19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6894 í B-deild Alþingistíðinda. (6201)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Að stofni til er þetta frv., sem hér er til meðferðar um skuldbreytingu í sjávarútvegi, til þess að breyta viðskiptaskuldum sjávarútvegsfyrirtækja í lengri lán. Að þessu starfi vann ákveðinn vinnuhópur á vegum sjútvrh. á síðasta ári.

Á síðasta ári voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að styðja við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, útgerð og fiskvinnslu, og var ekki vanþörf á. Það var ætlast til þess að Fiskveiðasjóður tæki að sér að miðla peningum í því skyni að breyta lausaskuldum í föst lán og áætlað að heildarupphæðin til þessa verks væri um 1/2 miljarður kr. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt atriði í sambandi við að styðja við útgerðina og fiskvinnsluna og þess vegna hafa allir orðið sammála um að afgreiða þetta mál jákvætt.

Þetta er mjög stórt mál, en sannleikurinn er sá að eins og það liggur nú fyrir til afgreiðslu er hér ekki um að tefla aðeins eitt stórt mál heldur tvö og þau eru aðeins tvenns konar og raunar óskyld. Annars vegar er þarna um skuldbreytingu að ræða, eins og ég nefndi fyrr, en síðara málið er brtt. sem borin er fram af hálfu sjútvrn. Efni hennar er það að Fiskveiðasjóði verði heimilt að veita lán eða ábyrgðir vegna stofnframkvæmda við fiskeldisstöðvar. Þarna er í rauninni á ýmsan hátt um talsvert merkilegt mál að tefla vegna þess að laxamál hafa verið undir landbrn. að öllu leyti fram að þessu, en með því að heimila Fiskveiðasjóði öfluga lánastarfsemi í fiskeldisskyni tengist þessi nýi atvinnuvegur og vonandi þessi nýja stóriðja Íslendinga sjávarútvegsmálum, en að mínum dómi og flestra sem ég þekki til er rétt að hafa hann undir því rn.

Ég vil nefna einmitt á þessu augnabliki að atvmn. Sþ. hefur skilað nál. um fiskræktarmál á þskj. 1332 þar sem till. var flutt um það að sjútvrn. færi með fiskræktarmál. Ásamt öðrum mjög skyldum till. var þessi till. afgreidd frá atvmn. þannig að málinu var vísað til ríkisstj., raunar með mjög jákvæðum hætti, og vil ég því beina því til hæstv. ríkisstj., ef eitthvað er eftir af henni hér, að... (Heilbr.- og trmrh.: Hvað þarf að verða mikið eftir af henni?) Helst einhverjir sem einhver hryggur er í, þó að nú vanti hinn hvassbrýnda hæstv. landbrh., og vona ég að þeir hæstv. ráðherrar sem eftir eru, eða um 30% þeirra, taki það mál upp sem fyrst og stefni að því að leggja fram frv. um það í haust.

Herra forseti. Það er dálítið sérkennilegt að koma stóru máli eins og þessu, varðandi lánamöguleika fiskeldisins, inn í frv. sem fjallar um allt annað. Hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði að þetta væri eins og að fara bakdyramegin með málið. En sannleikurinn er sá að líka er hægt að komast inn í húsið bakdyramegin. Aðalatriðið er að komast þangað. Ef það er eins og nú stendur með mál á hinu háa Alþingi erfitt að komast inn með slíkt mál með venjulegum hætti — ég segi ekki eðlilegum vegna þess að það er ekkert óeðlilegt við þetta — þá eiga menn að brúka þær leiðir sem færar eru.

Við hér í þessari hv. deild erum búin að heyra mikið talað um fiskeldi, ekki aðeins á þessu þingi heldur mörgum öðrum undanförnum þingum, og allir tala um að það þurfi að renna sterkari stoðum undir atvinnumál landsmanna — eða heitir það ekki það? Svo þegar kemur til framkvæmda vantar það sem til þarf því að peningarnir eru einu sinni afl þeirra hluta sem gera skal. Það er ekki nægilegt að tala og ætla og langa og vilja og útvega svo ekki peninga til verksins. Það er það sem verið er að gera hér. Ég vil í þessu sambandi segja að þó að hv. þm. Guðmundur Einarsson hafi talað gegn frv. veit ég að hann er samþykkur þessari breytingu, en vegna þess að hann er gegn frv. sjálfu getur hann ekki verið með okkur á þessu nál.

Herra forseti. Í þeirri stuttu ræðu sem hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður nefndarinnar, flutti áðan nefndi hann ákveðna prósentutölu, ákveðið hlutfall af innlendum stofnkostnaði sem mátti lána, 3/4 eða 75%. (Gripið fram í.) Já, það er ekki í þessari till. Ég vil vekja athygli á því að þó að hv. formaður hafi nefnt þessa tölu er hún ekki í tengslum við afgreiðslu nefndarinnar í þessu máli. Mér finnst vera býsna hátt reitt til höggs í fyrsta höggi. Ég vil undirstrika að þessi tala er ekki á okkar pappírum þó að þetta hafi verið nefnt. Hins vegar þýðir það ekki að ég muni leggjast gegn því þegar þar að kemur að myndarlega verði útvegað fé til þessarar starfsemi. En það er sem sagt ekki í þessum áfanga.

Aðalatriðið í tillögunni í mínum huga er að Fiskveiðasjóði verður heimilt að veita lán eða ábyrgðir vegna þessara framkvæmda með veði í fasteignum eða gegn ábyrgðum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi.

Herra forseti. Um þetta mætti að sjálfsögðu ræða lengi, en um þessa hluti hefur verið allt of lengi talað og allt of lítið framkvæmt og loksins er kannske komið að því að þeir sem í þessu standa fái að byggja upp nýjan og vonandi arðvænlegan atvinnuveg sem muni skapa fjölmörg arðgefandi og arðbær störf.