10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6172 í B-deild Alþingistíðinda. (5612)

456. mál, Byggðastofnun

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða hér löngum tíma. Ég kem hér til að svara tveimur fsp. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beindi til mín. ( SvG: Er ekki rétt að láta kalla í þm. svo að hann heyri svarið?) Ja, það er svo sem nokkuð sama. Úr því að hv. þm. getur ekki verið við, þá verður hann bara að lesa það. en ég vil að það komi hér fram sem satt er og rétt í þessu máli.

Hv. þm. hafði orð á því að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hefði komið í veg fyrir að í ársskýrslu stofnunarinnar, sem er dreift hér á borð allra þm., hefði verið birt samantekt forstjóra byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Bjarna Einarssonar, um þróun byggðar í landinu s. l. 10 ár. Ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með það að þetta var kjarni þess sem hv. þm. spurði um.

Það er matsatriði hverju sinni hvað í ársskýrslu skal vera og hvernig þessar skýrslur eiga að líta út. Hvað því viðkemur að ekki var fjallað um þessa samantekt um byggðaþróun í ársskýrslunni er það að segja að það var mat forstjóra stofnunarinnar að eðlilegra væri að sá mikli fróðleikur sem þm. minntist á væri frekar gefinn út sem sérprentað plagg heldur en að taka hann inn í ársskýrslu stofnunarinnar. Það var ekki mat stjórnar stofnunarinnar. Enga ritskoðun frá hendi stjórnar stofnunarinnar var um að ræða eins og mér fannst liggja í orðum hv. þm. Það var ákvörðun forstjóra stofnunarinnar að svo skyldi vera. Og ég vil að það komi hér greinilega fram að það er ekki stjórnarinnar heldur er það forstjóranna að ákveða það hvernig ársskýrslan lítur út og þannig hefur það verið.

Hin spurningin var þannig: Hvað segir formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins um þetta frv. og hver er hans skoðun á frv.? Ég held að ég hafi nokkurn veginn hripað þetta rétt niður. Um þetta vil ég segja: Ég var einn af þeim sem sömdu þetta frv. um Byggðastofnun og hef þá trú að verði þetta frv. að lögum verði það til velfarnaðar fyrir hinar dreifðu byggðir landsins og reyndar landið allt. Ég vona að þetta nægi. (Gripið fram í: Ósköp stutt.) Já, það eru aðrir sem hér eru með málæði og ég læt þeim það eftir.