19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6902 í B-deild Alþingistíðinda. (6243)

398. mál, grunnskólar

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. menntmn., en undir það álit skrifa Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Nál. þetta er við frv. til 1., þskj. 645, um breytingar á lögum um grunnskóla og flm. þess máls hér á þinginu er Páll Dagbjartsson. Ég vil byrja, með leyfi forseta, á því að lesa örstutta klausu úr grg. flm.:

„Í 88. gr. laga um grunnskóla er kveðið svo á um að níu ára skólaskylda skuli koma til framkvæmda hér á landi sex árum eftir gildistöku laganna eða árið 1980. Á hverju þingi síðan hefur verið samþykkt að fresta gildistöku þessa ákvæðis. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mikil andstaða er gegn níu ára skólaskyldu, ekki síst meðal skólamanna sem starfa á grunnskólastigi og gerst þekkja til.“

Brtt. sem minni hl. flytur er við 1. gr. laganna og orðast svo, með leyfi forseta:

„Skylt er ríki og sveitarfélögum að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, eftir því sem nánar segir í lögum þessum, og nefnist það fræðsluskylda. Skóli þessi nefnist grunnskóli og er öllum börnum og unglingum 7–15 ára skylt að sækja skóla. Undanþágu má þó veita frá skólaskyldu, sbr. 5., 7. og 8. gr.

Þegar tilgreindur er aldur nemanda í lögum þessum miðast hann við það almanaksár er nemandinn nær nefndum aldri.“

Með leyfi forseta vil ég þá lesa upp nál. minni hl.: „Nefndin hefur fjallað um frv. og mælir minni hl. með samþykkt þess, en flytur brtt. við 1. gr. frv.

Það er álit minni hl. að það yrði skólastarfi í grunnskólum landsins ekki til framdráttar ef þeir nemendur, sem nú hverfa úr skóla eftir 8. bekk, yrðu skyldaðir til að halda áfram námi sem þeir hafa engan áhuga á. Minni hl. telur að þeir nemendur, sem þannig yrðu þvingaðir til skólaveru, gætu skaðast verulega með slíkri ráðstöfun og e. t. v. gæti það komið í veg fyrir framhald í námi síðar meir.“

Þetta nál. og þessi brtt. leggur þær skyldur á herðar stjórnvöldum að greiða sama kostnað í 9. bekk og í öðrum bekkjum grunnskólans. Hún leggur aftur á móti ekki þær skyldur á nemendur að sækja 9. bekkinn ef þeim er það þvert um geð. Það hlýtur að vera ærið umhugsunarefni hvort rétt sé að taka upp það skylduákvæði að skylda nemendur til náms, þegar fyrir liggur að flestallir nemendur halda áfram námi í 9. bekk. Undantekningarnar eru fáar, en þær eru af ákveðnum ástæðum og það er margt í lífi unglinga sem getur haft þar áhrif á.

Við skulum ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að námsleiði getur þjakað æskumenn mjög verulega og sumir þeirra eru miklu betur komnir við hagnýt störf í þjóðfélaginu og æskilegt að þeir tækju sér frí frá skólanámi. Nú er það svo að í fjölbrautaskólum landsins er hægt að taka núlláfanga og bæta sér þannig upp nám sem ekki var framkvæmt á réttum tíma, en skilar sömu réttindum til áframhaldandi náms standi hugur nemenda til þeirra hluta.

Ég hygg að að sumu leyti sé þetta spurning um viðhorf manna líka til frelsisins. Það hlýtur að vera betra að vera kennari yfir bekk þar sem nemendur hafa af frjálsum og fúsum vilja ákveðið að stunda nám og eru þess vegna að læra fyrir sjálfa sig, en ekki fyrir aðra, hvorki fyrir íslenska ríkið, kennarann né foreldra sína. Það er mat mitt að það sé engin nauðsyn að taka þá ákvörðun að þröngva því upp á nemendur að þeir skuli læra þegar liggur fyrir að velflestir ætla sér að læra þó að þeir fái ekki skipun um það.

Herra forseti. Mér er ljóst að viss ágreiningur er um þetta atriði. Þó ætla ég að sá ágreiningur sé ekki mjög mikill á meðal skólamanna.