07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess hvað ég oft tók grimmilega á því þegar hv. þm. eða ríkisstj. sniðgekk í orðum sínum og athöfnum vald Alþingis. Ég held mér fast við þá afstöðu mína að framkvæmdavaldið verður að gá vel og miklu betur en jafnan hefur verið gert að því að hlíta ákvörðunum hins háa Alþingis. Hér eru lög í landinu sem þetta fyrirtæki varða. Þeim verður framfylgt og þau verða framkvæmd út í hörgul meðan þeim er ekki breytt af hinu háa Alþingi. Þetta vil ég taka afar skýrt fram, því menn misstíga sig svo oft í þessum sökum.

Ég hef sagt — og ég ætla að reyna að verða maður til þess á meðan ég gegni embætti ráðh. — að ég muni reyna að framfylgja — ég tala nú ekki um — lögum um þetta, en einnig því sem Alþingi ályktar að framkvæmdavaldið skuli beita sér fyrir. Svar mitt er því afar einfalt. Það eru lög sem við hljótum að fara eftir í þessu efni.