20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6989 í B-deild Alþingistíðinda. (6361)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get staðfest það sem þeir kollegar mínir, hv. þm. Eiður Guðnason og hv. þm. Ragnar Arnalds, hafa hér verið að segja um það samkomulag sem gert var. Það var okkar niðurstaða að láta ganga atkv. um þær þáltill. sem ekki hafði orðið ágreiningur um í nefnd.

Þetta kannske sannar það að tímabært var að breyta þingsköpum. Auðvitað erum við komnir í þá stöðu, þegar tími er svona naumur og margt að gera, að einstakir þm. hafa færi á því að stöðva mál með málalengingum. En ég vil óska eftir því að þetta samkomulag haldi. Ég óska eftir því að þessi ákvæði um samkomulagsmál fái afgreiðslu og vonast til þess að þm., og þá alveg sérstaklega stjórnarþingmenn, geti haft hóf á sjálfum sér hér í ræðustólnum.