18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6737 í B-deild Alþingistíðinda. (6027)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umr. þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þau svör sem hann bar hér fram í dag við fsp. minni. Ég hefði að vísu gjarnan kosið að þau svör hefðu verið efnismeiri og falið í sér stærri boðskap varðandi það hvað fram undan væri til lausnar á vanda okkar sjávarútvegs, svo alvarlegur sem hann er.

Ég fagna því að þessi umr. hér í dag hefur í rauninni orðið til að staðfesta það að þeir sem sitja hér á hinu háa Alþingi virðast í rauninni allir vera sammála um það að fram undan sé hreinn þjóðarvoði ef svo heldur áfram sem verið hefur varðandi þróunina í íslenskum sjávarútvegi, og þannig er það líka. Þess vegna getur það ekki dugað að leita uppi einhverjar smáskammtalækningar í þessum efnum. Hér þarf að taka á þeim stóra og það mjög myndarlega.

Ég held ég taki mér í munn orð úr aldinni bók, sem ég vitna nú ekki oft í, en þar segir: „Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það?“ og hefur orðið orðtak. Ég segi hér: Ef íslenskur sjávarútvegur fellur og stendur ekki lengur, á hverju ætlar þá þessi þjóð að lifa?

Aðeins nokkur orð í sambandi við fáein atriði sem fram komu hjá hæstv. ráðh. Hann taldi upp ýmsar ráðstafanir sem ríkisstj. hefði gert á þeim tveimur árum sem hún hefur farið hér með völd. Ýmsar þessar ráðstafanir hafa út af fyrir sig verið jákvæðar svo langt sem þær ná, ekki skal ég neita því. En þarna hefur eingöngu verið um það að ræða að gefa eitthvað svolítið til baka af því sem tekið hefur verið með hinni hendinni af sjávarútveginum vegna þess að rekstrarskilyrðin sjálf, sem stjórnvöld bera ábyrgð á, hafa verið með þeim hætti að enda þótt hæstv. sjútvrh. hafi gengist fyrir því að rétta sjávarútveginum kannske litla fingurinn í dag á vinstri hendi og litla fingur á hægri hendi í fyrradag, þá hefur þetta ekkert dugað til að bæta upp það tjón sem atvinnugreinin hefur orðið fyrir vegna óhæfra rekstrarskilyrða. Við skulum taka dæmi af skuldbreytingunum.

Auðvitað er það betra en ekki neitt að fá þó einhverja skuldbreytingu. Það bætir aðeins greiðslustöðuna í bili en slíkt bætir ekki skuldastöðuna. Eftir sem áður er hengingarólin þar sem hún er og skuldirnar hafa haldið áfram að hlaðast upp í stórum stíl og það eigið fé, sem í fyrirtækjunum var fyrir hendi, orðið minna og minna. Hæstv. ráðh. talar um að það séu uppi tvær stefnur í þessum efnum hjá þeim sem reki fyrirtæki og vitnar í þeim efnum í Bandaríkin. Hvaða stefna ætti það að vera hér á Íslandi, eins og lánsfjármálum og vaxtamálum er nú háttað, að koma og segja: Við skulum nú ekkert vera að leggja upp úr þessari eiginfjárstöðu. Við skulum reka þetta sem mest á skuldum. Dettur nokkrum heilvita manni það í hug eins og vextirnir eru? Það gat verið stefna hér fyrir 10 árum og var stefna hjá mörgum, meðan vextirnir voru öfugir. voru neikvæðir og menn voru í rauninni að fá styrki með því að fá að taka lán. Þannig er þetta ekki lengur. Það að reka fyrirtæki á dýrum lánum þýðir eignaupptöku og ekkert annað.

Það hefur verið farið nokkrum orðum um það af hæstv. ráðh. að Seðlabankinn hafi ekki átt að láta mig eða aðra aðila hafa þær tölur sem starfsmenn bankans létu í té um þessi efni í vetur. Það kann vel að vera að þessi háa stofnun, Seðlabankinn, sé ámælisverð af þeim ástæðum. En ég segi fyrir mig: Ef fengnar eru upplýsingar hjá Seðlabanka eða Þjóðhagsstofnun, þá hljóta menn að verða að treysta á að þar sé nokkurn veginn rétt með farið. Hitt er svo annað mál að ef menn átta sig á villu í þeim efnum, þó um slíka stofnun sé að ræða eins og Seðlabanka, þá er auðvitað skylt að leiðrétta það. Og ég tek það fram að þær tölur sem ég fór með í minni frumræðu hér eru fengnar í Seðlabankanum nú í morgun, það eru leiðréttar tölur eins og þær eru nýjastar á borði Seðlabankans nú. Og ég get ekki, með allri virðingu fyrir hæstv. ráðh. sem ég met á margan hátt mjög mikils, gert ráð fyrir því að hann sé með neitt nákvæmari útreikninga á þessu heldur en sérfræðingar Seðlabankans, enda hafa engin rökstudd andmæli komið fram gegn tölulegum upplýsingum sérfræðinga Seðlabankans.

Ég vil einnig segja að það sem hefur verið að gerast í þessum efnum er í fyrsta lagi það, að áður en breytingin mikla varð á vaxtamálum og öllum bankaviðskiptum, þá gat sjávarútvegurinn verið að mynda eignir enda þótt reksturinn væri bókhaldslega undir núlli ár eftir ár. Hann fékk hagnaðinn í gegnum bankaviðskiptin, og voru það oft nægar skaðabætur á móti tapinu og mynduðust þannig eignir þó það héti rekstrarlegt tap. Þetta kerfi var út af fyrir sig ekki til fyrirmyndar, en þannig var það. Og það má segja að á þeim árum hafi sjávarútvegurinn, eins og aðrir þeir sem byggðu upp eignir út á skuldasöfnun, í rauninni verið með vissum hætti ríkisstyrktur. Sjávarútvegurinn hefði á þeim árum ekki heldur þolað það að vera ár eftir ár með reksturinn langt undir núlli nema vegna þess að hann naut þessarar þjónustu á móti. Síðan var þetta tekið af honum. Menn segja: Gott. Menn eiga að borga sínar krónur til baka í jafngildum krónum. Mikið rétt. En þegar þessi þjónusta eða styrkur eða hvað sem menn vilja kalla það var tekið af, þá þurfti auðvitað eitthvað annað að koma í staðinn. Þá er ekki hægt að halda áfram að viðhalda eignum eða auka eignir út á bullandi tap eftir sem áður.

Árið 1982 verður allverulegt fall í fjárhagsstöðu fyrirtækjanna í sjávarútvegi. Það voru auk annars á því þær skýringar að mjög mikill samdráttur verður á því ári, yfir 12% á föstu verðlagi, í framleiðslu sjávarafurða og það hefði kannske mátt skoða það sem nokkra skýringu á því að þá hallaði undan hjá sjávarútvegi. En þegar kom að árinu á eftir og síðan árinu 1984 með 11% framleiðsluaukningu og línan heldur engu að síður áfram að falla, eignirnar að étast upp og skuldirnar að vaxa að sama skapi, þegar svona vel árar, þá er málið orðið ískyggilegt.

Menn hafa kannske verið í góðri trú í sambandi við ráðstafanir ríkisstj. Menn héldu að með því að skerða kaupið svo mjög sem gert var á fyrstu vikum valdatíma þessarar ríkisstj. eða fyrstu dögum, þá væru menn að draga úr erlendri skuldasöfnun, minnka viðskiptahallann. Kaupgetan í landinu væri svo mikil að hana yrði að lækka og þar með mundi viðskiptahallinn lækka. Þetta hefur allt reynst rangt. Það hlýtur hver maður að sjá í dag. Og vegna hvers? Vegna þess að enda þótt kaupgetan hafi minnkað hjá fólkinu í fiskvinnslunni og öðru almennu launafólki, og enda þótt kaupgetan hafi minnkað hjá fyrirtækjunum í sjávarútveginum, sem hefðu þurft að geta greitt eitthvað af sínum skuldum og haft tekjur til þess, þá hefur hún, kaupgetan, aukist að sama skapi hjá öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Hún hefur ekki minnkað í heild. Fjármunirnir hafa einfaldlega verið færðir til úr einum geiranum í annan. Við sjáum þetta m. a. á því að þó að sjávarútvegurinn standi sig svo frábærlega vel að auka útflutningsverðmæti á föstu verðlagi um 11% á síðasta ári, við á ýmsan hátt erfiðar aðstæður, fólkið sem við sjávarútveginn vinnur, bæði verkafólk og stjórnendur, nái sameiginlega að skila 11% framleiðsluaukningu, þá fær sjávarútvegurinn ekki að halda neinu eftir. Og hvað verður um þetta? Innflutningurinn til landsins, almenni innflutningurinn til landsins, fyrir utan skip og flugvélar og olíu og þessar sérstöku vörur, sem dregnar eru frá hjá Þjóðhagsstofnun, hann vex bara á síðasta ári um 12% ofan á öll ósköpin sem áður voru flutt hér inn af varningi sem við að hluta til höfum ekki nokkurn skapaðan hlut með að gera. Og það er þetta sem ég hygg að hv. þm. sem nú gengur í salinn, 1. þm. Reykv., hafi sennilega haft í huga í sinni ágætu ræðu hér áðan þegar hann vakti athygli okkar hv. þm. allra á því að hér dugar ekki að fara eftir einhverjum innfluttum kennisetningum utan úr heimi. Okkar þjóðfélag er sérstakt og lýtur sérstökum lögmálum.

Ég skal stytta mál mitt, herra forseti, en ég get eiginlega ekki látið hjá líða að bæta örlitlu við vegna þess sem hæstv. ráðh. var að minnast á töluleg efni varðandi launamál fiskvinnslufólks og samanburð í þeim efnum. Ég spurði tvo aðila nú í morgun vegna þessarar umr. um vissa hluti í sambandi við þróun launamálanna. Ég spurði Kjararannsóknarnefnd hvað kaupið hjá fiskvinnslufólkinu hefði hækkað í krónum talið frá því núv. ríkisstj. kom til valda, þ. e. frá júní 1983. Svarið var: Fyrir kjarasamningana 40.7%, eftir kjarasamningana 51.3%. Við höfum ýmsa samanburðaraðila í þjóðfélaginu. Sumir þeirra hafa flutt fram margvísleg rök fyrir sínum rétti til að fá hærri laun. Eitthvað af þeim rökum er sjálfsagt réttmætt, annað umdeilanlegt.

Ég spurði launadeild fjmrn.: Hvað hefur kaupið hækkað hjá Bandalagi háskólamanna á sama tíma? 62.9% var svarið. Nú ætla ég ekki að halda því fram að háskólamenn séu almennt ofhaldnir af sínum launum þó einhverjir þeirra kunni að vera bærilega settir. En menn mega gjarnan horfa á þessar tölur til samanburðar, sérstaklega þegar fólk fer nú að sækja málin úr ýmsum áttum eftir á og segja: Fyrst fiskvinnslufólkið fékk nú þessi 7.5%, þá þurfa hinir allir auðvitað að fá a. m. k. sömu hækkun, fyrst verkafólkið innan Alþýðusambandsins fékk þetta.

Ég spurði um kaup hv. alþm. hjá launadeild fjmrn. Skyldi það eiga að hækka núna í samræmi við það að Alþýðusambandið hefur samið um þessi um það bil 7.5% 1. júní? Þingfararkaupið hafði hækkað frá júní 1983 til dagsins í dag um töluvert meira en taxtar fiskverkunarfólksins, eða um 54.5%. Aðalatriði málsins er þó það, að með þeirri almennu kaupmáttarskerðingu sem orðið hefur í landinu fyrir aðgerðir núv. ríkisstj., hennar fyrstu aðgerðir og þær sem síðan fylgdu, þá er svo komið að almenn laun þyrftu að hækka um 30–40% til að ná fyrri kaupmætti. En fiskverkunarfólkið fékk 7.5%. Svo kemur verðbólgan til að éta það enn upp.

Herra forseti. Ég get látið þessi orð duga. Ég þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umr. og ráðh. báðum, hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh., og þó að við séum auðvitað á margan veg ósammála um ástæðurnar fyrir því hvernig komið er í þessum efnum, þá vil ég ljúka mínu máli með því að segja: Við skulum ekki gera rifrildi um það að aðalatriði. Þar er kannske enginn saklaus. En menn þyrftu að leggja sig fram um það að sameinast um stórar úrbætur þarna. Það má ekki bíða þangað til kannske vantar 3000 manns í fiskvinnsluna. Hjá Sölumiðstöðinni voru fyrir fáum vikum um 5000 manns í störfum. Það vantar 1500 í fiskvinnsluna nú. Við megum ekki bíða eftir að það vanti kannske 3000.

Það getur orðið of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í. Og það skulu vera mín lokaorð að ég segi: Það er þjóðarnauðsyn að stefnan sé sett á það að fólk, sem starfar í þessum undirstöðuatvinnuvegi, fiskvinnslunni, hafi hér kaup á borð við hæstu iðnaðarmenn í landinu. Það er þjóðarnauðsyn. Slíkt tekst sjálfsagt ekki í einum áfanga. Það er ekki óeðlilegt að gerð sé krafa um það að menn taki námskeið o. s. frv. og sýni hæfni í starfi. En þegar menn hafa gengið í gegnum slík námskeið, og ég fagna yfirlýsingu ráðh. um ráðagerðir í þeim efnum, þegar menn hafa útskrifast af slíkum námskeiðum, þá á að koma á móti réttur til launa vegna mikilvægis atvinnugreinarinnar, launa á borð við hæstlaunuðu iðnaðarmenn í okkar landi.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.