18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6728 í B-deild Alþingistíðinda. (6021)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Hér er til umr. staða fiskvinnslunnar og þá sérstaklega sú nöturlega staðreynd að fólk mætir þar ekki lengur til vinnu vegna þess að launin eru lág. Hér er verið að ræða þá spurningu hvort það borgar sig og þá fyrir hvern að borga fiskverkunarfólki 16 þús kr. í laun á mánuði. Þessi staða, sem er upp komin, er í raun afleiðing þeirrar láglaunastefnu sem hefur verið rekin hér á landi, ekki bara af afturhaldsstjórninni sem nú situr og hefur í raun ekki orðið sammála um neitt annað en að lækka laun, heldur einnig af atvinnurekendum og því miður að því er virðist líka af verkalýðsforustunni, meðvitað eða ómeðvitað.

Þessi staða er einnig dæmigerð fyrir þá þjóðfélagslegu óhagkvæmni sem er fylgifiskur lágra launa. Það segir miklu meira en mörg orð, og mörg orð hafa hér verið töluð, um kjör þessa fólks á ofanverðri tuttugustu öld að það skuli vera hinar ytri aðstæður sem segja stopp, hingað og ekki lengra. Það er ekki verkalýðsforustan, heldur ytri aðstæður fólksins sjálfs.

Fiskvinnslan kallar á efnahagsaðgerðir. Sumir þeir sem lengst eru til hægri í stjórnmálum segja að of mikil félagsleg aðstoð sé óholl þar eð hún dragi úr sjálfsbjargarvitund fólks. Efnahagsaðgerðirnar 1983 voru fétagsleg aðstoð fyrir atvinnuvegina, voru félagsleg aðstoð fyrir hina ríku og nú er í raun verið að biðja um meira. Forsendur hinnar hefðbundnu og pólitísku kjarabaráttu launafólks hafa í gegnum tíðina fyrst og fremst verið siðferðilegar forsendur. Menn hafa orðið ásáttir um að láta ekki hinar ytri aðstæður einar um að stjórna lífskjörum fólks. En nú bregður svo við hér á vordögum 1985 að hin vélrænu markaðsöfl, markaðslögmálið svokallaða, sem ekki spyr um líf og tilfinningar, tekur ráðin af hinum svokölluðu ráðamönnum. Þetta segir allt um þá, en ekkert um markaðslögmálið nema þá helst að það kemur hér að góðu gagni og neyðir menn til alvarlegrar umhugsunar um það samfélag sem við búum í.

Heimspekingar hafa lengi reynt að smíða einhverjar siðlegar kenningar um mannlegt samfélag, sem það eigi eða megi lúta. Einn þeirra hefur nýlega verið kynntur hérlendis. Sá er bandaríski háskólakennarinn John Rawls. Hann hefur sagt að kjaramunur í samfélagi eigi ekki að vera meiri en hagkvæmt geti talist fyrir samfélagið í heild. Ef við kyngjum þessu sem réttlátu lögmáli er launamunurinn á Íslandi nú ekki bara ósiðlegur, heldur er hann einnig farinn að stríða gegn öllum hagkvæmnissjónarmiðum.

Herra forseti. Það er forkastanlegt að ræða það hér í þessari virðulegu stofnun hvort það borgi sig eða borgi sig ekki að greiða lifandi fólki 16 þús. kr. í mánaðarlaun. Ég ætla mér ekki að taka frekari þátt í þeirri umræðu.