07.11.1984
Neðri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

31. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Kristófer Már Kristinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni að flytja á þskj. 31 frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

44. gr. núgildandi stjórnarskrár hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Embættismenn þeir sem kosnir verða til Alþingis þurfa ekki leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosninguna, en skyldir eru þeir til. án kostnaðar fyrir ríkissjóð, að annast um að embættisstörfum þeirra verði gegnt á þann hátt sem stjórnin telur nægja.“

Í tillögum stjórnarskrárnefndar er lagt til að niðurlag fyrri málsgr. og önnur málsgr. öll falli niður. Í því frv. sem ég tala hér fyrir er gert ráð fyrir því að fyrri málsgr. standi óbreytt, en önnur málsgr. hljóði svo, með leyfi forseta:

„Alþingismenn setja lög og hafa eftirlit með framkvæmd laga, en er óheimilt að vinna umboðsstörf í þágu framkvæmdavalds og stofnana þess.“

51. gr. núgildandi stjórnarskrár hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi og eiga þar rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn.“

Í tillögum stjórnarskrárnefndar er gert ráð fyrir að þessi grein hljóði svo, með leyfi forseta:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn.“

Í þeim brtt. sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að ráðherrum sé óheimilt að vera jafnframt alþingismenn og lagt til að 51. gr. hljóði svo, með leyfi forseta:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi en eiga þar ekki atkvæðisrétt.“

Herra forseti. Mörgum þykir undarlega hljótt hafa verið um skeið um stjórnarskrá og breytingar á henni. Líkleg skýring er að breytingarþörf stjórnmálaflokkanna hafi verið fullnægt í síðustu kosningum þegar fulltrúar þeirra laumuðust með leiðréttingar á stundarhagsmunum sínum í gegnum þær. Það er það sem menn hafa kallað rassvasabreytinguna vegna þess að frambjóðendur flokkanna véku nær allir í engu að tilefni kosninganna, sem var breyting á stjórnarskránni, ekki til að leysa úr brýnu óréttlæti gagnvart þegnunum, heldur til að leiðrétta sundurdráttarmisvægi í hinu pólitíska dilkfélagi fjórflokkanna. Þessa framferðis gagnvart þjóð og stjórnarskrá verður minnst meðan byggð er í þessu landi.

Hér skal ítrekuð sú skoðun að stjórnarskrá er ekki ætlað að tryggja tilveru eða hagsmuni stjórnmálaflokka, heldur réttindi þegnanna og tilveru samfélags þeirra. Jafnframt er lögð áhersla á að þegnarnir eiga heimtingu á því að segja álit sitt á stjórnarskránni og fyrirhuguðum breytingum á henni með beinni og ótvíræðari hætti en í almennum þingkosningum, þar sem eins víst er að það henti ekki frambjóðendum að gefa kjósendum nokkurra kosta völ. Hv. alþingismenn hafa ekkert umboð til þess að semja sín á milli um breytingar á stjórnarskránni án þess að kjósendum gefist kostur á að láta álit sitt í ljós á ótvíræðan hátt.

Ég er þeirrar skoðunar að boða eigi til þjóðfundar. Til hans á að kjósa í almennum kosningum með jöfnum atkvæðisrétti. Hlutverk hans á að vera að fara yfir tillögur þær sem fram hafa komið og fram kunna að koma til breytinga á stjórnarskránni og leggja frv. til stjórnarskipunarlaga fyrir Alþingi, sem skal þó í engu bundið af niðurstöðum þjóðfundar. Jafnframt er ég þeirrar skoðunar að til þess að einfalda þjóðinni að segja álit sitt á nýrri stjórnarskrá eigi hið háa Alþingi að samþykkja nú þegar, eða tímanleg a fyrir næstu kosningar, 83. gr. tillagna stjórnarskrárnefndar, sem kveður á um þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Í rauninni hefði sú grein verið skikkanlegt tilefni til kosninga og vafalítið er að málstaður hv. þm. væri öllu skárri, jafnvel góður, ef þessi breyting hefði verið tilefni síðustu kosninga.

Herra forseti. Í grg. sem fylgir frv. segir, með leyfi forseta:

„BJ telur að mörg helstu varnarákvæði þjóðarinnar megi rekja til skerðingar á löggjafarhlutverki Alþingis og eðlilegra tengsla hinna ólíku valdþátta þjóðfélagsins. Tillaga sú til breytinga á stjórnarskipunarlögum, sem hér er flutt, tekur til starfshátta og tilhögunar á Alþingi. Þessar breytingar mundu að mati flm. styrkja löggjafarstarfsemi þingsins og auka sjálfstæði þess með því að banna þm. umboðsstörf í þágu framkvæmdavaldsins.

Alþingi hefur, að mati BJ, orðið að eins konar afgreiðslustofnun ríkisstjórna og af þeim sökum sett ofan, ekki einungis í augum þjóðarinnar heldur og í raun. Framangreindar breytingar mundu auka traust fólksins í landinu á Alþingi og þeim störfum sem þar eru unnin.

Hlutverk Alþingis á að vera að setja almennar leikreglur fyrir þjóðina en framkvæmdavaldsins að framkvæma og taka sértækar ákvarðanir. Samband þessara tveggja ólíku þátta ríkisvaldsins, eins og því er nú háttað, hefur leitt þjóðina út í alvarleg efnahagsvandræði sem ekki munu leysast fyrr en um þessi nánu tengsl verður losað. Nægir í því sambandi að nefna vanda þann sem blasir við þjóðinni í orku-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Til að forðast óeðlilegt samkrull hinna ólíku þátta ríkisvaldsins verður það að vera ein af grundvallarreglum stjórnskipulagsins að sami maðurinn megi ekki gegna áhrifastöðum í tveim eða þrem ólíkum valdþáttum á sama tíma. Mannlegt eðli leyfir ekki að menn skipti um ham kl. 14 þegar þingfundir hefjast. Maður, sem tekur sértækar ákvarðanir á morgnana, er ekki hæfur til að setja almennar leikreglur eftir hádegi. Til að koma í veg fyrir þetta er lagt til að bundið verði í stjórnarskrá að alþingismenn megi ekki gegna umboðsstörfum í þágu framkvæmdavaldsins. Er með því átt við að allir þeir, sem hafa á einhvern hátt vald eða heimild til að taka ákvarðanir í umboði framkvæmdavalds, ráða menn til vinnu eða hafa áhrif á stjórn banka eða ríkisstofnana eða fyrirtækja o.s.frv., verði að láta af slíkum störfum hljóti þeir kosningu til Alþingis, eða öfugt. Æðstu menn framkvæmdavaldsins eru ráðherrar. Stöðu sinnar vegna hljóta þeir að eiga sæti á Alþingi og vera tengiliður löggjafans og framkvæmdavaldsins. Hins vegar hlýtur það að teljast óeðlilegt að þeir geti haft áhrif á störf löggjafans með atkvæði sínu. Ráðherravöldin ein ættu að nægja.

Herra forseti. Ég ítreka þá skoðun flm. þessa frv. að það sé fullkomlega óeðlilegt að hv. þm. séu að vasast í bankaráðum, sjóðum og stjórnum fyrirtækja sem heyra undir ríkisstjórnir. Því verður vart haldið fram að skortur á hæfum einstaklingum utan þings sé meginástæða þess að hv. þm. fórna dýrmætum tíma sínum í störf af þessu tagi. Nú kann að vera að hv. þm. geti ekki án þeirra þóknana verið sem fyrir þessi störf fást. Þó hef ég enga trú á því að þar sé um stórar upphæðir að ræða. En sé þetta raunin verða hv. þm. að hafa í sér einurð og kjark til að tryggja sér þingfararkaup sem geri þeim kleift að sinna þingstörfum af þeirri samviskusemi og reisn sem hugur þeirra stendur til. Það verður ekki fram hjá því gengið í þessu sambandi að þau völd sem fylgja umboðsstörfum freisti hv. þm. og jafnvel heldur ekki með öllu óhugsandi að þar ráði brennandi þjónustulund gagnvart landi og þjóð.

Herra forseti. Samt sem áður teljum við slíkt algerlega óverjandi. Ekki er einungis að með þessu sé virðingu hins háa Alþingis misboðið og þar með þjóðarinnar allrar, heldur er sjálfstæði þingsins bæði til lagasetningar og eftirlits í hættu stefnt. Það er einnig ekki lítilvæg röksemd í þessu efni að ástæðulaust virðist með öllu að hv. þm. séu að þvælast fyrir framkvæmdavaldinu með setu í stjórnum og ráðum sem snerta valdsvið þess. Má ætla að framsæknum og róttækum ríkisstjórnum sé ærið viðfangsefni að kljást við tregðuna í embættismannakerfinu gagnvart breytingum þó að við varðhunda stjórnmálaflokka sé ekki einnig að fást.

Herra forseti. Nú skal ekki gera því skóna að allir fulltrúar, sem hið háa Alþingi kýs til setu í stjórnum og ráðum, séu varðhundar eða hagsmunagæslumenn eins eða neins, nema þá eigin sannfæringar og drengskapar.

Herra forseti. Hér er einnig lagt til að ráðherrar séu ekki jafnframt alþingismenn. Augljóst er, a.m.k. að mati flm., að aðskilnaður framkvæmdavalds og löggjafarvalds hlýtur að vera gagnkvæmur. Enda verður ekki annað séð en að starfi ráðh. sé ærinn þó svo að ekki bætist þar ofan á þingmannsskyldur. Það er mjög mikilvægt í þessu samhengi að leitast sé við að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum. Virki og ábyrgt eftirlit og aðhald af hálfu löggjafarvaldsins er mun skynsamlegri og farsælli leið en það samkrull þessara þátta sem hefðir hafa skapast um hérlendis.

Herra forseti. Hér er að mati flm. tekist á um grundvallaratriði í pólitík. Við viljum leggja á það áherslu að verði þessar breytingar að lögum þá verði hér á hinu háa Alþingi lag til þess að fjalla minna um bókhald og skrifstofustörf af ýmsu tagi og hv. þm. geti snúið sér í auknum mæli að ábyrgu frumkvæði í lagasetningu, og fjalli um grundvallaratriði í stefnumörkun, t.d. í málefnum undirstöðuatvinnuveganna. Ég á við t.d. að í sjávarútvegi er að mínu mati tekist á um tvö grundvallaratriði. Annars vegar réttlæti gagnvart þeim sem byggja lífsafkomu sína á atvinnugreininni og jafnvægi í byggð. Hins vegar er þörfin fyrir hagkvæmasta gjaldeyrisöflun, það er hámarkshagkvæmni og efnahagslegan bata. Þetta eru andstæð sjónarmið, ekki ósættanleg, en á mati á þessum þáttum hlýtur framtíðarstefna okkar að byggjast.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að þessu frv. verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umr.