10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6196 í B-deild Alþingistíðinda. (5654)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Frsm. minni hl. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. um till. til þál. um sölu Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar og enn er hægt að vitna til frv. um verðmiðlun og sölu á búvörum þar sem gert er ráð fyrir að rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins verði breytt. Ég tel því eða minni hl. n. sem ég skipa einn, eins og í málinu sem var hér á undan til umr., að ekki sé rökrétt að slíta þessa einu ráðstöfun úr tengslum við framkvæmd þess lagafrv. Ég tek í sjálfu sér ekki afstöðu til þess þó það kunni vel að vera að rétt sé að selja þetta hús, en ég legg til að málinu verði vísað til ríkisstj., og fái hún framkvæmdavald í þeim málum vegna þess að þeir ráðherrar sem um málið fjalla fá væntanlega það verkefni að framkvæma þau lög um verðmiðlun og sölu á búvörum sem samþykkt verða hér í hv. Alþingi ef af því verður að þau fái afgreiðslu hér fyrir þinglok sem ég býst við að verði.

Það kom reyndar fram í ræðu frsm. meiri hl. hér áðan, hv. 11. landsk. þm., að meiri hl. n. hefur fallið frá sölu á Áburðarverksmiðjunni vegna þess að þegar menn settust niður við að hugsa málið sáu menn ekki að kaupendur mundu finnast. Það getur nú bent til þess að í þessari sölumennsku allri saman, sem ríður yfir núna og sem er mikið umtöluð og rekur hvert frv. annað um að selja ríkisfyrirtæki og fyrirtæki því tengd, sé gott og hollt einstöku sinnum að hugsa málið aðeins. Því legg ég til að þessu máli verði vísað til ríkisstj. og hún ákveði næsta skref. Auðvitað ber ég fullt traust til ríkisstj. og trúi því ekki að hv. þm. hafi á móti því að fela henni framkvæmd þessa máls, a. m. k. ekki þeir þm. sem styðja hana.