08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að gefnu tilefni að ég mun hafa alla þolinmæði með því að þm. fái að kynna sér þetta mál og það fái þá meðferð sem óskað verður eftir, enda þótt að ég hafi tekið fram að mér auðvitað blæðir í augum, án þess að mér blæði froða út af þeim peningum sem við verðum af við mjög langan drátt á málinu.

Ég mun nú reyna að víkja að þeim atriðum sem helst hafa fram komið í umr. En því er við að bæta að þótt ákjósanlegt sé að ná þessu máli til nefndar, þá er auðvitað tíminn mjög takmarkaður nú og mjög óvenjulegt vissulega að nefndafundir séu haldnir þá daga sem umr. eiga að fara fram að kvöldi, eins og er nú, og auðvitað sýnir eitt með öðru vilja manna til að leggja þessu máli lið.

Auðvitað má endalaust deila um orkuverðið. En ég verð að minna hv. 3. þm. Norðurl. v. á það, að það er eins og menn kannist eitthvað við töluna 12.5 þegar þeir hefja umr. um þetta mál. Það er eins og hún sé kunnugleg, enda kom það í ljós að svo hafði til borið að þeir höfðu flutt þáltill. um það á sínum tíma að setja þetta verð fram sem lágmarkskröfu þá, og bættu síðan við að það yrði síðar tekin ákvörðun um orkuverðið 15–20 mill. En það eru sögur sem hafa gengið af þessu og upplýsingar sem hafa legið fyrir á hinu háa Alþingi um gang mála, og það upplýstist einu sinni að samninganefndin, sem svo átti að heita að stundaði samningaumleitanir í þessu máli í tíð forvera míns, hefði gert tillögu um 20% hækkun frá gamla verðinu 6.5 mill. En sérlegur fulltrúi fyrrv. iðnrh., Ingi R. Helgason, hefði bætt um betur og gert tillögu um 25% hækkun. Á einu stigi máls var þetta upplýst í umr. á hinu háa Alþingi. Svo getur maður reiknað út hve mörg mill það gerir að setja 25% ofan á 6.475 mill.

Það hefur komið fram í máli mjög margra að óhagstætt væri að tengja orkuverð álverði og menn rugla því saman við þá afstöðu mína að ég vilji ekki taka of mikla áhættu af rekstri slíkra stóriðjufyrirtækja. Það er undarlegur málflutningur, að ekki sé meira sagt. Ég geri ráð fyrir, án þess að geta um það dæmt til fullnustu, að við hefðum kannske getað náð einni tölu um orkuverð upp undir 13 mill, aldrei mikið yfir 100% hækkun frá því sem orkuverðið var á sínum tíma, og allar tölur fastar, og átt þá enga möguleika á því að eiga ágóðavon ef álverð hefði hækkað eins og við eigum nú og eins og sérfræðingar segja, sem eru jafnvel enn betur að sér í þessum málum en hv. 11. þm. Reykv., að séu líkur á að muni verða yfir 17 mill að meðaltali á samningstímabilinu. Mér þykir miður að frúin er fjarstödd, en ekki fæ ég við því séð. (Forseti: Hún er rétt ókomin, hv. 11. þm. Reykv., en mundi vilja vera hér og hlusta á hæstv. ráðh.) Það er huggun harmi gegn. Þetta vil ég um það segja.

Eins og ég segi, þeir ráðgjafar sem við höfum ráðgast við telja þróunina þessa, að við megum gera ráð fyrir því að að meðaltali á fimm ára bili munum við ná 500 millj. til viðbótar vegna þessa nýja orkusölusamnings, 2500 millj. alls. En það þarf ekki spádómsmenn til að segja frá því hvað þessi nýi samningur hefði gefið okkur í aðra hönd frá árinu 1979, ef við hefðum náð honum þá, vegna þess að við höfum auðvitað bókað álverð fyrir allan þann tíma. Þessi samningur hefði gefið okkur 1800 millj. kr. það tímabil. — Dýr mundi Hafliði allur, og verður mér nú hugsað til fyrirrennara míns, en dreg við mig að hafa í frammi háværa gagnrýni á hann að honum fjarstöddum, ekki í þessari deild og auk þess ekki í þessari heimsálfu. — Svo geta menn lagt á það hóflega vexti. Menn voru að tala um að það gæti orðið allsherjarlausn í vinnudeilum að bjóða fram 1100 millj. kr. skattalækkun af hálfu hins opinbera til viðbótar við 300 millj. kr. útsvarslækkun. Hér eru 1800 millj. og það er ekki of í lagt að gera það að 2500 millj. eða álíka fjárhæð eins og við eigum í vændum næstu fimm ár. Það er hár reikningur sem þjóðin á þar ósendan til Alþb. —og þykir mér líka verra að hv. 3. þm. Norðurl. v. er fjarri.

Menn vara við 20 ára samningi og það hafa fleiri gert en hv. 3. þm. Norðurl. v. En ég vil minna Alþfl. á það — sem einu sinni var ábyrgur flokkur, að vísu undir okkar stjórn, og hefur mikið linast og fækkað skynsamlegum verkum hjá honum síðan við misstum á honum taumhaldið — að hann gerði ásamt okkar flokki 25 ára samning, með engu endurskoðunarákvæði, upp á 2.5 mill. Ég ætla ekkert að fara að rifja það upp. Það var rétt í þeirri stöðu, það er ég sammála um og sannfærður um. En þetta var gert. Og eitt hið mikilsverðasta sem við náðum fram í upphafi þessa stríðs, hins síðasta stríðs, sem ég hef staðið fyrir, var að ná inn endurskoðunarákvæði í bráðabirgðasamningunum hinn 23. sept. í fyrra.

Fráleitt taldi hv. þm. Ragnar Arnalds að semja um sættir. Og menn vísa til orða minna um það að ég mundi ekki geta fellt mig við annað en dómsúrskurð eða ígildi dóms. Hver er besta niðurstaðan þar í máli í öllu falli, betri en allir dómar, svo til undantekningarlaust? Auðvitað er besta niðurstaða málareksturs sættir af frjálsum og fúsum vilja af beggja hálfu. Og að kalla að það sé ekki ígildi dóms að ná frjálsum sáttum með þessum hætti er undarlegur smekkur. En ég verð að leiða vitni, vitni sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kallaði hið ábyrga endurskoðunarfyrirtæki Coopers & Lybrand. Ég er búinn að geyma þetta bréf eins og sjáaldur auga míns í nærri eitt og hálft ár vegna þess að í umsögnum þessa ábyrga endurskoðunarfyrirtækis koma fram atriði sem hefðu orðið Alusuisse stórkostlega til hjálpar í öllum málarekstrinum, ef upplýst hefðu verið. Ég minnist þess ekki að ég hafi gætt trúnaðarmáls rækilegar.

Það er Schilvers aðalforstjóri Coopers & Lybrands, sem er að segja okkur sína afstöðu og álit á þessu máli hinn 28. júlí 1983, þegar menn gerðu fsp. þangað um þeirra álit, þessa endurskoðunarfyrirtækis, sem hafði endurskoðað reikninga fyrirtækisins og gerir enn, og menn draga ekki í efa. hvar í flokki sem þeir standa, að er ábyrgt fyrirtæki, gagnmerki fyrirtæki. Hann segir á einum stað:

„Mér segir helst hugur um að það hefði alvarlega ókosti í för með sér fyrir ríkisstj. að halda gerðardómsmeðferðinni áfram og mun æskilegra væri að jafna deiluna með samningsgerð.“

Hann segir enn hér:

„Eftir því sem ég hef fylgst með þróun deilunnar virðist mér helst„ — og taki menn nú eftir — „að tillit til stjórnmála hafi að nokkru leyti magnað hana. Skýrslur okkar hafa verið notaðar á þann hátt sem við höfðum ekki búist við og umræður um niðurstöður okkar virðast ekki hafa gengið nógu langt til að skapa fastan grundvöll fyrir röksemdafærslu í málflutningi fyrir gerðardómi.“

Hvað ætli hið ábyrga fyrirtæki sé að segja hér nema það, að þær niðurstöður sem þeir komast að voru notaðar í pólitískum tilgangi og út af þeim er lagt með þeim hætti?

Hér segir hann enn, forstjóri Coopers & Lybrands: „Fyrir hendi eru fjölmörg vandamál og óvissuþættir, sem mundu samkvæmt minni reynslu skapa örðugleika í hvers kyns málflutningi fyrir gerðardómi.“

Og enn kom það margsinnis fram að menn gerðu ráð fyrir því að við gætum átt í þessum málarekstri fyrir gerðardómnum í fjölmörg ár, enda hafði reynslan af öðrum málum sýnt að svo hafi verið.

Forstjórinn segir hér enn:

„Það er vegna þessara vandamála sem við höfum komist að þeirri niðurstöðu að mjög æskilegt væri að semja um reikningsskil. Þá yrði komist hjá óvissu og talsverðum útgjöldum í sambandi við langdregna gerðardómsmeðferð.“ Og hann segir svo hér í tillögu til okkar um hvernig við skulum standa að málinu:

„a) Ríkisstj. mundi leggja kröfu sína um að endurmeta skattgjöld ÍSALs fyrir tímabilið 1975–1979 til hliðar.“

Til hliðar. segir þetta endurskoðunarfyrirtæki. Hvers vegna? Vegna þess að þeir telja þá kröfugerð vonlausa, að við munum tapa henni fyrir dómstólnum.

„b) Ríkisstj. mundi semja um uppgjör viðbótarskatts, sem krafist er fyrir árið 1980. Núverandi upphæð, sem krafist er, nemur um 2.6 millj. Bandaríkjadala.“

Þarna er hann að nefna upphæðina sem hann telur skynsamlegt að við mundum semja um. Við náðum þremur millj. Bandaríkjadala.

Hann segir svo hér að þriðja aðalatriði málsins sé að Alusuisse mundi fallast á að greiða raunsýnna orkuverð í framtíðinni. Álit þetta bréf frá endurskoðunarfyrirtækinu ábyrga, sem þekkir innviði málsins, gengur út á eindregin meðmæli um sættir í málinu, samning í málinu um allt ofan í 2.6 millj. dollara. og að leggja til hliðar kröfur okkar fyrir 1975–1980 vegna þess að það mundi vera glötuð kröfugerð. Og svo undarlegt sem það nú er, þá var ekki einu sinni haft fyrir því að biðja um endurskoðunarreikninga þessi ár af hálfu stjórnvalda á Íslandi.

En ég kem með annað vætti hér, sem ætti ekki að vera þýðingarminna fyrir þá sem hafa staðið að rekstri þessa máls frá upphafi, og það er Charles Lipton, lögfræðingur í New York, sem er aðalráðgjafi frá upphafi um rekstur málsins fyrir gerðardómi, ráðinn af fyrirrennara mínum til þeirra starfa, harðsnúinn lögfræðingur að allra dómi, sem ekki gefur eftir fyrr en í lengstu lög, og mjög nýttur í baráttu og málarekstri vanþróaðra ríkja ýmislegra fyrir gerðardómum og á alþjóðavettvangi. Hann var ekki ráðinn þess vegna fyrir Ísland að hann væri sérlega þjálfaður í þeim sökum –það ber ekki að skilja svo — en hann þykir harðsækinn maður og þess vegna treyst til þess að rétta hlut lítilmagnans. Ég leyfi mér að vitna í bréf hans, sem hann skrifar núna að þessu gerðu. hinn 4. okt., eða þegar til lykta dregur um sættir og samningsgerð. Hann segir svo, með leyfi forseta virðulegs:

„Ef ætla má að væntanleg lausn leiði einnig til orkuverðs skv. rafmagnssamningnum milli Landsvirkjunar og Íslenska álfélagsins hf., sem ríkisstj. getur sætt sig við, er það því skoðun mín að uppgjör krafnanna um framleiðslugjöld fyrir árin 1978–1980. á þeim grundvelli að Alusuisse greiði ríkisstj. 3 millj. Bandaríkjadala, mundi vera mjög viðunandi lok skattadeilunnar og réttlæting afstöðu ríkisstj. frá upphafi.

Kröfur ríkisstj. fyrir árin 1976–1979 voru gerðar afturverkandi skv. aðalsamningnum og eru þess vegna ekki eins ákveðnar og krafan fyrir árið 1980.“ — Hann er að segja það sama eins og dr. Schilvers frá Coopers og Lybrand.

„Það mundi taka meiri tíma að halda málarekstrinum áfram, leiða til talsverðs aukakostnaðar og eflaust frekari tafa á samningnum varðandi endanlegt orkuverð. Það er vafasamt að ríkisstj. gæti vænst betri árangurs en þeirra 3 millj. Bandaríkjadala, sem Alusuisse býður til uppgjörs. ef málarekstrinum skv. bráða birgðasamningnum yrði haldið áfram til loka og dómnefnd sérfræðinga í lögum mundi gefa álit sitt eða úrskurð undir þessum kringumstæðum.“

Ég get auðvitað ekki fengið sterkari vitni um það sem við nú höfum gert heldur en umsagnir þessara tveggja aðila. Ég veit enda, og það hefur raunar komið fram, að ekki verður álit þeirra í efa dregið, að þar sé skynsamleg afstaða tekin til niðurstaðnanna.

Þá sagði hv. 3. þm. Norðurl. v. að það væri frágangssök eða forkastanlegt — og gagnrýndi það hörðum orðum - að Alusuisse ætti einhvern forgangsrétt að nýrri orku, 80 megawatta eins og hann tók fram, vegna stækkunar álbræðslunnar. Að vísu skil ég ekkert hvaðan þessum 80 megawöttum rignir niður, vegna þess að ef af stækkun álversins verður um 50% þá þarfnast sú stækkun til sín 600 gwst., sem eru 4/5 af framleiðslugetu Blöndu. Og ef hann notar sama mælikvarða af afli Blöndu, 4/5, þá eru það ekki 80 megawött heldur 120 sem þarna er um að tefla.

En forgangsrétt hafa þeir engan. Hins vegar eru forsendur fyrir Blöndu vissulega þær að við getum komið svo miklu af orku hennar í lóg strax. Það mundi létta stórkostlega á þessari framkvæmd. En Blanda er eftir sem áður nauðsynleg vegna raforkukerfisins. Þeir eiga engan forkaupsrétt og forgangsrétt að þessari orku, við eigum eftir að semja um þetta. Það liggur líka ljóst fyrir að við munum semja á hærri nótum fyrir þessa nýju álbræðslu heldur en hina gömlu.

Menn spyrja, ég man ekki hvort það var hv. 5. landsk. þm., ég trúi þó að svo hafi verið, sem spurði hvernig það mætti vera að ný álbræðsla gæti borgað hærra verð en gömul. Þá er frá því að segja t.a.m. að þessi 50% stækkun álversins þarf til sín 600 gwst. á ári til þess að framleiða 50% af því magni sem gamla verksmiðjan hefur gert. En gamla verksmiðjan þarf nærri 1400. Þannig að ef gamla tæknin hefði verið notuð þá hefði álverið í Straumsvík þurft 100 gwst. meira á ári til framleiðslunnar heldur en hin nýja. Svo er að því einnig að gá að verksmiðja sem er byggð við hlið gamallar eins og þessarar er talin kosta í byggingarkostnaði aðeins 2/3 hluta af því sem verksmiðja sem byggð er frá grunni mundi kosta. Þannig að þetta eru nokkrar skýringar á því hvernig þetta má verða.

Ég sinni ekki nú að rifja upp 18 ára forsögu þessa máls. Ég var þar hvergi nær þegar þessum málum var ýtt úr vör. Ég minni enn fremur á, vegna ummæla hv. 3. þm. Norðurl. v., að það voru ráðherrar í hans ríkisstjórn, hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnar Thoroddsen og Steingrímur Hermannsson, hæstv. núv. forsrh., sem á árinu 1982 — og ég get fundið þetta í þingtíðindum — lýstu því yfir mjög skýrum orðum hér á hinu háa Alþingi að það væru ekki ákærur um sviksemi á hendur Alusuisse af hálfu íslenskra stjórnvalda, mjög skýrlega tekið fram. Og það má auðvitað rifja upp hvað varð um fyrstu ásakanir og stóra tilhlaupið um sviksemina, sem svo var kölluð af hálfu Alþb.-manna, um hækkun í hafi.

Já, það getur Alþb. haft eins og því sýnist, að hér séum við að hirða uppskeruna af allri hinni miklu sáningu Hjörleifs Guttormssonar í hina frjóu jörð sína. Ég skipti mér ekkert af því. Það mun vafalaust síðar verða skrifuð sagan og þá koma þeir dómar, sem ég kvíði öngvu um hvernig hljóða munu, og þarf ekki þess vegna sjálfur að hafa í frammi neinar yfirlýsingar í því sambandi, síst að forvera mínum fjarstöddum.

Ég var búinn að víkja að sakaruppgjöf, eins og hún er kölluð, af hv. 3. þm. Norðurl. v. og fleirum. Hann las þarna upp lögfræðingamál, sem mér var nú alveg satt að segja nóg boðið sjálfum að lesa. En þetta er nú torfið þeirra og ætti hann að vera einna sístur manna til að lasta það, því að ég veit ekki betur en að hann sé svona eins og hálfur þeirrar gerðar — og auðvitað fram í ættir, og allt erfist nú. En ég ber ekki ábyrgð á því og vísa því frá mér.

Síðan er sagt — ég hef rakið það einnig: Hvaða ástæður lágu til þess að sættirnar voru valdar? Það er sem ég segi, það varð að hraða öllu málinu því að það eru stórkostlegir fjármunir sem við eigum í boði. Og eins og ég hef áður rakið, þeir sem gerst þekkja til telja að þetta hafi verið besta leiðin til úrslita í málinu.

Þessi stórkostlega raforkuverðshækkun til Landsvirkjunar hefur auðvitað valdið því, bráðabirgðasamningurinn frá því í fyrra, að við höfum getað haldið orkuverði óbreyttu frá því 1. ágúst 1983. Hinn 1. ágúst s.l. hefði þetta þýtt raungildislækkun um 15.8% orkuverðsins til almennings. Við höfðum í huga að reyna að halda þessu verði út næsta ár, en það kann vel að verða að verðbólgusamningar Alþb. og stjórnar BSRB verði til þess að við eigum þess ekki kost. Það er hugsanlegt. En það var ætlun okkar. Og ef það hefði tekist, að halda því óbreyttu til 1. ágúst næsta ár, þá hefði verið orðin um fjórðungs raungildislækkun á orkuverði til almennings — og enda má vel vera að þetta geti orðið nokkurn veginn svo, miðað við framfærsluvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu eftir þær hækkanir sem nú hafa orðið. Það getur vel verið að okkur takist það.

En að því verður a.m.k. gáð að Landsvirkjun verði aldrei aftur rekin með bullandi tapi, eins og tíðkaðist í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj., slíku ógnartapi að það stefndi í 400 millj. kr. halla þegar að var komið í lok maí í fyrra.

Það hefur verið kvartað undan því að ég hafi ekki haft nóg samráð við hið háa Alþingi og ég finn til þess að þá gagnrýni á ég skilið. Ég fékk því hins vegar ekki ráðið. Það var sett fram sem mjög gallhörð krafa að engar upplýsingar yrðu gefnar um innihald þessara samninga nema báðir aðilar samþykktu. Ekki einu sinni eftir fundinn í London 8. og 9. okt., þar sem ég hafði þó látið lýsa því yfir að ég mundi líta svo á að okkur væri heimili að upplýsa um innihald samninganna. Það tókst ekki og það þykir mér verra. Aftur á móti eru ýmsir sem eiga að bera sig meir upp undan því en Alþfl., sbr. það sem fram kemur í yfirlýsingu Baldvins Jónssonar í Alþýðublaðinu í gær, þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi gefið þingflokki Alþfl. mjög greinargóðar upplýsingar um gang samningamálanna núna undanfarna mánuði. Hef ég svo ekki neinu við það að bæta sjálfur. En þetta gildir almennt, að það er rétt að mér tókst ekki að veita þær upplýsingar sem ég hefði ella kosið. Ég taldi ekki ráð, miðað við þá reynslu sem við höfum haft af gangi mála hér á hinu háa Alþingi í tíð fyrirrennara míns, að kalla til stjórnarandstöðuna að beinni samningagerð.

Hvað sagði svo í fræðum fyrrv. stjórnarmanna um samvinnuna og samstarfið hjá fyrirrennara mínum hæstv.? Guðmundur G. Þórarinsson upplýsti í umr. á Alþingi 9. des. 1982 að allt það ár hefði þáv. iðnrh. ekkert samráð haft við stjórnskipaða samninganefnd í þessu máli. Hún var skipuð 1981 og eitthvað fram eftir því ári hafði verið haft samráð við hana, en á árinu 1982 alls ekki neitt. Hann sagði sig úr nefndinni og sagðist ekki vilja vera viðriðinn mál sem hæstv. þáv. iðnrh. ræki eins og rússneskt hænsnabú, svo menn rifji það upp fyrir sér, sem ég að vísu skil ekki af því ég þekki ekki til hænsnarekstursins þar eystra.

Þetta var nú frá samráðinu að segja þá. Þá var verið að látast vera að hafa samráð. Þá voru menn með yfirhylmingar og látalæti í málinu. Það hef ég ekkert verið. Ég tilkynnti að ég mundi reyna að hafa það samráð við hið háa Alþingi og stjórnarandstöðuna líka sem kostur væri. Ég hef sagt frá því hvernig það gekk til og hef engu við það að bæta. Mér fellur það miður að hafa ekki getað lofað öllum hér á hinu háa Alþingi að fylgjast betur með en raun varð á.

Menn spyrja um verðtryggingar, menn spyrja um raungildið. Hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason taldi að raungildi þessa samnings yrðu 4.7 mill að 20 árum liðnum miðað við að dollarinn félli svo og svo mikið. Hvað verður um skuldir okkar ef raungildi dollarans fellur? Hvað um það ef við tökum að láni vegna Blönduvirkjunar svo og svo mikið, eins og menn töluðu um, — í Bandaríkjadollurum? Hvað verður um raungildi þeirra skulda ef Bandaríkjadollari fellur að raungildi? Menn geta haldið áfram að reikna þetta út eins og þeim sýnist.

Auðvitað erum við ekki einir í heiminum og verðlagsþróun hlýtur að bitna á okkur eða veita okkur hag eftir því hvernig vindur blæs. Við ætlum nú vonandi að fara að sjá betur fyrir okkur en við höfum hingað til gert í þeim efnum.

Hæstv. fjmrh. svaraði fsp. hv. þm. varðandi skattamálaumræðuna. Ég þarf ekki að minna á það að nú fljótlega munu hefjast viðræður um skattamálin, þar sem menn leita eftir nýjum leiðum, öruggari viðmiðunarleiðum en áður hafa verið, og við höfum sett okkur það mark að ljúka þeim fyrir 1. júní n.k. Ég minni á að það hefði tafið mjög fyrir hækkuðu orkuverði ef við hefðum haldið fast við það að ljúka öllum þessum málum, líka stækkunarviðræðunum. Það var því ekkert spursmál um að velja það að ná fram orkuverðinu hið fyrsta, vegna þess að skv. þessum samningi erum við kannske að tala um nærri 20 millj. dollara vegna orkuverðsins, en skattar eru hins vegar aðeins 1.6 millj. dollara. Og þar eru föst ákvæði, sem við þurfum ekki að óttast að breyti neinu um upphæðina, heldur erum við að deila kannske um einhver 10–15% til eða frá. En við höfum sett það að skilyrði í sáttunum að fundin yrði ný viðmiðun, öruggari viðmiðun, þannig að menn þyrftu ekki að eiga í þessum endalausu deilum eins og við höfum átt í.

Mér þykir það leitt, og er nú Bleik brugðið, að Alþfl. skuli ætla að greiða atkvæði gegn þessum samningum. En við það verður að sitja. Við það verður að sitja þótt ég hefði annars vænst. Og er það sem jafnan vill verða í stjórnarandstöðu, þá gá menn ekki að sér þegar þeir eru að smíða sér vopnin sem þeir svo kalla. En þau eiga stundum til líka að snúast í höndum manna. Og er nú, eins og ég segi, illa komið fyrir þessum flokki sem einu sinni var allgóður flokkur í afstöðu sinni og ábyrgur. En við skulum vona að Eyjólfur hressist þó síðar verði því ekki er öll nótt úti enn.

Ég dreg nú við mig í tímaþröng að eiga orðastað við hv. 11. þm. Reykv., enda er frúin fjarstödd. Það sýnir sig að þær Kvennalistakonur eru lengra úti í eyðimörkinni en nokkurn tíma Alþb. En þær heyra þó til þeirra því að allt apa þær eftir þeim, það er alveg greinilegt. Og alltaf greiða þær atkvæði eins, þannig að þetta eru skilvísar fylgikonur Alþb. í þeirri merkingu, og ég vona nú að menn snúi ekki út úr þessum orðum mínum, því að ég var ekki að tala um lagskonur í þessu sambandi. Ég endurtek það vegna ummæla hennar að enda þótt hér séu miklir peningar í húfi frá degi til dags, þá verður því ekki borið við að menn fái ekki ærinn og nægjanlegan tíma, sem þeir fara fram á, að gaumgæfa þessi mál öll sömul.

Ég finn hins vegar að klukkan slær öðruvísi hjá BJ og þakka Stefáni Benediktssyni, hv. 8. þm. Reykv., fyrir hans orð sem voru skynsamleg mörg. Já, það er þessi fsp. sem hann gerði, sú hin fyrri: Hvað gerum við í orkuverðsmynduninni ef dollarinn fellur mikið? Við höfum þessi fimm endurskoðunarákvæði á fimm ára fresti. Menn kalla að þau séu óljós, en ég minni á að það stendur skýrum stöfum að við getum sótt til dómstóla um það ef okkur verður neitað um endurskoðun. Ég hef ekki um þetta að segja annað en það að ýmislegt annað breytist einnegin ef dollarinn lækkar í raungildi.

Svo var í öðru lagi spurt: Hvenær á að semja um orkuverð til stækkunar álvers í Straumsvík? Það verður tekið til við það þegar að loknum þessum samningum, sem ljúkast ekki fyrr en við gildistöku þessa frv. En það er ljóst, við höfum ekki tekið endanlega afstöðu þar til orkuverðsins, við erum mjög að ræða þessi mál, einnig vegna þeirra viðræðna sem eiga sér stað vegna kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Það eru margir möguleikar, sem til greina koma, en þó ófrávíkjanlegt að þegar til lengri tíma er litið þá verðum við að hafa rúmlega fyrir framleiðslukostnaði okkar. Það er undirstaðan.

Að öðru leyti þakka ég fyrir það að menn gera undantekningu á eldhúsdegi og leyfa umræður um þetta mál. Ég vona að þessi mín ræða hafi ekki orðið til þess að menn verði nú málþola mjög að lengja umr. frá því sem þegar er orðið. En ég er hins vegar tilbúinn til þess að sitja fyrir svörum eins og mönnum sýnist við 2. og 3. umr., bæði hér í hæstv. Ed. og eins þegar málið kemur til þeirra í neðra.