20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6985 í B-deild Alþingistíðinda. (6348)

60. mál, þjónusta vegna tannréttinga

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna brtt. hv. 6. þm. Reykv. Ég vil vekja athygli á því að í grg. till. kemur það mjög skýrt fram að þarna er fyrst og fremst verið að leggja til að komið sé á skipulegum ferðum sérfræðinga í tannréttingum til hinna ýmsu byggðarlaga úti um land og í þeim efnum minnst á að lágmark gæti verið að það sé eins og ein miðstöð í hverju kjördæmi sem heimsótt yrði í þessu skyni og er tilgangurinn sá, eins og fram kemur í grg., að leitast við að aflétta að nokkru marki þeim gífurlega kostnaði sem leitt hefur af ferðalögum mikils fjölda ungmenna utan af landsbyggðinni hingað til höfuðborgarinnar vegna tannréttinga.

Það kemur fram í grg. að sjúkrasamlögin bera nokkurn hluta þessa kostnaðar. Þáttur sjúkrasamlaganna mun nú vera 50% en hefur áður verið 75%. Það kemur einnig fram að 41% allra ferðakostnaðargreiðslna sem tryggingayfirlæknir úrskurðar um eru vegna tannlækninga. „Tannréttingar eru þar fyrirferðarmestar“, eins og segir í grg. Hugmyndin með tillöguflutningnum er augljóslega sú að leitast við að koma þarna við nokkrum sparnaði fyrir þá sem þessarar þjónustu þurfa að njóta og ferðast þurfa um langan veg, og fyrir sjúkrasamlögin.

Ég hef því miður ekki við höndina álit sem fram kom í nefndinni frá Tryggingastofnun ríkisins ellegar þeim starfsmanni hennar sem eðlilegast var að svaraði spurningum varðandi þetta mál, en í því áliti kom skýrt fram það mat að samþykkt og framkvæmd tillögunnar gæti leitt til allverulegs sparnaðar.

Ég vil þó segja það að til að stefna afgreiðslu málsins ekki í hættu hér á síðasta vinnudegi þingsins, þá get ég hugsað mér að fallast á brtt. hv. 6. þm. Reykv. en ég geri það í trausti þess að við framkvæmd tillögunnar verði hafður í huga sá megintilgangur hennar sem svo skýrt kemur fram í greinargerðinni.

Ég hygg að það sé alveg rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að skipulag í þessum efnum varðandi tannréttingaþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu sé ekki í því lagi sem best mætti verða. Ég hygg að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. og ekki hefði ég á móti því að í leiðinni væri reynt að koma þar betra lagi á. En varðandi þennan meginþátt, sem ferðakostnaðurinn er, eru viðhorfin auðvitað gjörólík annars vegar í hinum ýmsu byggðarlögum víðs fjarri höfuðborgarsvæðinu, þar sem þessir sérfræðingar starfa nú, og svo hins vegar hjá því fólki sem hér býr.

Herra forseti. Ég vil ekki andmæla þessari brtt. og vona að þingið geti þá sameinast um það að samþykkja till. svo breytta.