19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6818 í B-deild Alþingistíðinda. (6124)

129. mál, umferðarlög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þetta mál. Það er mikið í húfi að umferðarslysum og þá sérlega dauðaslysum fækki í umferðinni hér á Íslandi og það er að sjálfsögðu ekki besta eða heppilegasta leiðin að þvinga fólk til þess að lifa af með því að beita þar löggjöf, en ég vil benda á þær staðreyndir sem hafa komið fram í þessu máli. Þær eru óvefengjanlegar.

Nýlega birtist grein sem vitnað var til úr ensku tímariti þar sem spáð hafði verið auknum mannslátum á gangandi vegfarendum í kjölfar þess að bílbelti yrðu notuð í auknum mæli. Þessar niðurstöður eru mjög umdeildar í Bretlandi. Þær þykja ekki vel unnar og öll tölfræði í þessum rannsóknum er mjög vefengd þannig að ég ráðlegg mönnum að kynna sér þær staðreyndir vel ef þeir ætla að nota þær til að styðja mál sitt.

Ég vil í þessu sambandi vitna til greinar eftir Ólaf Ólafsson landlækni sem nú dvelst og vinnur að sérstökum verkefnum hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í Kaupmannahöfn. Þetta er grein sem mun birtast í einu dagblaðanna núna á næstu dögum og ég leyfi mér að vitna til, með leyfi forseta. Hún kallast „Um bílbelti og slys“:

„Hvort sem um er að ræða slys í umferð, heima, í vinnu eða frístundum má rekja orsökina til umhverfisins, mannlegra yfirsjóna eða galla í vél eða tækjum.

Til að draga úr slysum er því ráð að breyta þessum þáttum. Stöðugt er unnið að endurbótum á tækjum þannig að slysahætta verði sem minnst, en kostnaður t. d. við gerð algerlega „slysatryggðra“ bíla yrði svo mikill að fáir hefðu ráð á að eignast þá. Umhverfinu má breyta og fækka þannig slysagildrum þó kostnaðurinn geti einnig þar orðið þrándur í götu.

Þá er komið að manninum sjálfum. Langflest slys á láði, í lofti og á legi verða á ungu fólki og orsökin er oftast mannleg yfirsjón eða reynsluleysi. Um 65% þeirra sem deyja eða slasast í umferðinni eru undir 25 ára aldri. Árangursríkast væri því að kenna ungu fólki að fara jafnan fram með gætni og fyrirhyggju. Sú breyting verður þó ekki á einni nóttu.

Eftir er því sú leið sem fæstir vilja fara — beiting laga og viðurlaga. Þessi aðferð er þó notuð er fokið er í flest skjól, en staðreynd er að tekist hefur að draga úr ýmsum slysum á þann hátt.

Nú liggur fyrir Alþingi frv. um breytingar á umferðarlögum sem gerir ráð fyrir því að þeir sem ekki noti bílbelti verði látnir sæta sektum. Í Morgunblaðinu 1. júní 1985 kemur fram að meiri hl. allshn. Nd. telur „að varanlegur grunnur að bættri umferðarmenningu og meira öryggi verði ekki lagður með sektarákvæðum. Úrbætur verða að fást með jákvæðri löggæslu, hvatningu eða upplýsingu, umferðarkennslu og aðgerðum á sviði gatnaframkvæmda og skipulags, svo að nokkur dæmi séu nefnd.“ Ég er ekki fyllilega sammála þessari umsögn þó að margt sé þar gott sagt.

Umferðarslysum hefur fækkað verulega í heiminum á undanförnum árum þrátt fyrir mikla fjölgun bifreiða. Að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og annarra stofnana sem starfa að slysavörnum eru orsakirnar aðallega þær að hert hafa verið viðurlög við brotum á lagaákvæðum um hraðatakmarkanir og um bann við ölvun við akstur, auk þess sem sett hafa verið lög um notkun bílbelta og viðurlög ef lögin eru ekki virt.

Hvern er verið að vernda með bílbeltalögum og sektarákvæðum? Það er einkum verið að koma í veg fyrir að ungt og reynslulítið fólk deyi eða slasist í umferðinni. Ég vil hvetja alþm. til að hafa þetta í huga við afgreiðslu málsins.“

Ég vildi gjarnan koma þessu á framfæri þó að þetta sé enn ekki birt í blaði og ég vil hvetja til þess að málið sé samþykkt í upprunalegri mynd eins og það kom frá Ed.