20.06.1985
Neðri deild: 107. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 7029 í B-deild Alþingistíðinda. (6431)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og hann er af tvennum toga.

Í fyrsta lagi gafst afar stuttur tími til að fjalla um þetta mál, svo að ekki sé meira sagt, í Nd. Ég vildi gera það að umtalsefni, eins og við höfum reyndar gert fyrr í dag og undanfarna daga, að ég tel það til vansa hvernig mál eru rekin hér í gegn þessar stundirnar. Hins vegar hefur þetta mál fengið mikla skoðun í nefnd í Ed. og þar hefur verið gengið hart eftir upplýsingum sem hafa skilað sér.

Í öðru lagi er fyrirvari minn þess efnis að ég hef gert hér í þinginu að umtalsefni að undanförnu veð og tryggingar fyrir lánum og ábyrgðum af hálfu hins opinbera. Í framhaldi af þeim umr. og með vísan til þeirra legg ég mikla áherslu á að nægilegar tryggingar verði settar í þessu tilfelli og ég mun freista þess að fylgjast með því og fá upplýsingar þar um hjá ráðh.