10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6175 í B-deild Alþingistíðinda. (5620)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að ég hef ekki ástæðu til að ítreka grunsemdir mínar í garð hv. 4. landsk. þm. um að hann sé sérstakur vinur hringormsins og vænt um að hæstv. forseti hefur þvegið hann af þeim áburði.

Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs um þingsköp nú, herra forseti, til þess að benda á: Í fyrsta lagi er ekkert samkomulag fyrirliggjandi um þinghaldið. Í öðru lagi er ekkert samkomulag um það hvenær þingi lýkur. Í þriðja lagi er það meiningin að setja hér fund í dag, þ. e. á þessum sólarhring, kl. 14 og hann á að standa í Sþ. til kl. 16. Í kvöld er síðan ætlunin að hafa útvarpsumræður. Ég mótmæli því mjög harðlega að hæstv. forseti Nd. beiti valdi sínu til þess að halda hér áfram fundum langt inn í nóttina. Ég tel að við höfum nógan tíma til að ræða þessi mikilvægu mál á eðlilegum fundartímum. Ég tel að ekkert kalli á það að þessari umr. verði endilega lokið núna í nótt.

Ég skora þess vegna á hæstv. forseta að sýna sanngirni og beita sér fyrir því að þessum fundi geti lokið innan klukkustundar eða svo, jafnvel þó að eitthvað kunni að verða órætt af þeim mikilvægu málum sem hér eru á dagskrá.