13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

71. mál, heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ljóst að ef vel væri unnið að þessu máli væri vel hægt að leggja fyrir þetta þing frv. að nýrri stjórnarskrá. Ég held að þó að þar sé eitthvað óunnið, að því er formaður stjórnarskrárnefndarinnar hefur upplýst mig um, ætti að vera hægt að vinna það hratt, ef menn vilja og áhugi er á þessu máli, að frv. verði skilað inn í þingið í vetur. Það er satt að segja ekki vansalaust ef það verður ekki gert. En þegar þeir flokkar sem standa að ríkisstj. sýna málinu ekki meiri áhuga en raun ber vitni um og nenna ekki einu sinni að skila aths. til stjórnarskrárnefndarinnar er kannske ekki á góðu von. Ég held að full ástæða sé til að ítreka það sjónarmið, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv., að hér er auðvitað um að ræða vinnubrögð af hálfu þessara þingflokka sem ber að gagnrýna mjög harðlega og hvet ég þá jafnframt til þess að gera nú hreint fyrir sínum dyrum og skila áliti um þessi mál þannig að þingið geti tekið nýtt stjórnarskrárfrv. til meðferðar þegar á þessu þingi.