22.11.1984
Sameinað þing: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteinn Pálsson sögðu að sérstakt tillit hafi verið tekið til þeirra sem verst hafa kjörin, sem við verst kjörin búa. Þetta eru öfugmæli. Grunnlífeyrir almannatrygginga, sá lífeyrir sem flestir bótaþegar byggja afkomu sína á, lækkaði úr því að vera 36% af lágmarkslaunum á vinnumarkaði í maí 1983, þegar ríkisstj. tók við, í það að vera 26.7% í ágúst s.l. Hann lækkaði um hvorki meira né minna en einn fjórðung ef miðað er við lægstu laun á vinnumarkaði.

Hvernig má þetta vera, hæstv. ráðh. og hv. þm., ef sérstakt tillit hefur verið tekið til þeirra sem verst eru settir? Vera má að þær breytingar sem skýrt var frá í útvarpsfréttum í kvöld bæti hér lítillega úr, en miklu betur má ef duga skal.

Íslensk þjóð stendur nú á tvennum tímamótum, bæði efnahagslegum og stjórnmálalegum. Í efnahagsmálum er nú að baki „áratugur hinna glötuðu tækifæra“, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson orðaði það, áratugur þegar þjóðarauðurinn brann á bálkesti verðbólgunnar, áratugur eyðslu og erlendrar skuldasöfnunar, áratugur rangra fjárfestinga, áratugur pólitískra dekurverkefna. Afrakstrinum af erfiði þúsunda hefur verið sólundað. Við byggðum við Kröflu og borgum þau mistök með milljón kr. á degi hverjum, en enginn virðist ábyrgur. Fleiri Kröflur höfum við reist, ekki kannske eins stórar og ekki jafndýrar, en Kröflur samt. Minnisvarða um hagsmuna- og kjördæmapot. Minnisvarða um pólitískan oflátungshátt, skammsýni og þröngsýni.

Eftir áratug sjómannsins við færið, verkamannsins við hakann, bóndans við ljáinn, eru þjóðartekjur nú hinar sömu á mann og fyrir 10 árum. Ekkert hefur unnist í þessum efnum, ekkert miðað úr stað. Það eru hrapalleg eftirmæli þess áratugar sem ýmist er kenndur við verðbólgu eða Framsfl. Umfram allt er þessi stöðnun sú áminning til þeirra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna sem mótað hafa umgjörð íslensks atvinnulífs í áratugi.

Við erum á tímamótum vegna þess að við getum ekki gengið þennan veg lengur. Við verðum að breyta um stefnu ef við ætlum okkur framtíð í þessu landi.

Hin nýja stefna á að vera frá atvinnugreinum sem skila okkur útgjöldum í stað tekna, frá hallarekstri sem haldið er gangandi með uppbótum og styrkjum af almannafé og dregur niður lífskjörin í landinu. Hin nýja stefna á að fela það í sér að fjármagninu verði beint í framsæknar en umfram allt arðbærar atvinnugreinar. Greinar sem auka þjóðartekjur, borga mannsæmandi laun og bera uppi kostnaðinn af rekstri velferðarþjóðfélags á Íslandi.

Ég nefni nýiðnað og nýtækni ýmiss konar, svo sem rafeinda- og lífefnaiðnað. Ég nefni fiskirækt í sjó og vötnum og ég nefni útflutning íslensks hugvits og sérþekkingar. Af nógu er að taka, tækifærin eru óþrjótandi. Aðrar þjóðir notfæra sér þessi nýju tækifæri í ört vaxandi mæli. Við sitjum með hendur í skauti og notum fjármagnið til annarra hluta.

Þann áratug sem atvinnuvegina hefur flatrekið með afleiðingum sem þjóðin þekkir og ég hef lýst, hafa forsætisráðherrar æði oft fjölyrt í stefnuræðum sínum um nauðsyn nýsköpunar í atvinnulífinu. Við þekkjum orðið eins og gamla kunningja orðatiltækin „stefnt verður að“, „leita verður leiða“, „unnið að“, „áhersla á það lögð“ og stefnuræða núv. hæstv. forsrh. var að þessu leyti ekki frábrugðin hinum fyrri.

Því miður hefur reynslan sýnt að slíkar ráðagerðir duga skammt þó meiningin kunni að vera góð.

Sú stefnubreyting sem ég hef gert að umtalsefni getur aldrei orðið án mikilla átaka. Eigi að afnema hið spillta kerfi skömmtunar og ríkisforsjár verður að hrófla við hagsmunum, hirða spón úr aski hinna öflugustu milliliða og gróðaafla þjóðfélagsins. Til þess treysti ég núv. ríkisstj. ekki. Til þess eru aðildarflokkar hennar um of hallir undir og háðir þeim öflum sem hagsmunina verja. Enda er það svo að í frv. stjórnarinnar til fjárlaga fyrir næsta ár örlar lítið á dögun breyttra tíma.

Við eflum ekki fiskirækt með þeim 130 millj. sem á að verja á næsta ári til að ræsa fram mýrar. Við eflum ekki nýiðnað eða nýtækni með þeirri rúmu millj. sem á að greiða í útflutningsbætur á kjöt og smjör á hverjum einasta degi á næsta ári. Sú upphæð jafngildir 47% af árslaunum verkamanns.

Útgjaldaliðir fjárlagafrv. núv. ríkisstj. eru hinir sömu og áður, fjárfestingin í sama farvegi. Þessi stjórn er bara að tala um að breyta. Í raun er hún ekki að breyta neinu.

Á nýafstöðnu flokksþingi Alþfl. samþykkti Alþfl.fólk stefnuyfirlýsingu sem m.a. fjallar um atvinnu- og efnahagsmál. Sú yfirlýsing felur í sér ferskar og róttækar umbótatillögur — tillögur sem sanna að einnig hér á landi eru jafnaðarmenn sér þess meðvitandi að velferðarþjóðfélag verður ekki reist og fær ekki staðist til lengdar nema stoðir þess, atvinnustarfsemi og verðmætasköpun, séu ófúnar og reistar á traustum grunni. Þessa stefnuyfirlýsingu sem er svar við ákalli alls hugsandi fólks um betri stjórnarhætti munum við kynna um land allt á næstu vikum og mánuðum. Ég hvet þjóðina til þess að hlusta vel.

Ég sagði í upphafi máls míns að við stæðum á tvennum tímamótum. Um efnalegu hliðina hef ég nokkuð rætt, hin er pólitísk. Við erum nú að kynnast viðhorfum stjórnarstefnu sem ber meiri keim af íhaldssemi og hægri öflum en við höfum átt að venjast hér á landi. Við höfum horft upp á lífeyri öryrkja og aldraðra stórlega skertan, jafnvel meira en sem nemur almennri kjaraskerðingu í landinu og greiðslur sjúkra fyrir lyf og læknishjálp margfaldaðar til að spara útgjöld þeim ríkissjóði sem á sama tíma hafði ráð á að lækka skatta af skrifstofuhúsnæði og verslunarhöllum. Við höfum séð kaupmátt launa keyrðan niður með valdboði og skattbyrði launafólks þyngda á meðan bönkum og eignafólki voru réttar digrar ívilnanir. Við horfum á skattsvikin vaða uppi, en ungu fólki úthýst af húsnæðismarkaðinum. Við höfum séð ríkisvaldið magna kjaradeilur með óbilgirni og þjösnaskap, síðan að hóta launafólki og reyna að kúga það til hlýðni.

Það er sannfæring mín að ef atvinnurekendur hefðu gengið að mjög svo hóflegum kröfum Verkamannasambandsins s.l. sumar og ef ríkisstj. hefði þá haft ákveðnar og útreiknaðar tillögur um alvöruskattalækkanir, þá hefðu náðst skynsamlegir samningar á vinnumarkaðinum. Samningar sem hefðu tryggt áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og þá hefði líklega ekki komið til neinna verkfalla. Þessu tækifæri var glutrað niður af klaufaskap og hrokagikkshætti nokkurra markaðshyggjupostula Sjálfstfl. og ístöðuleysi framsóknarmanna. Og nú síðast höfum við séð ríkisstj. hirða af fólki í einni svipan árangur langrar kjarabaráttu áður en blekið af samningunum var þornað, áður en komið var til greiðslna á einni krónu af umsömdum kjarabótum. Svona mikil gengisfelling og svona fljótt getur varla talist efnahagsaðgerð samninganna vegna. Hún líkist miklu frekar hefndarráðstöfun heldur en efnahagsaðaðgerð. En spurningin er áleitin og hún er sú: Er ekki verið að hefnast á röngum aðila? Þessi afstaða er okkur framandi, Íslendingum, því að okkar stjórnmálahefð er af allt öðrum toga.

Hér á landi hafa ríkt viðhorf samhjálpar og félagshyggju allt frá setningu elstu laga á þjóðveldisöld. Þau viðhorf hafa átt hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkum og hjá öllum þeim stjórnmálamönnum sem þjóðin telur til mikilhæfra leiðtoga sinna. Mér eru minnisstæð ummæli í ræðu sem Gunnar heitinn Thoroddsen flutti um stefnu Sjálfstfl. árið 1976, þegar hann sagði, með leyfi forseta:

„Frelsisþráin og sjálfstæðiskenndin annars vegar og félagslyndi og gagnkvæm samhjálp hins vegar hafa einkennt íslensku þjóðina, Íslendingseðlið alla stund.“

Hér kveður við annan tón en þegar nú tala hinir nýju markaðshyggjupostular sama flokks. Einnig hér eru tímamót. Nýir siðir banka á dyr, það hillir undir stefnu sem er ófélagslynd og andstæð samhjálpinni. Skiptingu fólksins í auðuga og snauða stjórnmálamenn með annars konar Íslendingseðli en Gunnar Thoroddsen talaði um.

Herra forseti. Í þessu máli þarf þjóðin að taka afstöðu, afstöðu til grundvallarlífsviðhorfa, og til þess gæti komið fyrr en varir því að þessi ríkisstj. verður ekki ellidauð. Seglabúnaður hennar er brotinn, stefna hennar strand. Þó er það verst að hún hefur misboðið réttlætiskennd okkar. — Ég þakka þeim sem hlýddu.