20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6975 í B-deild Alþingistíðinda. (6322)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Fyrir rúmu ári voru samþykkt lög hér á hv. Alþingi um Ríkismat sjávarafurða. Undirbúningur að þeim lögum hafði staðið nokkuð lengi, jafnvel svo misserum skipti og frv. hafði um tíma verið kallað skúffufrv. fyrrv. sjútvrh. og gekk á ýmsu að koma þessu fram. Hvatinn að þessum lögum var m. a. sá að talið var að það þyrfti að minnka kostnaðinn í kringum Framleiðslueftirlit sjávarafurða og einhvern veginn fann maður þann undirtón einnig að þar þyrfti líka að skipta um fólk. Lögin voru samþykkt en það tók eina sjö, átta mánuði að semja reglugerð eftir þeim. Lögin voru að flestra dómi, sem þekkja til þessara mála, mun verri lög en þau sem voru í gildi áður, enda er það að koma í ljós að reglugerðin, sem sett hefur verið eftir lögunum, stenst ekki. Lögin standast raunverulega ekki og það er ekki hægt að framkvæma lögin eftir því sem ætlast er til skv. reglugerð.

Þær leiðréttingar sem átti að gera með þessum lögum, þ. e. að minnka kostnað við Framleiðslueftirlit sjávarafurða, munu ekki hafa gengið sem skyldi. Það er nú erfitt að ræða um þennan þátt þar sem sjútvrh. hefur lítinn tíma til þess að svara og hann fellur ekki beinlínis inn í þennan spurningarramma. En það er almennt álit manna að lítið hafi dregið úr kostnaði en aftur á móti aukist mjög kostnaður hjá þeim aðilum sem hafa tekið að sér matið. Ég hef heyrt að gert sé ráð fyrir því hjá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda að kostnaðurinn við saltfiskmatið á næsta ári verði milli 5 og 8 milljónir. Það hleypur einhversstaðar á þeim tölum. Ábyggilega hefur sparnaður hjá Framleiðslueftirliti sjávarafurða ekki orðið neitt nálægt þessum tölum.

Það væri gaman að spyrja um annan þátt sem átti að laga þar í stofnuninni. Það er í sambandi við það hver raunverulega sé nú forstjóri þess fyrirtækis. Það ganga þær sögur að sá framkvæmdastjóri sem ráðinn var af stofnuninni sé ekki lengur við störf í stofnuninni og muni jafnvel hafa sagt upp störfum. Það væri gaman að fá að vita hvort ekki er fyrirhugað að auglýsa þetta starf, eða hvort það sé rétt, sem maður heyrir talað um, að fyrir stofnuninni sé enginn framkvæmdastjóri. Þannig hefur farið um tilætlun þessara laga. Minnkandi kostnaður, breyting á mannahaldi, allt stendur raunverulega í uppnámi. En aðeins, herra forseti, til viðbótar.

Sjútvrh. nefndi hér að tvennt ólíkt væri úttektarmat og yfirmat og það sem hefði verið falið Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda væri úttektarmat á afurðum. Hvað skyldu nú lögin segja um þetta? Í V. kafla laganna er ákvæði um afurðadeild. Þar segir í upphafi 14. gr.: „Afurðadeild annast yfirmat á öllum fiskafurðum til útflutnings.“ Yfirmat á öllum fiskafurðum til útflutnings. Hæstv. sjútvrh. er ekki að gera annað en að snúa út úr þegar hann er að tala um að það sé eingöngu úttektarmat sem saltfiskframleiðandanum hefur verið falið að sjá um. Það er það yfirmat sem talað er um í lögunum.