22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í haust hafa löngum verið óvenjulegar stillur og bjartviðri um land allt. Það sama verður ekki sagt um þjóðlífið. Þar hefur geisað stormur með þungu brimi. Og undir niðri í hugarfylgsnum fólksins í landinu hafa ekki síður verið þungir straumar, augu manna hafa opnast, skoðanir breyst og flokksbönd trosnað og slitnað.

Núverandi ríkisstj. hefur starfað í 11/2 ár. Öllum ber saman um að lengi framan af hafi stjórnin siglt á sléttum sjó. Hún hóf sína siglingu eins og kunnugt er með leiftursnöggri árás á lífskjör almennings og náði á nokkrum mánuðum fjórðu hverri krónu úr launaumslagi fólks. En það merkilega gerðist að launafólk og samtök þeirra létu kyrrt liggja lengi vel svo að hvergi kom til átaka á vinnumarkaði fyrsta árið.

Hvernig má þá skýra þessa miklu þolinmæði fólks og langlundargeð sem ríkisstj. naut svo lengi? Vafalaust er skýringin sú að fólk vonaði og trúði því að skerðing launanna stæði aðeins í takmarkaðan tíma. Það treysti á að þegar verulega hefði dregið úr verðbólgu yrði því skilað aftur sem tekið hafði verið og fólk fengi að njóta ávinningsins af lækkun verðbólgunnar, eins og lofað hafði verið. Þess vegna biðu menn átekta og skoðanakannanir sýndu að ríkisstj. átti óvenjulega miklu fylgi að fagna.

En fljótt skipast veður í lofti. Fyrsta blikan birtist með svonefndu fjárlagagati. Meðferð ríkisstj. á þessu vandamáli þótti ekki traustvekjandi — og síst af öllu þegar endirinn varð sá að erlendar lántökur leystu vandann að verulegu leyti. Í tvo mánuði var fjárlagavandinn að velkjast milli stjórnarliða eins og vindlaus knöttur um grýtta urð, frá fjmrh. til ríkisstj., þaðan til þingflokka og þannig hring eftir hring. En í miðjum þessum miklu þrengingum út af halla ríkissjóðs tók stjórnin sig til og afhenti atvinnurekendum á annað hundrað milljónir með beinum skattalækkunum og hnykkti svo á skömmu síðar með því að gefa bönkum landsins á fjórða hundrað milljónir. Þarna hafði ríkisstj. rekist á litla manninn margumtalaða og jós nú óspart úr ríkissjóði. Til að afla tekna á móti ákvað svo stjórnin að leggja sérstakan skatt á sjúklinga. Greiðslur fyrir heimsóknir til heimilislæknis og sérfræðinga voru hækkaðar um hátt í 200% og sérlyf hækkuðu um 140%.

Rangsleitni ríkisstj. gagnvart því fólki sem minna má sín, samhliða örlæti hennar í garð stórfyrirtækja, banka og fjármálamanna — allt átti þetta vafalaust sinn þátt í því nú seinasta hálfa árið að vonir og traust tengt lækkandi verðbólgu fóru smám saman að snúast upp í vantraust og vonbrigði. Skipherrann, Steingrímur Hermannsson, lét þó ekkert á sig fá þótt móti blési. Því meira sem óánægjan jókst, því meiri tröllasögur sagði hann um verðbólgu í tíð seinustu ríkisstj. Stundum fullyrti Steingrímur að verðbólgan hefði verið rúmlega 100% við stjórnarskiptin, stundum talaði hann um 130% og þegar hann var virkilega í essinu sínu nefndi hann tölur allt upp í 180%.

Hvernig stóð á þessum ólíku tölum sem jafnvel góðir og gegnir framsóknarmenn áttu mjög erfitt með að kyngja? Í almennum umr. hafa menn í áratugi rætt um verðbólgu og ávallt átt við hækkun verðlags á seinustu 12 mánuðum. Í þessari viðurkenndu merkingu fór verðbólga yfir 80% á seinasta ári stjórnar Gunnars Thoroddsen eftir að sú stjórn hafði misst meiri hluta sinn á Alþingi og beðið var kosninga. Þeir sem fá út allt aðrar og miklu hærri prósentur miða verðbólgutölur sínar við brot úr ári, kannske nokkrar vikur. Þannig er auðvelt að fá út risastórar tölur um verðbólguhraða, t.d. strax eftir að gengi krónunnar er fellt, ef verðbólgan er þá mæld á viku eða hálfsmánaðargrundvelli og árshraðinn síðan margfaldaður út frá því. Með útreikningum af þessu tagi má sjálfsagt sýna fram á að verðbólga á Íslandi hafi iðulega rokið upp í 400–500% .

Þetta nefni ég hér sem dæmi um blekkingar sem óspart hefur verið beitt og ríkisstj. hefur reynt að fleyta sér á, því að óneitanlega trúa því býsna margir í raun og veru að verðbólgan hafi rokið upp í 130% hjá seinustu stjórn. En þrátt fyrir velheppnaðar talnakúnstir af þessu tagi lætur fólk ekki blekkjast til lengdar. Það veit sem er að í tíð núverandi stjórnar hafa lífskjör versnað. Fleiri vinnustundir þarf til að greiða sama magn af vöru. Þrátt fyrir hægari snúning verðbólguhjólsins hefur dýrtíð verið meiri. Fólk hefur því sagt sem svo: Skítt með alla talnaleiki. Það eina sem máli skiptir er að vita hvenær á að skila því sem tekið hefur verið. Og sé það alls ekki ætlunin er þá um annað að ræða en að boða verkfall? Þannig fóru menn að hugsá og tala á s.l. sumri, fólk úr öllum stjórnmálaflokkum.

Ekki varð það til að draga úr tortryggni fólks þegar Þorsteinn Pálsson og Steingrímur Hermannsson sömdu um það í sumar að gefa vextina frjálsa með hörmulegum afleiðingum fyrir alla þá sem verst eru settir og skulda fé í bönkum. Afleiðingin varð sú að raunvextir ruku upp á fáum vikum um 5–6% og hafa aldrei verið hærri.

Hitt er svo allt annað mál að framsóknarmenn, vinir mínir, reyna mjög að sverja af sér ábyrgð á hækkun vaxtanna. Reyndar er það þeirra siður að koma ábyrgðinni yfir á aðra. Þeir sátu allra flokka lengst í ríkisstj. þau tíu ár sem verðbólgan var hvað mest. En að sjálfsögðu var verðbólgan aldrei þeim að kenna.

Auðvitað ber Framsfl. fulla ábyrgð á þeim ógöngum sem ríkisstj. er komin í með vaxtamálin. Auðvitað ber Framsfl. fulla ábyrgð á því að undirstöðugreinar atvinnulífsins úti um land, sjávarútvegur og landbúnaður, eru í miklum kröggum um þessar mundir, m.a. vegna fáránlegrar stefnu í vaxtamálum. Bændur hafa ekki síður en aðrir orðið fyrir barðinu á þessari stjórn. Auðvitað ber Framsfl. fulla ábyrgð á því að einmitt þessi misserin er verið að snúa byggðastefnu seinasta áratugs upp í andstæðu sína. Fyrirtæki í verslun og viðskiptum, sem eðli sínu samkvæmt eyða gjaldeyri, blómstra sem aldrei fyrr meðan fyrirtækin, sem framleiða og afla gjaldeyris, standa höllum fæti. Afleiðingin er stórfelld byggðaröskun enn á ný. Hundruð iðnaðarmanna leita utan af landi suður á höfuðborgarsvæðið þar sem mikill fjöldi stórbygginga er í gangi samtímis. En á sama tíma er lagt til í fjárlagafrumvarpi að framlög til grunnskóla og heilsugæslustöðva úti um land verði skorin niður um 26% að framkvæmdagildi, dregið verði úr vegaframkvæmdum og framlög til hafna skert um 58%. Flugstöð á Keflavíkurvelli fær hins vegar aukin framlög, 100 milljónir, og álverið í Straumsvík á að stækka um 50%. Er þetta byggðastefna? Nei, þetta er andbyggðastefna og á henni ber Framsfl. fulla ábyrgð.

Framsfl. var einu sinni andvígur erlendri stóriðju í Straumsvík af sömu ástæðum og Alþb. En nú vill flokkurinn meiri orkusölu til álversins og stærri álbræðslu. Stjórnarflokkarnir mega ekki til þess hugsa að það sannist fyrir alþjóðlegum dómi að málsókn Hjörleifs Guttormssonar gegn álhringnum út af skattamálunum hafi verið sjálfsögð og á fullum rökum byggð. Þess vegna fórna þeir íslenskum hagsmunum og samþykkja að auðhringurinn kaupi sig frá gerðardómi fyrir lítið fé.

Er hugsanlegt að íslenskur skattgreiðandi, sem uppvís yrði að skattsvikum, fengi að kaupa sig frá dómi? Svari hver fyrir sig. En menn sem fengið lafa niðurgreidda orku árum saman á kostnað íslenskra neytenda virðast komast upp með hvað sem er.

Og Framsfl. axlar ábyrgðina með Sjálfstfl. Enda sagði Sverrir Hermannsson iðnrh. orðrétt nú nýlega samkvæmt frásögn Morgunblaðsins að „formanni Sjálfstæðisflokksins hefði tekist að sveigja framsóknarmaddömuna til rétts vegar og bætti við: „Þetta er gerbreyttur ektefelle.““ — Já, Framsfl. er breyttur. Og nóg um ástarhjal samlyndra hjóna.

Jón Hannibalsson talaði hér áðan. Hann er bersýnilega ekki kominn í forustulið stjórnarandstæðinga til að sameina kraftana. Hann ætlast til þess í fúlustu alvöru að ég fari að eyða dýrmætum tíma mínum hér til þess að skattyrðast við hann — stjórnarandstæðinginn. Nei, það geri ég ekki. Verkalýðshreyfing og vinstri menn á Íslandi þurfa nú á öðru að halda. Ég neita því alfarið að eyða púðri mínu á dauða fugla.

Nei, stærsta ástæðan fyrir storminum í vetrarbyrjun er enn ótalin hjá mér — og hún skiptir meira máli. Í haust, þegar fólk fór að leita leiða til að bæta kjör sín, birtist formaður Sjálfstfl. í sjónvarpi og lýsir því yfir að nú þurfi að lækka launin enn þá meira en orðið er. Þorsteinn er fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins og hefur lært sína lexíu. Hann bætti því við að ríkisstj. mundi örugglega sjá til þess, ef fólk leyfði sér að knýja fram hækkuð laun, að allur ávinningur nýrra samninga yrði tekinn aftur með aðgerðum stjórnvalda.

Nú fyrst blöskraði fólki. Það fékkst ekki til að trúa því og fæst aldrei til að trúa því — sem betur fer — að launakjör verði að vera 25% lakari en þau voru fyrir tveimur árum, auk þess sem allt er gert á sama tíma til að hlaða undir stórfyrirtæki og fjármagnseigendur. Þess vegna skall yfir eitt harðasta verkfall, sem hér hefur verið háð, og stóð í tæpan mánuð. Kaupið hækkaði um 10–12% strax og rúm 10% á næsta ári. Nú sjáum við svar ríkisstj. Það birtist í fyrradag. Innfluttar vörur eru hækkaðar í verði um 16% með einu pennastriki þegar í stað og annað eins boðað á næsta ári. Það hvarflar ekki að ríkisstj. að reyna að koma í veg fyrir verðbólgu, reyna að varna því að atvinnurekendur velti hækkun launanna út í verðlagið. Þvert á móti gengur ríkisstj. á undan til að magna upp verðbólgu með miklu stærri og meiri gengisfellingu en nam hækkunum launa og miklu fyrr en unnt er að segja með nokkrum rétti að þær íþyngi atvinnurekendum.

Vonandi átta menn sig á því sem allra flestir að gengisfelling ríkisstj. er ekki efnahagsleg nauðsyn. Þetta er pólitísk aðgerð. Henni er ætlað það hlutverk að sannfæra fólk um að það geti ekki bætt kjör sín. Með þessari gengisfellingu er ríkisstj. að refsa launafólki um leið og því er sagt að hvers konar kjarabarátta sé til ills eins.

En þetta seinasta andsvar ríkisstj. er sem betur fer einum of gróft, einum of snemma á ferð, til þess að nokkur geti mark á því tekið. Hver maður með opin augu sér að þessi gengisfelling er fyrst og fremst pólitískt áróðursverk. Eða hafa menn ekki einmitt heyrt í þessum umr. nú í kvöld að mennirnir, sem felldu gengið í fyrradag, hlakka nú yfir verðbólgunni sem á eftir mun fylgja eins og fram kom hér hjá forsrh. áðan? Hann ætlar sér svo sannarlega að kenna öðrum um. En tekst þeim það? Tekst þeim að telja fólki trú um að ekki sé minnsti möguleiki á að bæta kjör fólks frá því sem nú er? — Það veltur á ykkur, hlustendur góðir.

Við Alþb.-menn erum á annarri skoðun. Við höfum sýnt fram á, nú seinast.með ítarlegum tillögum, að með tilteknum millifærsluaðgerðum í efnahagsbúskap landsmanna er unnt að tryggja kaupmátt nýgerðra samninga án aukinnar verðbólgu. En núv. ríkisstj. þekkir engin önnur úrræði en lækka kaupið.

Kynnið ykkur tillögur Alþb., stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Ef nógu margir sjá í gegnum gerðir þessarar ríkisstj. og gera sér fullkomlega ljóst að þessi seinasta gengisfelling er fyrst og fremst pólitískt herbragð gegn samtökum launafólks, þá kemur að því senn að fólki tekst að snúa vörn í sókn. Þá er betri tíð í vændum. — Ég þakka fyrir. Góða nótt.