10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6173 í B-deild Alþingistíðinda. (5614)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég sé mig tilneyddan til að fara hér í stól. Ég hef um skeið fundið anda köldu í minn garð vegna grunsemda um að ég tefji framgang selveiðifrv. Ég uni þessu ekki lengur og ég krefst þess að málið verði tekið á dagskrá. Ég hef ekki beitt aðstöðu minni hér í þinginu, herra forseti, til þess að tefja framgang þessa þarfa máls á meðan hringormurinn veður uppi um allt land og ég tel að það sé þingleg skylda að selveiðimálið komist sem fyrst í framhald 2. umr. Ætli ég sé ekki á mælendaskrá þar, þar sem ég mun skýra mín sjónarmið í þessu máli. Ég uni því ekki lengur að kollegar mínir sýni svona ódulda andúð á framgöngu minni í því máli og fer þess vegna fram á það við forseta að selveiðimálið komist á dagskrá helst nú strax á þessum fundi.