18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6791 í B-deild Alþingistíðinda. (6058)

493. mál, sparisjóðir

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta var nú óskýrt og loðið og ófullkomið svar hjá hæstv. ráðh. Hann sagði: Það á að skilja greinina eins og í henni stendur. Ég skil hana þannig að frá og með gildistöku þessara laga sé öðrum aðilum en þeim sem lögin kveða á um, sparisjóðum og viðskiptabönkum, óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Ég var ekki að tala um skuldabréfaviðskipti. Ég var ekki að tala um miðlun á fjármunum. Ég var að tala um það að skv. þessu er öðrum aðilum óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu eða ávöxtunar. En það er einmitt það sem sumir þessir aðilar hafa auglýst nú þegar í blöðum að þeir geri, Fjárfestingarfélagið jafnvel og Kaupþing og Ávöxtunarfélagið og ég veit ekki hvað þær heita þessar sjoppur allar. Það er talað um að þær taki við peningum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar, það er alveg ljóst, taki við innlánum.

Að vísu er það þannig að því er varðar Kaupþing að þar er sá háttur hafður á að þetta er kallað fjárvarsla og gerist með þeim hætti, að sögn forráðamanna Kaupþings, að fjármunir eru ekki geymdir hjá Kaupþingi heldur er þeim komið í ákveðinn banka, og síðan er innistæðan í þeim banka notuð til að kaupa ákveðin skuldabréf eða hlutabréf á nafni viðkomandi innistæðueiganda. Þetta er því geymsla fjármuna fyrir hvern innistæðueiganda fyrir sig en ekki um það að ræða, að sögn, að innistæður séu teknar frá kannske 10–20 aðilum og síðan keypt skuldabréf eða hlutabréf af 10–20 aðilum úti í bæ þar á eftir. Það mun hins vegar tíðkast í öðrum fyrirtækjum, sem þessa starfsemi iðka, að þau taka við innlánum með beinum hætti.

Þar sem hæstv. viðskrh. hefur ekki mótmælt túlkun minni og skýringum á þessari grein hef ég verið að reyna að skýra hana samviskusamlega vegna þess að við sem hér erum, alþm., eigum að bera virðingu fyrir okkar verki og við eigum að vita hvað við erum að samþykkja. Ég hef farið yfir þetta. Ég hef rækilega tekið það fram að ég er að tala um innlán og ég hef dregið þá ályktun að ef þetta verður samþykkt si svona, þá er óheimilt að taka við innlánum hjá öðrum aðilum en sparisjóðum og viðskiptabönkum.