13.11.1984
Sameinað þing: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

58. mál, stuðningur við ungmenna- og íþróttahreyfinguna

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 58 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og Steingrími J. Sigfússyni að endurflytja svohljóðandi till. til þál. um skipulegan stuðning hins opinbera við ungmenna- og íþróttahreyfinguna:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og semja löggjöf um skipulegan stuðning hins opinbera við ungmenna- og íþróttahreyfinguna. Skal í því sambandi haft náið samband við fjöldahreyfingar á þessu sviði, svo sem UMSÍ og ÍSÍ.

Meðal áhersluatriða í löggjöf þessari skulu vera:

1. Sérstök rækt verði lögð við almenningsíþróttir og hvernig laða megi sem flesta til líkamsræktar.

2. Samstarf skóla og félagasamtaka um eflingu íþrótta verði stóraukið.

3. Hvers konar íþróttastarfsemi verði skipulega nýtt í þágu baráttunnar gegn vímuefnaneyslu.

4. Tekið verði upp ákveðnara og skipulegra form þess fjárhagsstuðnings sem hið opinbera veitir til íþróttastarfsemi.

5. Tryggð verði sem best nýting þess fjármagns sem veitt er til íþróttahreyfingarinnar í því skyni að stórauka þátttöku almennings og þá ungs fólks alveg sérstaklega.“

Tillögu þessari fylgir ítarleg greinargerð sem ég vitnaði mjög til í fyrra með framsögu þá. Þar eru flest þau meginatriði tíunduð sem máli skipta. Þar er vitnað til þessara mála frá þeim aðilum eystra sem þekkja gleggst til af margra ára ötulu félagsmálastarfi þar í þágu ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar. Þar er einnig vitnað til mjög greinargóðrar skýrslu frá Íþróttasambandi Íslands. Rennir margt þar styrkum stoðum undir till. af þessu tagi. Ég þarf því ekki nú að hafa uppi langt mál um þessa till. Árið 1985 mun vera alþjóðaár æskunnar og æskuna í landinu snertir þess till. öðrum fremur. Verðugt átak af einhverju því tagi sem þessi till. vísar til hlýtur að vera æskilegt viðfangsefni á ári æskunnar.

Mönnum verður eðlilega tíðrætt hér um ýmis vandamál æskufólksins og margt er þar vissulega svo, að við þarf að snúast af fyllstu alvöru. í því sem öðru gildir það beina og óbeina forvarnarstarf sem skilar farsælustum árangri ef rétt er staðið að málum. Holl líkamsrækt, heilbrigð tómstundaiðja, frjó og lifandi félagsmálastörf hljóta að vera æskunni sem öðrum farsælir fylginautar og um leið einhver besta vörnin gegn ýmissi þeirri vá sem að þeim steðjar úr öllum áttum. Fjármagn samfélagsins til þessara mála hefur oft verið sorglega lítið og því er ekki heldur að neita að mjög oft vill þetta fjármagn til fárra fara, þ.e. til keppnisgreina margs konar sem vissulega á og þarf að styrkja og eru sjálfsagðar út af fyrir sig. En okkur flm. er miklu ríkara í huga að fjöldinn megi vera sem mestur, sem nýtur þessara fjármuna, að hinn almenni félagi í hreyfingunni verði ekki út undan af því að hann hleypur ekki hraðast, stekkur lengst eða hittir oftast í mark. Fjöldahreyfingar eins og hér er um að ræða þurfa vitanlega að huga að hinum almenna félaga fyrst og síðast þó eðlilegt sé einnig að hlynna að þeim sem til afreka eru líklegir. Á þetta leggjum við höfuðáherslu.

Formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, Hermann Níelsson, skrifaði í fyrra grein í DV þar sem hann fullyrti að samþykkt tillögu af þessu tagi væri góð gjöf til þessara virku æskulýðssamtaka, gjöf sem þau í UÍA væru tilbúin að ávaxta vel í framtíðarvelferð æskunnar. Um það efast enginn sem þekkir það blómlega og sívaxandi almenna starf, sem þar er unnið, og þann mikla fjölda sem kemur þar nálægt. Í ágætri grein forustumanns í þessari hreyfingu á Höfn kom fram mjög svipuð skoðun. Vissulega má athuga betur hin ýmsu áhersluatriði tillögunnar, breyta þar til og bæta úr, en megininntak hennar um virkan skipulegan stuðning, samþættingu félagasamtaka og menntakerfis, samstarf við heilsugæsluna og fleira af því tagi hlýtur þó að skipta mestu að nái fram að ganga.

Þessi framsaga þarf nú við endurflutning ekki að verða lengri, en ég vitna til greinargerðar, þar sem orðið hefur fyrrv. framkvæmdastjóri UÍA, Sigurjón Bjarnason, og segir þar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrennt tel ég hins vegar að beri að leggja stóraukna áherslu á:

Í fyrsta lagi íþróttaiðkun almennings sem ekki hefur keppni eða hámarksárangur að leiðarljósi. Þarna er fyrst og fremst þörf skipulagningar og áróðurs.“ Hann velur svo austfirsk dæmi þessu til sönnunar, en heldur svo áfram:

„Í öðru lagi ber að efla hvers konar æskulýðsstarf í félögunum, tryggja þar með framtíð hreyfingarinnar og leggja uppeldisstarfi þjóðar lið. Þetta er í raun megintilgangur hreyfingarinnar og þarna má hún í engu bregðast.

Í þriðja lagi þurfa félög og sambönd að huga betur að alhliða félags- og menningarstarfsemi. Í fámennari byggðarlögum er þetta sérstaklega brýnt og ég bendi fólki í þéttbýli eindregið á þá möguleika sem felast í því að efna til nýbreytni í starfi viðkomandi félaga.“

Hér talar sá sem um árabil hefur verið í forustu í þessum málum og hefur mörg s.l. ár unnið ótrúlegt afrek ásamt traustri liðsveit að þeim glæsilega árangri sem náðst hefur á sambandssvæðinu með hinni miklu virkni og meiri þátttöku en almennt gengur og gerist.

Þetta geta því verið mín lokaorð við þess umr., en að þessum hluta umr. lokinni legg ég til að till. verði vísað til hv. allshn.