum hlut hvort fram gengur hér á Alþingi eða ekki.

Við stjórnarandstæðingar erum með brtt. að reyna að sniða einstaka agnúa af þessu frv. og leggja til svo sjálfsagðan hlut að þessari breytingu á Byggðasjóði og Framkvæmdastofnun og tilkomu svonefndrar Byggðastofnunar fylgi a. m. k. það skref að þessi stofnun verði sett niður utan Reykjavíkur. En þá gerast þau undur og stórmerki að formaður þingflokks Framsfl. sér ástæðu til þess að koma hér upp í þennan ræðustól og gera alveg sérstaka athugasemd við þessa brtt. af hálfu okkar stjórnarandstæðinga við þetta frv. Og eins og rifjað hefur verið upp hér við umr. segir forsrh. náttúrlega, af því að hann vissi að það færi vel í eyrum á fólki norður í Eyjafirði, í gær eða fyrradag: „Jú, ég er alveg sammála þessu, en það má bara ekki setja það í lög. Stjórn þessarar stofnunar væntanleg á að ráða því hvar hún verður sett niður.“

Þetta eru í rauninni léttvæg atriði þó að þau séu táknræn. Það sem alvarlegt er í þessu máli er að hér er til umræðu frv. um byggðamál, þegar verr horfir í byggðaþróun á Íslandi en nokkru sinni fyrr, sem breytir ekki nokkrum einasta hlut í sambandi við forsendur þeirrar öfugþróunar sem í gangi er, þeirrar þróunar sem ríkisstjórn Verslunarráðsins og annarra þeirra afla sem mæla fyrir óheftum lögmálum markaðarins og gróðans, ríkisstjórn þeirra afla stendur fyrir. Ég held að það vefjist í rauninni ekki fyrir neinum sem virðir fyrir sér tveggja ára sögu þessarar ríkisstj. hver það er sem hefur lagt henni línurnar öllum öðrum fremur utan þings. Sá aðili ber heitið Verslunarráð Íslands. Og það hefur verið svo hreinskilið að ganga mjög hreint til verks og segja ríkisstj. fyrir verkum, flytja henni endurnýjað óskalista strax í byrjun í vöggugjöf og síðan að sjálfsögðu þegar þeir blessaðir formennirnir, Steingrímur og Þorsteinn, fóru að spá í spilin á síðasta ári, þá var að sjálfsögðu farið yfir málin á ný og Verslunarráð Íslands sendi nýja forskrift um næstu skref í efnahagsmálum á Íslandi í júlí 1984. Þeir gengu ekki frá endurskoðuðum stjórnarsáttmála þeir heiðursmenn hæstv. Þorsteinn Pálsson, ég leyfi mér að kalla hann hæstv. þó hann sé án ráðuneytis, og hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson. Ég held að það hafi verið komið fram í september þegar þeir luku því erfiða verki að úttæra nánar sáttmála sinn. En þá kom það líka í ljós að næstu skref Verslunarráðs Íslands í efnahagsmálum höfðu verið tekin nánast í öllum greinum, kannske ekki alltaf með alveg berum orðum eða nákvæmlega eins. inn í þennan nýja og endurskoðaða stjórnarsáttmála. Og það ern nú engir veifiskatar sem ráða ríkjum hjá Verslunarráði Íslands, það þekkja menn. Formaður Verslunarráðsins hefur gengið á fund hæstv. fjmrh. og fært honum ég held styttur og leiðbeiningar og plaköt til að hann gæti komið þessu fyrir á skrifstofu sinni og væri ætíð minnugur heilræða Verslunarráðsins. Ragnar Halldórsson, framkvæmdastjóri stærsta erlenda fyrirtækis á Íslandi, sem veitir Verslunarráði Íslands formenn,ku, var settur þar til starfa af Sjálfstfl. um það leyti sem deilur voru hvað harðastar í tíð fyrri ríkisstj. í sambandi við það fyrirtæki sem hann veitir forstöðu. En hann kann nú fræðin sín, pilturinn sá, og ætla ég ekki að fara að ræða það frekar hér að honum fjarstöddum, en þau hafa komist vel til skila í sáttmálum núv. ríkisstj. og í gerðum núv. ríkisstj. sem er miklu alvarlegra mál en orðin. Það eru athafnirnar sem á eftir hafa fylgt.

Við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar hér við umr. um Byggðastofnun: Er það svo að þeir sem fyrir landinu ráða nú séu þeirrar skoðunar að það sé í reynd ekkert púkkandi upp á landsbyggðina á Íslandi. hinar dreifðu byggðir vítt um landið, og það sé best að ýta undir þá þróun, sem nú er í fullum gangi hraðar en nokkru sinni fyrr, að koma þessum sálum sem slöku maður hefur fullyrt, meira að segja í ríkisfjölmiðlana, að best sé að komi sér fyrir hér við Faxaflóann og það fyrr en seinna? Er það svo að það sé í raun niðurstaða þeirra sem nú ráða fyrir stjórn landsins að þetta sé heillavænlegt? Ef litið er til gerða þeirra er ekki hægt að ætla annað. Tæma frystihúsin, reka bændur upp af jörðum, breyta togskipum landsmanna í frystitogara hið fyrsta, þannig að það sé þá hægt að manna þá með Reykvíkingum sem unnt er að fá út á sjó, gera út á miðum hvar sem er í kringum landið og helst náttúrlega að selja veiðileyfi eftir forskrift Verslunarráðsins. Það kemur næst.

Ég held að það sé þörf á því að þessir ráðherrar, sem ég hef hér nefnt, allir með tölu gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum að þessu leyti og hvar það lið stendur sem tryggir þeim meiri hluta hér á Alþingi í þessum efnum. Hvar standa þm. landsbyggðarinnar sem horfa upp á þessa þróun í fullum gangi, hvað veldur þeim firnum að þeir skuli ekki bregðast við og segja ráðherrunum: Hingað og ekki lengra? Þetta gengur ekki, til þessa vorum við ekki kjörnir, að reka fólkið úr okkar kjördæmum suður til Reykjavíkur, út í óvissuna. á þann gadd sem þar mun skapast fyrr en varir þegar búið er að kippa undirstöðunum undan frumvinnslugreinum á Íslandi og menn komast að því að uppspretta auðs í þessu landi er ekki á vídeóleigum eða veitingastöðum hér í Reykjavík.

Það hafa ekki margir talað hér í þessari umr. úr röðum hv. stjórnarliða. En sumarið er eftir á Íslandi að drjúgum hluta og það er alveg ljóst að ríkisstj. er alveg til með það og lítur á það sem nýmæli til að brydda upp á að Alþingi Íslendinga sitji yfir sumarið. Í það er stefnt nú og við sem í stjórnarandstöðu störfum tökum því að sjálfsögðu að eiga orðastað við ríkisstj. hér í allt sumar og hennar stuðningslið. Hins vegar er mönnum það nokkur ráðgáta hvernig á því stendur að ríkisstj. hefur þegar slegið Íslandsmet varðandi þingstörf og ætlar sér að bæta enn um betur í þeim efnum. Getur það hugsast að á bak við leynist hjá ráðherraliðinu sú hugsun að það sé nú ekki vert að hleypa þessum landsbyggðarþingmönnum stjórnarliðsins mikið heim undir í sumar? Þeir gætu kannske fengið orð í eyra og uppgötvað að það væri ekki allt með felldu með ráðsmennskuna hérna við Austurvöll og uppi í stjórnarráði. Það gæti verið að einstaka fyrrverandi stuðningsmaður ríkisstj. úti um landið hefði uppi einhver gagnrýnisorð þannig að þessir hv. þm. sæju ástæðu til þess að endurskoða hug sinn í þessum efnum. Þetta er hugsanleg skýring á þessari nýbreytni að stefna hér að sumarþingi og láta frjósa saman að hausti 107. löggjafarsamkomu og 108. þing, sem venju samkvæmt ætti að hefjast 10. október að hausti.

Ég hef hér, herra forseti, vikið að nokkrum undirstöðuatriðum í sambandi við byggðamál á Íslandi. Ég hef hins vegar ekki komið hér í máli mínu að mörgum þeim atriðum sem ég tel nauðsynleg til að snúa þessari þróun við og það svo um muni. Ég hef hins vegar lagt fram um það þáltill. hér ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. með hvaða ráðum ég tel vænlegt að breyta þróun byggðamála í landinu, þannig að til heilla horfi fyrir landið allt. þar á meðal höfuðborgarsvæðið, sem á eftir að súpa seyðið af þeirri holskeflu fólksflótta sem nú er að skella yfir það í auknum mæli, og ég hefði ástæðu til að gera mörg þessara atriða hér að umræðuefni vegna þess að við erum hér að tala um stærsta mál Íslands í raun, ef frá eru talin sjálfstæðismál þjóðarinnar, en í raun eru þessir þættir allir samtvinnaðir. Við erum hér í raun í umræðum um byggðamálin einnig áð ræða efnahagslega undirstöðu Íslands og þar með efnahagslegt sjálfstæði landsmanna.

Menn hafa mátt greina það af máli mínu að ég tel að undir núv. stjórnarstefnu verði þessari þróun ekki snúið við og menn eru nú teknir að bera sig saman um það vítt um landið fram hjá stjórnmálaflokkunum hvað má oss til varnar verða. Um síðustu helgi héldu þing í Skjólbrekku í Mývatnssveit samtök fólks sem ekki hefur verið áberandi á stjórnmálavettvangi, fólks úr öllum landshlutum sem er á sinn hátt að velta því fyrir sér hvernig við getum reynt að koma vitinu fyrir landsstjórnina, þá sem ráða ferðinni á Íslandi. og stöðva þá skelfilegu þróun sem á sér stað í byggðarlögum um allt landið, fólks sem er að reyna að leita svara við þessu og láta til sín heyra. Ég skil vel þetta fólk og það eru reyndar í þessum hópi menn sem hafa setið á Alþingi Íslendinga, sem hafa gerst þar forgöngumenn og hefðu átt að vera stuðningsmenn núv. ríkisstj. ef þeir hefðu haldið tryggð við flokkinn sinn. Það er ekki að undra þó að slíkir menn gefi sig fram og ég er alveg viss um að þeim á eftir að fjölga.

Við höfum rætt um einn þátt hér í sambandi við frv. um Byggðastofnun og ég nefndi það hér, spurninguna um heimilisfang hennar og aðsetur. Ég hef ekki verið mjög bjartsýnn á það að á skömmum tíma væri unnt að rífa upp fjölmennar stofnanir grónar hér á þéttbýlissvæðinu og flytja þær út á landið þó að ég vilji gjarnan ljá slíkri viðleitni lið. Ég er þeirrar skoðunar að það beri að stuðla að slíku í allt öðrum mæli en gerst hefur til þessa. En eitt á að vera sjálfgefið og það er að koma þeirri þjónustu sem á heima úti í landshlutunum, þar sem verkefnin liggja fyrir úti í landshlutunum, að koma henni upp á heimaslóð. Það á ekki einu sinni að vera togstreitumál við höfuðborgina, eða það fólk sem starfar í núverandi stjórnsýslu hér, að þannig sé haldið á málum. Og það er lífsnauðsyn að það verði gert jafnframt því sem stoðum verði komið undir þjónustustarfsemi í öllum greinum úti um landið. því að það er öllum ljóst að vöxturinn í störfum á Íslandi, ný tækifæri í störfum verða fólgin í þjónustustarfsemi af einhverju tagi, opinberri starfsemi og þjónustustarfsemi við atvinnulífið í landinu. Það sýna tölur okkur, það sýnir reynsla nágrannaþjóða og því verðum við að tryggja að þessi þjónustustarfsemi nái að dafna úti um landið með allt öðrum hætti en gerst hefur fram til þessa.

Ég vil nefna eitt dæmi úr tíð síðustu ríkisstj., sem ég tel raunar með skárri verkum sem hún kom til leiðar og átti sjálfur nokkurn hlut þar að, ekki mjög stórt í sniðum, en sem hefur orðið til heilla fyrir landsbyggðina á þeim stutta tíma sem síðan er liðinn. Það er að koma upp iðnráðgjafastarfsemi, ráðgjöf í iðnaði úti í landshlutunum. Það var fest í lög með góðu samkomulagi innan ríkisstj. og hér á Alþingi 1981 að ég hygg. Síðan hafa komið til starfa iðnráðgjafar í öllum landshlutum og þessir starfsmenn á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaganna hafa einmitt orðið kveikjan að mjög efldu starfi á þessu sviði og aukinni umhugsun heimamanna um þessi málefni, iðnaðarmálefni og líka uppbyggingu þjónustuiðnaðar og þjónustustarfa í tengslum við iðnað. Ég held að það hafi í rauninni fátt sem hefur kostað jafnlítið orðið til þess að koma slíkri hreyfingu af stað eins og þetta út af fyrir sig litla nýmæli, en nýmæli samt, að koma fótum undir ráðgjafastarfsemi af þessu tagi úti um landið.

Ég heimsótti fyrir tveimur vikum iðnsýningu í mínu heimakjördæmi, Austurlandi, austur á Egilsstöðum þar sem fyrirtæki í iðnaði og þjónustu sýndu framleiðslu sína og starfsemi og kynntu hana. Til þessarar sýningar var stofnað af iðnþróunarfélagi og iðnráðgjafa á svæðinu, en iðnþróunarfélög hafa einmitt vaxið upp á þessum sama tíma úti í landshlutunum. Það er viðleitni af þessu tagi, það er stuðningur við starfsemi með þessum hætti sem þarf að koma til í margefldum mæli. Það á að vera verkefni okkar hér á Alþingi að ljá slíkri sjálfsbjargarviðleitni landshlutanna og byggðarlaganna um landið allt lið. Af slíku mun gróa.

Ég get nefnt annað dæmi. Fyrir ámóta löngum tíma, ég hygg 1981 eða 1982 á fyrri hluta árs, stofnuðu Eyfirðingar sérstakt iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, félagsskap sem sveitarfélögin við Eyjafjörð, Kaupfélag Eyfirðinga og ýmsir fleiri gerðust aðilar að. til þess að reyna að efla iðnað á sínu svæði og atvinnustarfsemi í víðum skilningi. Ég er kunnugur starfserni þessa félags, ég reyndi að ljá viðleitni heimamanna lið á sínum tíma með starfi nefndar sem gerði allítarlega úttekt á möguleikum á þessu svæði, og árangurinn af starfi þessa litla félags, Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar, sem veltir sjálft ekki stórum upphæðum, hefur nánast verið undraverður. Þeim hefur tekist á ekki lengri tíma að stofna til nýrra fyrirtækja í flestum þéttbýlisstöðunum við Eyjafjörð, á Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri og hugað hefur verið að því einnig í Grenivík að koma þar nýjum stoðum undir byggðaþróun og ný atvinnutækifæri.

Þetta er viðleitni sem ber að efla. Til þess þarf hins vegar fjármagn að auðvelda slíkt og snúa straumnum við, snúa fólksstraumnum við. Og það mun sannast að þegar tekst að koma þeirri ríkisstj. frá sem nú situr, þegar landsmenn bera gæfu til þess að kjósa til verka hér á Alþingi og í stjórnarráðinu aðila sem horfa til Íslands alls og skilja gangverkið í íslensku þjóðfélagi og hafa vilja til þess að stilla það þannig af að byggðir geti blómstrað um allt land, þá þarf að sjá til þess að fjármagn og annað sem til þarf verði lagt til byggðamála og byggðaþróunar eins og við margir hverjir fulltrúar landsbyggðarinnar hér á Alþingi vildum sjá hana.

Ég hef, herra forseti, ekki rætt hér nema lítið brot af því sem mér er í huga í sambandi við þetta frv. og þau stóru mál sem að baki þess liggja og ættu að standa í frv. en eru þar ekki. Ég hef ekki fjölyrt hér um stóra þætti og mjög afdrifaríka eins og menntamálin í landinu og hvernig á þeim er haldið með tilliti til landsbyggðarinnar. Það eitt væri efni í ámóta ræðu og ég hef þegar haldið, að tíunda það hvernig Sjálfstfl. með forustu menntamála í landinu er að brjóta niður raunar skólastarf á landinu öllu, en brjóta niður þó fyrst af öllu þá viðleitni sem hefur verið til þess að landsbyggðin stæði nokkurn veginn jafnfætis höfuðborgarsvæðinu að þessu leyti. Um það væri þörf að hafa mörg orð, því að menntastefnan tengist þeim hugmyndum sem menn eru hér í orði að gæla við á Alþingi, um þróun í atvinnulífi landsmanna, um nýsköpun í atvinnulífinu. En það er nú ekki svo að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera á stjórnarheimili hjá hæstv. forsrh. sem ber þetta frv. hér fram. Það sýna og sanna störf Sjálfstfl. að menntamálum í landinu. En það verður kannske efni í næsta þátt í umr. þessa máls og á kannske frekar heima, herra forseti, að ræða það í sambandi við nýsköpun í atvinnulífinu, sem einnig er hér á dagskrá og sjálfsagt er að ræða á þessari björtu sumarnótt eða þegar lengra líður fram á sumarið og þokar fram okkar ánægjulegu störfum hér í þinginu við Austurvöll.