19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6912 í B-deild Alþingistíðinda. (6247)

398. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það frv. sem við höfum hér til meðferðar er um það að stytta skólaskylduna á Íslandi. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um að ég er andvíg frv. Ég tel að þau rök sem lágu til þess að skólaskyldu var komið á á Íslandi séu enn í fullu gildi. Ég tel að þau rök sem þungvægust voru hafi verið þau að sem flest af landsins börnum ættu að eiga kost á hinni bestu menntun og það hefði mikið gildi til að auka velfarnað þeirra í lífinu. Ég held að þessi rök eigi ekki síður og jafnvel fremur við í dag en áður. Ég veit ekki hvort við höfum nokkurn tíma lifað tímabil eins og nú því að það sem máli skiptir á næstum að segja hvaða vettvangi atvinnulífsins sem er er þekking og færni í því sem verið er að fást við. Þegar við berum saman við aðrar þjóðir er það ekki vegna eftiröpunar, heldur vegna þess að við störfum við hlið þessara þjóða á ýmsum vettvangi og eigum í samkeppni við þær. Við verðum að sjá til þess að það vinnuafl sem landið hefur, það fullorðna fólk sem er hverju sinni uppi á okkar landi, sé fyllilega fært um að axla alla þá ábyrgð sem það hlýtur að hafa í för með sér að sjá um þetta litla, sjálfstæða þjóðfélag á þann veg að við getum boðið upp á nútímavelferð sem við teljum óhjákvæmilega og skynsamlega.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé í þágu hagsmuna og réttinda unglinganna sjálfra að láta grunnskólalögin koma til framkvæmda. Það er eins og við vitum miðað við aldursmarkið 16 ár. Það er sama aldursmarkið og sjálfræðisaldur miðast við í lögræðislögum. Það hefur þótt skynsamlegt og ekki ástæða til að breyta því að þau réttindi sem menn fá til þess að ráða högum sínum og sú ábyrgð sem menn fá við 16 ára aldur séu í lögum bundin. Mér þykir ekki óeðlilegt að skólaskyldan nái einnig til þess aldurs. Ég tel að í raun og veru séu sömu rök að baki skólaskyldu á síðasta námsári og skólaskyldu yfir höfuð.

Það er auðvitað rétt, sem hv. flm. þessa frv. reifaði hér, að það má velta því fyrir sér frá heimspekilegu sjónarmiði hvaða gildi skólaskylda hafi yfirleitt, hvort það laði ekki betur fram frumkvæði einstaklings í skólanum að það sé einungis fræðsluskylda, hann eigi kost á fræðslu en verði sjálfur að bera sig eftir henni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé löggjafans að sjá til þess að fólk á aldrinum 7–16 ára fái fræðslu. Það er nákvæmlega jafnerfitt að sitja í skóla andstætt vilja sínum þegar maður er 13 ára og þegar maður er 15 ára. Námsleiði er auðvitað erfitt fyrirbæri á hvaða aldri sem barn er, en svo er fyrir að þakka að nútímauppeldisvísindi hafa kennt mönnum ýmis ráð til þess að etja kappi við þennan margnefnda námsleiða og það svo að stundum velta menn því fyrir sér hvort alveg sé rétt að staðið, og hvort það sé e. t. v. á kostnað þeirrar kunnáttu sem menn fá í skólunum.

Með því að opna leið til að láta undan því að fara úr skólanum þegar hverjum og einum sýnist, eins og gert væri með þessu frv. og raunar líka með brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að því er tekur til þeirra ára sem í brtt. segir, erum við líka að draga úr þeirri aðstoð sem hið unga fólk fær til að búa sig undir lífið, eins og sagt er. Það er eins og menn telji stundum að lífið byrji ekki fyrr en menn hafi lokið námi. En með því að gera þetta eigum við vissulega á hættu að leið lokist til frekara náms, að menn taki sig ekki til einhvern tíma síðar á ævinni og setjist í núll-áfanga í framhaldsskóla til þess svo að fara í framhaldsskólann. Það eru töluverð brögð að því að fólk geri það ekki þó það þurfi á því að halda. Ég sé ekki nauðsyn á að breyta því ákvæði í grunnskólalögunum sem er í 1. gr. þess og veitir unglingum landsins þá vernd, vil ég segja, sem í því felst að þeim sé skylt að sækja skólann með þeim sveigjanleika þó sem lögin gera ráð fyrir að sérstaklega gæti verið í 9. bekk.

Það er auk þess alveg rétt, sem hér hefur komið fram í máli nokkurra hv. þm., að þetta skapar mismunun milli landshluta. Það kann vel að vera að þetta sé ekki deilumál milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hins vegar held ég að þetta sé mál sem varðar mismunandi réttindi dreifbýlis og þéttbýlis. Ég held að samþykki frv. dragi úr möguleikum þeirra sem í dreifbýlinu búa. Þar er kostnaður foreldra meiri af því nú að hafa börn í 9. bekk en er í þéttbýlinu. Þeir bera nokkurn kostnað við mötuneyti og heimavist. Þar liggur e. t. v. beinna við að 15 ára unglingur segði: Hví skyldi ég ekki fara út og vinna fyrir mér og leggja til heimilisins í staðinn fyrir að láta greiða fyrir mig í mötuneyti í skólanum? — Með þessu er verið að skapa misrétti milli 15 ára nemanda og systkina hans sem kannske eru í sama skóla. Ég held að við ættum að sjá hverju fram vindur ef við látum koma til framkvæmda margumrædda 1. gr. grunnskólalaganna. Það er ómögulegt að dæma um þetta, eins og menn gera hópum saman, og tala um reynsluna af skólaskyldu fyrir 15 ára fólk þegar hún hefur aldrei komið til framkvæmda. Hvernig á að meta þá reynslu þegar þetta hefur aldrei komið til framkvæmda? Það er auðvitað ekki hægt. Þess vegna eigum við að láta 1. gr. grunnskólalaganna koma til framkvæmda.

Það hefur verið látið í veðri vaka mörg undanfarin ár, þegar 88. gr. grunnskólalaganna hefur verið breytt þannig að skólaskyldan frestaðist, að það væri af fjárhagsástæðum. T. d. hefur þessi breyting stundum verið gerð inni í hinum svonefndu bandormsfrv. um efnahagsráðstafanir eða þá jafnvel í frv. sem tengjast fjárlagafrv. Á síðasta ári var þessi breyting gerð með öðrum hætti en áður hefur verið. Þá stóð svo á að það var ekki einungis um að ræða framlengingu með venjulegum hætti, eins og gerst hafði ár eftir ár, heldur var árið 1984 skv. lögum búið að hnykkja á þessu gildistökuákvæði vegna þess að fyrri hl. 88. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda svo fljótt sem aðstæður leyfa í hverju skólahverfi að dómi menntmrn. þó eigi síðar en innan tíu ára frá gildistöku.“

Það var því kominn eindagi í fyrra, nánar tiltekið 21. maí 1984. Þessu var þá breytt í: innan ellefu ára.

Ég hef sagt það oft, bæði á Alþingi og við þá forsvarsmenn skólamála sem starfa að málum sem tengjast þessum þætti, að ég hygðist ekki bera fram tillögur til breytinga á þessu, enda var það ekki að minni tillögu sem þessi breyting var gerð í fyrra í sambandi við efnahagsráðstafanir. Ég hef þvert á móti skýrt frá því að ég miðaði allar áætlanir við að þetta ákvæði kæmi til framkvæmda. Og þegar menn ræða um þann kostnað sem þetta hafi í för með sér og athuga þurfi það sérstaklega minni ég á að Alþingi hefur þegar tekið ákvörðun um það með samþykkt fjárlaganna nú í vetur því að í fjárlögunum eru ákvæði sem byggjast á því að skólaskyldan í 9. bekk komi til framkvæmda í haust.

Þessu geta menn flett upp í fjárlagafrv. og grg. þess. Í grg. frv. um grunnskóla almennt stendur m. a. að til mötuneyta skyldunámsnema í héraðsskólum skuli koma 1901 þús. Það er vegna þessa atriðis.

Í tillögum menntmrn. vegna Námsgagnastofnunar voru sundurliðuð atriði á þann veg að inni í framlaginu til Námsgagnastofnunar og til bókaútgáfu skyldu vera 6.3 millj. vegna námsbóka fyrir 9. bekk og 2 millj. vegna námsefnis fyrir nemendur með sérþarfir. Þetta ætti því ekki að koma neinum á óvart.

Ég hlýt að nefna þetta og vísa því á bug sem mér heyrðist hv. þm. Páll Dagbjartsson segja hér fyrr í kvöld, að það hefði verið lágmarkskurteisi að gera mönnum aðvart um að 9. bekkur yrði skylda í haust. Þetta var löngu ljóst og kunnugt.

Mér þykir þá skjóta skökku við ef það er ókurteisi að láta menn ekki sérstaklega vita af því að það eigi að fara að lögum. Það ætti engum að koma á óvart að fara eigi að lögum. Auðvitað á að fara að þessum lögum, en það á að tilkynna ef þeim er breytt. Ég ítreka að áætlanir voru við þetta miðaðar alveg frá því í haust og þetta stendur í fjárlagafrv. og það hefur Alþingi samþykkt. Alþingi tók því í raun og veru ákvörðun um málið í vetur, fyrir utan það að Alþingi tók náttúrlega ákvörðun um þetta þegar það setti grunnskólalögin.

En ég vil aðeins víkja að því atriði. Þegar rætt er um fjármagn vegna skólaskyldunnar í 9. bekk og þá lagaskyldu Námsgagnastofnunar að sjá skyldunámsnemendum fyrir ókeypis námsgögnum ber þess að gæta að í lagagreininni segir að það fari eftir ákvörðun námsgagnastjórnar þannig að það er námsgagnastjórnar að meta hvar skilin séu á milli þess sem skylt er að veita ókeypis eða ekki. Það geta verið ýmis svonefnd nýsigögn og hjálpargögn sem falla strangt tekið ekki innan þess ramma sem talið yrði skylt að láta í té ókeypis. Sama má segja um ýmis gögn sem tengjast valgreinum, enda hafa skólar viljað hafa frjálsræði um það hvaða námsgögn þeir létu nemendur hafa í ýmsum valgreinum. Valgreinarnar verða svo að sjálfsögðu misjafnar líka eftir því hvar skólar eru í sveit settir. Minna mætti t. d. á í því sambandi að ýmislegt það sem tengja má vali í 9. bekk er miklu nær því að vera þátttaka í atvinnulífinu en venjulegur skólabókalestur. Það er auðvitað mjög mikið matsatriði hvaða gögn fólk þarf að hafa sér til upplýsinga og leiðbeiningar við þess konar nám eða þess konar val.

Nú er það svo að milli 95 og 96% nemenda á landinu stunda nám í 9. bekk. Þeir sem ekki stunda nám í 9. bekk eru fyrst og fremst úti um landið. Ég get ekki séð að skynsamlegt sé að breyta lögunum þess vegna. Ég tel að sú grein grunnskólalaganna sem felur í sér svigrúm fyrir fræðslustjórn, 49. gr., geti alveg fullnægt þörfum þessara undantekninga á þann veg að nemendur hafi möguleika til að læra meira, búa sig betur undir ýmiss konar atvinnulíf og þeir eigi hægara með að koma inn í nám seinna. Sá hluti greinarinnar sem þetta varðar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta; og það er 4. mgr.:

„Fræðslustjóri getur, að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn auk skólastjóra, heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 8. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi, og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 9. bekkjar.“

Þetta ákvæði hefur e. t. v. ekki verið reynt í framkvæmd eins víða og skyldi. Ég er þeirrar skoðunar að með því að láta lögin koma til framkvæmda reyni miklu meira á þetta ákvæði og það muni meira verða gert að því að láta nám grunnskólabarna, sem eru í 9. bekk, tengjast atvinnulífinu á stöðunum. Ég hygg að sé af hinu góða að það sé gert á þann veg en ekki á þann veg að þau afsali sér náminu.

Ég hygg, herra forseti, að ég hafi tekið fram helstu atriðin sem ég vildi láta fram koma og ráða minni afstöðu í þessu máli. Ég veit að um þetta eru skiptar skoðanir meðal þm. og afstaða til þessa atriðis fer ekki eftir flokkum. Ég hygg að það væri spor aftur á bak að draga úr þeim möguleikum sem ég tel að grunnskólalögin gefi börnum og unglingum um allt land með því að breyta skólaskylduákvæðinu þar. Ég tel líka að það sé rétt og það sé börnum til góðs að þau hafi þessa skyldu til náms. Menn geta sagt: Það er ekkert skemmtilegt að læra ef það er sagt við mann: Þú skalt læra. En það er gert. Og þegar við segjum: Þú skalt læra, þá getum við eins sagt: Ég ber umhyggju fyrir þér.

Í dag vorum við að tala um bílbelti. Alþingi lögleiddi notkun bílbelta og af hverju? Af því að við bárum umhyggju fyrir meðbræðrum okkar og systrum. Það er vegna þess að við töldum fólk bjarga sér betur með því að nota bílbeltin. Við teljum líka að fólk bjargi sér betur með því að hafa þá lágmarksþekkingu sem grunnskólinn veitir. Ég tel m. a. s. að það sé alveg óhjákvæmilegt fyrir þjóðfélag sem vill bjarga sér í umheiminum í dag.