19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6920 í B-deild Alþingistíðinda. (6252)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Frsm. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd minni hl. menntmn. sem hefur skilað áliti um þetta frv. á þskj. 1109. Nál. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og sent það til umsagnar. Minni hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Frv. þetta var flutt snemma á yfirstandandi þingi og var við gerð þess haft samráð við stjórn Bandalags kennarafélaga sem sent hafði þingflokkum sérstakt erindi um þetta efni í september 1984. Um svipað leyti og frv. var lagt fram lýsti Ragnhildur Helgadóttir menntmrh. yfir því að rn. hennar hygðist flytja mál sama efnis. Skipaði menntmrh. nefnd til að vinna að samningu slíks stjfrv. og hóf nefndin störf 24. október 1984. Í henni áttu m. a. sæti fulltrúar frá Bandalagi kennarafélaga.

Við 1. umr. um þetta frv., sem nú liggur fyrir, beindi menntmrh. þeim tilmælum til menntmn. að fjalla um væntanlegt frv. samtímis. Við umræður í þinginu lýsti ráðh. því ítrekað yfir að nefnt stjfrv. væri senn fullbúið, síðast þann 19. febrúar s. l. Þetta hefur hins vegar ekki gengið eftir og nefnd sú, er vann að málinu á vegum menntmrn., hefur ekki verið kvödd saman síðan 22. febrúar s. l. Var starfi nefndarinnar þá nánast lokið, aðeins eftir að ganga frá leiðréttingum og fullræða eina grein sem varðaði réttindanám fyrir réttindalaust fólk í kennslustörfum að því er fram kemur í félagsblaði BK í maí 1985.

Í svari við fsp. 14. maí 1985 um hvað liði stjfrv. um lögverndun á starfsheiti kennara greindi menntmrh. frá því að ekki væri að vænta slíks frv. eins og sakir stæðu. Af hálfu menntmrh. og fulltrúa meiri hl. menntmn. hefur heldur ekki komið fram áhugi á að ná samkomulagi um það frv. sem nú liggur fyrir og leggur meiri hl. til að því verði vísað til ríkisstj.

Minni hl. telur hins vegar að eðlilegt sé að lögfesta þau ákvæði sem í frv. felast og að með því sé komið til móts við óskir kennara um leið og gætt er nauðsynlegs sveigjanleika með ákvæðum 3. gr. og ákvæði til bráðabirgða. Því leggur minni hl. til að frv. verði samþykkt.

Guðrún Agnarsdóttir er áheyrnarfulltrúi í menntmn. og er hún samþykk þessu áliti.

Alþingi, 3. júní 1985

Jón Baldvin Hannibalsson, fundaskr.

Hjörleifur Guttormsson, frsm.

Kristín S. Kvaran.“

Eins og hér kemur fram eru það fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna sem taka undir þetta frv. og leggja til að það verði samþykki.

Meiri hl. menntmn. valdi hins vegar þann kost að leggja til að frv. yrði vísað til ríkisstj.

Mál þetta hefur oft borið á góma hér á hv. Alþingi sem enn er að störfum og það af marggefnu tilefni. Hér var um að ræða annað tveggja eða þriggja stórra mála sem félög kennara lögðu áherslu á við hæstv. menntmrh. og ríkisstj. að fram næðu að ganga. Hið fyrsta var leiðrétting á kaupi og kjörum kennara, í öðru lagi, og því tengt, endurmat á störfum kennara miðað við breyttar aðstæður og auknar kröfur til þeirra í starfi og í þriðja lagi og ekki síst lögverndun á starfsheiti kennara eins og lagt er til með því frv. sem hér er til umr.

Hug kennara má m. a. lesa út úr erindi sem barst til alþm., dags. í Reykjavík 5. júní 1985, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á fundi fulltrúaráðs Kennarasambands Íslands, sem haldinn var í Reykjavík 18. maí s. l., var m. a. rætt um lögverndun starfsheitis og starfsréttinda kennara. Á fundinum var gerð eftirfarandi samþykki:

Fulltrúaráðsfundur Kennarasambands Íslands. haldinn 18. maí 1985, fordæmir að menntmrh. skuli ekki hafa lagt fram frv. til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara sem nefnd á vegum menntmrh. hefur unnið að í vetur. Á Alþingi 14. maí s. l. kom fram að menntmrh. fól fulltrúum rn. í nefndinni að vinna að frv. um lögverndun ekki einungis á starfsheiti heldur einnig á starfsréttindum kennara. Samkomulag náðist í nefndinni um slík frumvarpsdrög. Fulltrúaráð Kennarasambands Íslands krefst þess að menntmrh. leggi frv. tafarlaust fram.

Virðingarfyllst,

f. h. Kennarasambands Íslands,

Valgeir Gestsson.“

Þetta erindi var sent alþm., eins og fram hefur komið, menntmrh. og fjölmiðlum.

Þetta mál þarf ekki ítarlegrar umræðu frekar af minni hálfu nema sérstök tilefni gefist til, svo oft sem ég hef um þetta efni rætt og eins og till. liggja fyrir um í fyrirliggjandi frv.

Það ber að geta þess vegna álits meiri hl. menntmn. að í gær mun hafa komið saman sú nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði 24. október s. l. og vakti vonir um, bæði gagnvart samtökum kennara og hér á hv. Alþingi, strax í nóvember að væri alveg að ljúka störfum og aftur 19. febrúar að væri senn að skila af sér alveg næstu daga og í ágætis samkomulagi. Þessi nefnd, eins og kemur fram í áliti minni hl. nefndarinnar, var síðast kvödd saman 22. febrúar s. l. og svo aftur í gær. Þá kvaddi skrifstofustjóri menntmrn., sem er formaður nefndarinnar, hana saman eftir þetta langa hlé frá störfum. Það vekur kannske vonir um að það mál sem hér er á dagskrá ýti við stjórnvöldum þó að líkur séu til þess að meiri hl. ríkisstj. hér á Alþingi fylgi till. meiri hl. menntmn. og vísi þessu máli til ríkisstj. Rökin í áliti meiri hl. eru hins vegar alllangsótt þar sem vísað er til að nefnd þessi hafi ekki lokið störfum og þess vegna sé lagt til að frv. verði vísað til ríkisstj. Það er verk ríkisstj. og hæstv. menntmrh. sérstaklega að nefndin hefur ekki skilað af sér. Hæstv. menntmrh. hagaði því svo til að nefndin var ekki kvödd saman til starfa frá 22. febrúar þar til í gær loksins. Í febrúar, eins og sjálfur hæstv. ráðh. tók fram við umr. hér á Alþingi. var nefndin nánast búin að ljúka sínu starfi í góðu samkomulagi að því er nefndarmenn töldu.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess í máli sínu áðan að þetta frv. skipti í raun litlu máli, varðaði efnislega litlu. Það er mikill misskilningur og allsérkennileg sú kveðja sem hv. talsmaður meiri hl. er að senda kennarafélögunum með þessum orðum þar sem samtök kennara lögðu einmitt á það mjög þunga áherslu á síðasta sumri og sáu ástæðu til að senda þingflokkum öllum sérstakt erindi um þetta mál sem þeir töldu mjög mikilsvert. Mál þetta varðar nefnilega m. a. sjálfsvirðingu kennarastéttarinnar og rétt þeirra kennara sem hafa aflað sér tilskilinnar menntunar til að bera starfsheitið kennari og sitja fyrir um störf svo sem kennurum er raunar áskilið í gildandi lögum um störf kennara frá 1978. lög um embættisgengi kennara og skólastjóra.

Ég vísa því á bug að lagasetning af þessu tagi mundi stofna skólastarfi í einhverja hættu. Sé um hættu að ræða er hún fram komin vegna aðgerða stjórnvalda gagnvart kennarastéttinni á starfstíma yfirstandandi þings þar sem segja má að stjórnvöld hafi gengið gegn eðlilegum og réttmætum óskum kennara um leiðréttingu á kjörum og einnig í sambandi við réttindi til starfa sem er það mál sem hér er til umræðu m. a. Þar er í rauninni ekki við aðra að sakast. Og í ákvæði til bráðabirgða með þessu frv. er tryggður sá sveigjanleiki sem eðlilegur er í máli sem þessu. Þess vegna ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Alþingi gæti samþykki þetta frv. og orðið með því við réttmætum óskum kennara um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum að svo miklu leyti sem kveðið er á um í frv.