19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6854 í B-deild Alþingistíðinda. (6164)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 1. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vildi ég benda henni á að í þeirri blaðagrein sem hún er að vitna í standa hvergi orðin „bull og þvæla“. Þau eru hennar tilbúningur. Ég sagði hins vegar orðrétt: „Ruglið og ráðleysið í kringum Bandalag jafnaðarmanna er orðið hreint með ólíkindum. (KolJ: Hvaða munur er þar á?) Það þýðir allt annað, ef hv. þm. skilur íslensku. En vegna þess að hún var að segja að ég hefði tekið hér undir hugmyndir sem mér skilst að Bandalag jafnaðarmanna telji sig eiga einkarétt á, um fylkisstjórnir eða stærri stjórnsýslueiningar í kerfinu, þá vil ég benda hv. þm. á að fletta upp í tímariti sem heitir Gerpir og er gefið út af atorkumönnum á Austfjörðum, árganginum frá 1946. Þar getur hún lesið ítarlega útfærslu á þessum hugmyndum og ég hygg að það hafi verið jafnaðarmenn, a. m. k. einhverjir þeirra, sem stóðu að þessu.

Annað mál sem Bandalag jafnaðarmanna hefur mjög haft á oddinum og eignað sér undanfarið er að landið skuli vera eitt kjördæmi. Það vill nú svo til að þetta er áratuga gamalt baráttumál Alþfl. Mér þykir það hrapallegt með þetta ágæta fólk sem styður Bandalag jafnaðarmanna að þær hugmyndir sem það byggir á eru fengnar að láni frá öðrum flokkum, m. a. þær sem ég hef nú skýrt frá. Og þær sem ekki eru fengnar að láni frá öðrum flokkum, sumt frá Alþfl. og sumt sjálfsagt annars staðar frá, eru byggðar á misskilningi erlendra hugmynda.

Eitt af því sem stundum hefur verið hampað á vegum Bandalags jafnaðarmanna er enska orðtakið sem frægt hefur verið gert: „small is beautiful,“ smátt er fagurt. Og það skulu vera mín lokaorð hér að ég tek heils hugar undir það að því smærra sem Bandalag jafnaðarmanna verður, því fegurra mun mér þykja það.