22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Mitt fyrsta verk þegar ég kom af flokksþingi Alþfl. um seinustu helgi var að fara á fund hafnarverkamanna í Reykjavík. Þar flutti ég mína stefnuræðu. Ég skal játa að þetta var að sumu leyti gert af tilfinningaástæðum. Þetta var líka gert til heiðurs skörulegasta og eftirminnilegasta leiðtoga Alþfl. í Reykjavík og leiðtoga hafnarverkamanna í Reykjavík, Héðni Valdimarssyni. Við rifjuðum það upp að ef svo væri komið að verkamenn á Íslandi styddu ekki við bakið á Alþfl. sýndist mér að þeirra kjarabarátta bæri lítinn árangur. En ég kom ekki þarna til að rifja upp sögulegar minningar fyrst og fremst, heldur til að eiga við þá eldhúsdag í matartímanum. Það var ein spurning sem bjó á bak við allar þessar umr.: Hvernig stendur á því að svo er komið í íslensku þjóðfélagi að það er ógerningur að framfleyta fjölskyldu af launum fyrir heiðarlegt vinnuframlag? Þetta var sama daginn og hæstv. forsrh. tilkynnti sína gengislækkun, tilkynnti þá þjóðarnauðsyn að taka til baka allan þann árangur, hverja einustu krónu, sem hafst hafði með kjarasamningum og langvinnu verkfalli opinberra starfsmanna nú í haust.

Ræðu hæstv. forsrh. má draga saman í eina setningu: Það eru engir peningar til. Og skýringin er líka aðeins í einni setningu: Þjóðin hefur lifað um efni fram. Ef atvinnurekendur eru spurðir, þá segja þeir: Ja, skýringin er sú að það er svo lítil framleiðni í íslensku atvinnulífi. Verkamenn skilja þetta gjarnan svo að verið sé að segja við þá: Nú, já, vinnum við ekki nógu langan vinnudag? Eru líka vinnusvik framin á Íslandi? Ríkisstjórnin og ráðherrarnir segja: Nei, þjóðin hefur lifað um efni fram: Skyldu atvinnurekendur og ríkisstj., ráðherrar, nokkurn tíma líta í eigin barm? Skyldu atvinnurekendur nokkurn tíma leiða hugann að því hvort þeir kunni að hafa offjárfest í sínum fyrirtækjum, hvort einhverju sé ábótavant í stjórnun í þeirra fyrirtækjum? Skyldu ráðherrar nokkurn tíma líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig? Eða skyldu þeir fá þessar upplýsingar frá Seðlabanka, ráðgjafa þeirra í ríkisstj. — þessari stofnun sem er fræg orðin með þjóðinni fyrir aðhald og ráðdeild í opinberum rekstri, þessari stofnun sem byggði sér smáhöll fyrir nokkur hundruð milljóna sem minnismerki yfir sína aðgætnu peningamálastjórn á undanförnum áratug sem við þm. Alþfl. höfum nú lagt til að verði þjóðnýtt, tekin af þeim?

Frumlegust er auðvitað kenning hv. 1. þm. Suðurl. Hann hefur sett fram þá kenningu að þjóðin hafi eyðilagt frábæran árangur ríkisstj. Af þeim orðum hans má kannske álykta að þeir stefni að því að skipta um þjóð. Kannske það sé ekki tilviljun að hæstv. forsrh. er í mestum metum þeim mun fjær sem dregur landinu, þ.e. hjá Hússein Jórdaníukonungi.

Það hefur aldrei þótt karlmannlegt né drengilegt á Íslandi að skella skuldinni af óförum sjálfs sín yfir á aðra. Ég spyr: Hvarflar það aldrei að þeim að líta í eigin barm? Líta þeir aldrei í helga bók þar sem stendur orðræða nokkur um flísina í auga bróður þíns og bjálkann í eigin auga? Hvað hefur orðið af verðmætum vinnandi handa sem sköpuð voru á s.l. hálfum öðrum áratug?

Þegar ég fór á fund hafnarverkamanna dreif ég úrklippu úr dagblaðinu Tímanum, málgagni forsrh., á borð þeirra allra. Þar stendur: „Huldumaðurinn er tekjulaus, en á eignir upp á 35 millj. kr. Ein hjón eiga í sameiningu skuldlausar eignir fyrir 65 millj. kr.“ Gæti verið að þetta væri einhver skýring á spurningunni: Hvar eru verðmætin? Hvað er orðið af peningunum? Hvers vegna er ekki hægt að greiða laun á Íslandi? Kynni það að vera satt að arðinum væri dálitið hrikalega misskipt?

Má ég leiða fram annað vitni? Í þjónustu Vinnuveitendasambandsins er ungur hagfræðingur sem heitir Vilhjálmur Egilsson. Ég hygg að það sé ekki logið að hv. 1. þm. Suðurl. hafi þegið góð ráð hjá honum þegar hann var í forsvari fyrir vinnuveitendur. Vilhjálmur nýtur virðingar sem einn snjallasti hagfræðingur þjóðarinnar. Hvað segir hann? Hvernig svarar hann spurningunni um það hvað hafi orðið af verðmætunum s.l. hálfan annan áratug hinna glötuðu tækifæra? Hann segir að ef þjóðmálaforusta Sjálfstfl., Framsfl., hæstv. forsrh., og Alþb., — hvar er félagi Svavar? — ef þessi þríeina þjóðmálaforusta hefði ekki stjórnað eins og hún gerði á „áratug hinna glötuðu tækifæra“ værum við núna 25 milljörðum ríkari en við erum í dag. Og síðan skulum við bara spyrja einnar spurningar: Haldið þið hafnarverkamenn, þögli fjöldinn sem stendur hér í virðulegri mótmælastöðu úti, að það væri hægt að greiða fólki mannsæmandi laun fyrir heiðarlegt vinnuframlag ef þessi peningar væru enn í okkar höndum? Hvarflaði það aldrei að hæstv. forsrh., þegar hann flutti ræðu sína, að hann ætti kannske nokkra sök á því hvernig komið væri, en ekki hinn þögli fjöldi sem sannanlega hefur ekki haft efni á því að lifa um efni fram? Hæstv. forsrh. fellir gengið. Hvað segir Kristján Ragnarsson, talsmaður sjávarútvegsins á Íslandi, um þá ráðstöfun? Hann segir, með leyfi forseta:

„Rekstrarstaða útgerðarinnar verður engu betri en hún var fyrir, því að öll aðföng hækka í verði, laun hækka og verðtryggð lán hækka. Afraksturinn af öllu saman er aukin verðbólga og áframhaldandi taprekstur sjávarútvegsins.“

Vitnin eru góð: Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins og framkvæmdastjóri LÍÚ. Af hverju hvarflaði ekki að hæstv. ráðh. að það væri ástæða til að taka svolítið í lurginn á hinum þríeina olíuauðhring Íslendinga, sem blóðsýgur sjávarútveginn og byggir sér síðan musteri fyrir sínar földu tekjur í eilífum bensínstöðvum út um allar trissur? Hefur aldrei hvarflað að hæstv. ráðh. að þeir gætu dregið úr þessari gengislækkunarþörf með því að lækka okurvextina a la Reagan?

Ég var beðinn, herra forseti, að skila kveðju til félaga Svavars frá hafnarverkamönnum og til forustu Alþb. og biðja þá um að svara þremur spurningum hér á eftir.

Fyrsta spurningin, félagi Svavar: Hvernig stóð á því að í valdatíð þinni og þíns róttæka flokks átti sér stað meiri tekju- og eignatilfærsla frá hinum snauðu til hinna ríku en nokkurn tíma fyrr í sögu þjóðarinnar? Hvernig stendur á því, félagi Ragnar Arnalds, að í fjármálaráðherratíð þinni sast þú aðgerðarlaus og horfðir upp á hriplekt og svívirðilegt skattsvikakerfi, tekjuskatt og söluskatt, og gerðir ekki neitt? Spurning til líffræðingsins frá Leipzig, félaga Hjörleifs Guttormssonar: Hvernig stóð á því að í fimm ár hafðir þú af okkur í viðskiptum við erlendan auðhring a.m.k. 2.5 milljarða kr.? Það eru fleiri en hafnarverkamennirnir sem bíða svars, félagar.

Það er ekki karlmannlegt af hæstv. forsrh. að skella skuldinni á aðra. Svarið við spurningum hans er nefnilega þetta: Það er aðeins hluti þjóðarinnar, kjósendur Sjálfstfl., sumir skjólstæðingar Framsfl., aðrir, sem sannanlega hefur lifað um efni fram. Það er ekki fjöldinn hérna úti. Hin þríeina forusta þessara kerfisflokka hefur því miður brugðist þjóðinni. Hún skilur við þjóðina í skuld og hún skuldar þjóðinni 25 milljarða.

Niðri á höfn spurðu þeir: Og hvaða svör hefur þú, félagi Jón Baldvin, við þessum vandamálum? Ég sýndi þeim róttækustu tillöguna sem lögð hefur verið fram á Alþingi Íslendinga í vetur. Hver er hún? Hún er um stóreignaskatt á skattsvikna verðbólgugróðann. Til hvers á að nota hana? Það á að nota hann til að bæta fyrir misgerðir þjóðfélagsins við hina ungu og hina snauðu. Það á að verja honum til að gera stórátak í húsnæðismálum unga fólksins. Ég sýndi þeim fleiri plögg. Ég sýndi þeim tillögurnar okkar um að afnema tekjuskatt á launatekjur upp að 35 þús. kr. Ég skýrði fyrir þeim tillögurnar um afnám söluskattsundanþágnanna, að taka söluskatt af innflutningi í tolli og skapa þannig ríkissjóði 8 milljarða í auknum tekjum.

„Pólitík er að vilja og framkvæma,“ sagði hæstv. fyrrv. forsrh., Gunnar Thoroddsen. Þessar tillögur eru raunhæf svör við spurningum sem nú brenna á vörum alþýðu manna. Svarið er: Flytjum fjármagnið til baka frá þeim sem hafa makað krókinn, skotið sér undan skyldum sínum, til þeirra sem hafa fært fórnir. En þessi ríkisstj. hefur því miður brugðist. Þetta væru kjarabætur í ósvikinni mynt, kjarabætur án verðbólgu. Ef þær hefðu verið framkvæmdar í tíð núv. ríkisstj. hefði aldrei til verkfalla komið. Þá hefði enga gengislækkun þurft. Niðurstaðan er einföld. Við höfum aldrei í jafnríkum mæli síðan á kreppuárunum þurft á að halda úrræðum jafnaðarmanna, sem eru fyrirbyggjandi umbætur í þjóðfélagsmálum, vegna þess að allt sem gerst hefur í tíð fyrrv. ríkisstj. á verðbólguáratugnum er brot á grundvallarreglum og hugsjónum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag, en þær dyggðir eiga Íslendingar að hafa í hávegum.