07.11.1984
Neðri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

7. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni og Guðrúnu Helgadóttur fyrir ágæt orð í þessu sambandi og líka þarft verk að vekja athygli á ýmsum öðrum málum í sambandi við þingið svo sem starfstíma þess. Ég er fyllilega sammála hv. þm. Birgi Ísleifi um að það er alls ekki ástæða til að láta hormónastarfsemi sauðkindarinnar ráða starfstíma þingsins lengur en orðið er. (BÍG: Sagði ég það?) Ég held að við þurfum að gera á því bragarbót. Mér virðist að þessir hv. þm. séu að ýmsu leyti sömu skoðunar og við Bandalagsmenn um misnotkun og órýmilega vídd þessara ákvæða sem eru í stjórnarskránni. Ég veit að vísu ekki hvort þeir túlka sjónarmið viðkomandi þingflokka. En mér finnst greinilega full ástæða til að taka þessi mál dálítið rækilega til skoðunar. Og náttúrlega er það ekki vansalaust hvað endurskoðun á stjórnarskránni, sem lengi hefur verið í gangi, hefur dregist gífurlega.

Það er augljóst að þm. liggur margt á hjarta sem stjórnarskrána varðar, enda ekki furða þar sem hún er nokkuð komin til ára sinna. Ég held því að fyllsta ástæða sé til að taka þessi mál mjög sterklega upp til endurskoðunar. Varðandi það sem fram kom hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni um heimild til bráðabirgðalöggjafar má segja að hann sé flm. að því leyti sammála að algerlega einstakar aðstæður þurfi til þess að réttlæta útgáfu brbl. Að mati okkar hafa stjórnvöld þennan rétt sem neyðarrétt án þess að um það þurfi síðan önnur sérstök ákvæði en þannig að segja má að það sé kannske tæknilegur ágreiningur.

Í sambandi við þingrofsrétt var vísað til þess í máli hv. þm. að þingrofsréttur væri í ýmsum ríkjum í kringum okkur, t.d. í Bretlandi og Frakklandi líka. Um þessi atriði eru ólíkar skoðanir í viðkomandi löndum. Þingrofsrétturinn í frönsku stjórnarskránni er að ýmsu leyti til kominn vegna sérstakra aðstæðna. Franska stjórnarskráin er má segja klæðskerasaumuð handa ákveðnum forustumanni, de Gaulle, í frönskum stjórnmálum og menn hefur síðan talsvert greint á um þetta ákvæði þar. Þó eru aðstæður nokkuð sérstakar þar vegna sérkennilegrar sambúðar framkvæmdavalds og löggjafar.

Ég er alveg sammála því sem fram kom í máli hv. þm. í sambandi við starfsaðstöðu og starfskjör forseta og sömuleiðis um meðferð utanríkismála á þessu þingi, sem ég tel að sé mjög ábótavant. Málið er nefnilega það, að við getum sagt að með þeim aðferðum sem nú eru hafi Alþingi í raun og veru einungis umsagnarrétt um það sem utanrrh. aðhefst á hverjum tíma. Sú hefur orðið raunin í þessum málaflokki að Alþingi mótar ekki stefnu í utanríkismálum en er má segja á þeim endanum sem tekur við skýrslum frá ráðh. um það sem hans rn. hefur ákveðið og framkvæmt í þeim efnum. Og í þokkabót gefst kannske varla tími, eins og hv. þm. sagði, til að ræða þessa skýrslu þegar að henni kemur síðan. Að öðru leyti fara umræður um utanríkismál fram sem fyrirspurnir eða umr. utan dagskrár eða á einhvern hátt utan þeirra eðlilegu farvega sem utanríkismál ættu að hafa:

Í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur kom fram stuðningur við niðurfellingu þingrofs en efasemdir um algert afnám réttarins til að setja brbl. sem hún taldi nauðsynlegan við sérstakar aðstæður. Segja má að það sé samhljóða því sem hv. þm. Birgir Ísleifur sagði, að við ákveðnar aðstæður, svo sem eins og styrjaldaraðstæður eða náttúruhamfarir, þyrfti þessi réttur að vera fyrir hendi. Síðan er ég sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um hlutdeild ráðuneytamannanna í lagasetningunni. Það er nefnilega orðið þannig, að sá hluti lagasmíðarinnar sem er hreinlega ekki framseldur beint til rn., annaðhvort með reglugerðasmíði, eins og ég sagði áðan, eða með því að meðtaka stjórnarfrv., — sá hluti sem enn er þó að forminu til í höndum þingsins fer í raun til ráðuneytamanna líka, vegna þess að til þeirra er leitað um ráðleggingar, orðalag, upplýsingar og annað sem málið varðar, og síðan eru það þeir sem oftast er leitað til um upplýsingar þegar viðkomandi frv. er rædd í n.

Mér eru mjög minnisstæðar þær umr. sem fóru fram í hv. sjútvn. á síðasta þingi þegar rætt var um svokallað kvótafrv. Ég held ég muni það rétt að á hverjum einasta fundi sjútvn. Nd. sat ráðuneytisstjóri sjútvrn. Það er kannske fulllangt gengið að segja að hann hafi verið þar fundarstjóri, en hann var þar nánast fundarritari og tók að mínu mati óeðlilegan þátt í starfsemi þingnefndarinnar. Þó að viðkomandi ráðuneytisstjóri sé auðvitað ágætur maður og fullkomlega fær um að sinna sínu hlutverki, þá voru það ekki eðlileg vinnubrögð. En þau eru því miður ekkert einsdæmi.

Til viðbótar við þau atriði sem hér hafa verið til umr. um starfsemi þingsins og samskipti valdþáttanna eru þm. BJ með fleiri mál. Þar er annars vegar um að ræða eftirlitsstörf Alþingis í sambandi við starfsemi þingnefnda og umboðsstörf þingmanna í stofnunum framkvæmdavaldsins. En að þeim efnum munum við koma þegar mælt verður fyrir þeim málum sérstaklega.