26.11.1984
Efri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

167. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umr. mun nú koma fyrir þá nefnd sem ég á sæti í og ég mun ekki fara mörgum orðum um það hér. Ég vek athygli á því að hér er verið að fara inn á nýja braut og verið að breyta lögum til að mæta þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu í dag. Fyrir mitt leyti get ég verið sammála því að nauðsynlegt sé að nú sé tekið til við breytingu á fiskverði. En það bendir á þá sérstöku stöðu sem við búum við. Og ég vil undirstrika að ég lit svo á að það sé alls ekki fyrst og fremst vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum vikum sem nauðsynlegt er nú að breyta fiskverði fyrr en ætlað var. Það er fyrst og fremst þeirri efnahagsþróun að kenna sem átt hefur sér stað. Og raunverulega hefði þurft að breyta fiskverði miklu fyrr til að bæði tekjur sjómanna og tekjur útgerðar bötnuðu. Það held ég að hafi verið almennt álit manna að þegar á haustmánuðum eða þegar í lok sumars hafi rekstrargrundvöllur útgerðar verið þannig að nauðsynlegt væri að hækka fiskverð. Það þurfti í engu falli að bíða eftir að kaupsamningar væru gerðir í landinu til að svo hefði verið gert. Í sambandi við hvað fiskverðið skuli vera lengi í gildi sýnist mér allt benda til að það verði erfitt að halda fiskverði föstu frá því nú í nóvember og þar til 1. júní. Allar líkur benda til þess að efnahagsþróunin verði á þann veg að breytinga þurfi við fyrr en þá.

Eins er það að kjarasamningar sjómanna eru lausir og búast má við því að fiskverð hljóti að einhverju leyti að bindast lausn þeirra mála ef ekki á að stefna beint í þá áttina að sjómenn búi eingöngu við fast kaup eins og nú er meira og minna kröfur uppi um.

Eins og ég sagði veit ég að þetta mál verður skoðað í þeirri nefnd sem ég á sæti í og ég mun ekki fjalla frekar um það að sinni.