27.11.1984
Sameinað þing: 25. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

1. mál, fjárlög 1985

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds, 3. þm. Norðurl. v., taldi að það fjárlagafrv. sem hér er til umr. væri fjandsamlegt byggðastefnu og reyndi að færa að því nokkur rök, m.a. að dregið væri verulega úr ýmsum framkvæmdaliðum. Honum gleymdist hins vegar, þeim góða manni, að taka tillit til allrar þeirrar auknu þjónustu sem fylgir í kjölfar nýrra skóla, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva o.s. frv. Þegar gæta þarf aðhalds og sparnaðar vegna samdráttar í þjóðartekjum hlýtur að vera eðlilegt að leggja fremur áherslu á þjónustu þessara stofnana þó um sinn þurfi að hægja eitthvað á framkvæmdum.

Hvað heldur hv. þm. að ríkisútgjöld hafi aukist á Sauðárkróki, sem er í hans kjördæmi, við það að þar er starfræktur fjölbrautaskóli? Heldur hann ekki að ríkisreksturinn aukist eitthvað á Sauðárkróki við það að þar er byggð heilsugæslustöð og þar er stækkað sjúkrahús? Sömu sögu má einnig segja frá bæði Hvammstanga og Blönduósi sem einnig eru í kjördæmi hv. þm. Þar er verið að byggja heilsugæslustöðvar og stækka sjúkrahús. Auðvitað er þetta byggðastefna sem ber að fagna þó að ég geti tekið undir með honum að betur má ef duga skal og kem ég aðeins nánar að því síðar. Við verðum hins vegar að viðurkenna staðreyndir og horfast í augu við raunveruleikann. Það hefur hins vegar aldrei verið sterka hlið þeirra Alþb.-manna.

Hv. þm. ræddi einnig um það í ræðu sinni hér áðan að skuldasöfnun og óráðsía væri mikil í ríkisfjármálum. Hann kenndi þar um störfum núv. hæstv. fjmrh., svo og ýmissa annarra hæstv. fjmrh. sem hefðu setið hér fyrr á árum, svo sem eins og Tómasar Árnasonar, Matthíasar Á. Mathiesen, jafnvel Halldórs E. Sigurðssonar, en gleymdi einhverra hluta vegna að fjalla um það tímabil sem hann sat sjálfur í stóli hæstv. fjmrh. Staðreyndin er þó sú, og vert er að minna á það hér og nú, að í skýrslu stjórnar Seðlabanka Íslands, sem fram var lögð á aðalfundi bankans vorið 1979, kom fram að mikil umskipti hefðu orðið og mjög til bóta í fjármálum ríkisins vegna ráðstafana í ríkisfjármálum og lagasetninga sem hv. þm. Tómas Árnason, þáv. hæstv. fjmrh., hafði beitt sér fyrir. Staðreyndin er því sú að hv. þm. Ragnar Arnalds tók við mjög góðu búi, er hann settist í stól fjmrh. á sínum tíma, og bjó að því.

Ríkisfjármál eru sá þáttur í hagkerfi hverrar þjóðar sem einna mestu máli skiptir við stjórnun efnahagsmála. Fjárlagafrv. það sem hér er nú til umr. er engin undantekning frá venju að þessu leyti. Fjárlög ríkisins hljóta að hafa verulega þýðingu, jafnvel skipta sköpum, í þeirri efnahagsstefnu sem mótuð er hverju sinni. Á þetta að sjálfsögðu einnig við um lánsfjáráætlun og lánsfjárlög svo og öll umsvif ríkissjóðs á hverjum tíma.

Í því fjárlagafrv. sem hér er nú til umr. hefur að venju verið reynt að gæta aðhalds og sparnaðar og viðleitni sýnd til að draga úr útgjöldum ríkisins. Skv. þessu frv. er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 29.2% af þjóðarframleiðslu sem er lægra hlutfall en verið hefur frá árinu 1981. Á þennan hátt hefur ríkisstj. viljað stuðla að því að auka ráðstöfunartekjur einstaklinga og mæta þannig að einhverju leyti þeirri skerðingu á kjörum almennings í landinu sem ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt að grípa til á síðasta ári. Einnig er með þessu hugsað að auka svigrúm til athafna fyrir einstaklinga, félög þeirra og fyrirtæki til að gera þeim mögulegt að bæta sinn hag, efla og treysta atvinnulífið og auka hagvöxtinn svo að þjóðin geti á komandi árum bætt afkomu sína á traustari grunni en verið hefur á undanförnum árum.

Nokkur nýmæli eru í þessu fjárlagafrv. sem ég vil gera sérstaklega að umræðuefni en koma síðar í ræðu minni að einstökum þáttum í frv. er ég vil vekja sérstaka athygli á, án þess þó að ég ætli mér að fara ítarlega í gegnum frv. í heild sinni. Það hefur hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu gert í sinni framsöguræðu, auk þess sem hann hefur gert grein fyrir þeim breyttu forsendum sem skapast hafa á undanförnum vikum og hafa veruleg áhrif á tekju- og gjaldahlið frv. Um þau mál öll hefur einnig verið rætt hér í þinginu í stefnuræðu hæstv. forsrh. í seinustu viku og umr. um hana, svo og við ýmis önnur tækifæri, þannig að ekki er ástæða til að fjölyrða um þau atriði hér og nú.

Í fyrsta lagi vil ég fjalla um að nú er gert ráð fyrir að verulega verði lækkaðar tekjur ríkissjóðs af tekjusköttum einstaklinga. Er hér gert ráð fyrir lækkun að upphæð 600 millj. kr. Hér er um að ræða áfanga í þeirri stefnu ríkisstj. að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum.

Á undanförnum árum hefur skapast það ástand í þjóðfélaginu að fleiri og fleiri skattgreiðendur hafa fundið smugur í skattalögunum og komist undan að greiða til samfélagsins það sem þeim hefur borið. Þó mikið sé rætt manna á milli um margvísleg skattsvik og undanslátt virðist sem mikill fjöldi fólks sé í raun tilbúinn að taka þátt í þessum leik beint eða óbeint. Margvíslegar duldar greiðslur eða greiðslur undir borðið eru keðjuverkandi og gætu ekki átt sér stað nema þátttakendur í leiknum séu fjölmargir. Aðeins á þann hátt getur hið svokallaða neðanjarðarhagkerfi þrifist. Almennur hugsunarháttur er því miður slíkur að svo virðist sem útilokað sé að ná til þessara skattsvikara með lögum eða stjórnvaldsaðgerðum.

Tekjuskattur sem slíkur er m.a. hugsaður sem tekjujöfnunarleið, aðferð til að jafna tekjur milli þeirra sem minna mega sín og hinna sem meira bera úr býtum, aðferð til að láta þá sem hærri tekjurnar hafa greiða stærri hluta af okkar samfélagslegu þörfum, en því miður hefur það ástand skapast að nú er, að mínu mati, ekki lengur hægt að una við það misvægi og það ranglæti sem ríkir varðandi þessi mál. Stórir hópar þjóðfélagsþegna greiða ekki sinn hluta af sameiginlegum útgjöldum ríkis og sveitarfélaga og virðast þó með sinni einkaneyslu sýna að þeir hafi úr allmiklu að spila þótt skattframtölin beri það ekki með sér. Vissulega má telja að það sé uppgjöf stjórnvalda að hverfa að þessu leyti frá tekjujöfnunarhugmyndinni sem í tekjuskattinum felst, en ástandið er orðið slíkt að ég tel það nú óumflýjanlegt hvort sem við köllum það uppgjöf eða stefnubreytingu. Við náum ekki lengur með þessari aðferð til fjölda fólks sem virðist hafa miklar tekjur en greiðir litla skatta. Eina ráðið virðist því vera að ná greiðslum frá þessum þjóðfélagsþegnum til samfélagsins í gegnum neyslu þeirra, þ.e. að auka hlut óbeinna skatta eða neysluskatta í tekjuöflun ríkisins.

Að því verður vissulega að gæta þegar tekjuöflunin er færð frá tekjusköttum til neysluskatta að gætt sé hagsmuna þeirra sem minna mega sín og þyngst framfæri hafa. Séu neysluskattar lagðir í æ ríkara mæli á almennar neysluvörur, svo sem matvæli, hlýtur það að koma mjög þungt niður á þessum aðilum, t.d. barnmörgum fjölskyldum. Því ber að reyna að finna leiðir þar sem skattbyrði yrði aukin á ýmiss konar neyslu sem þeir veita sér er meiri tekjur og fjárráð virðast hafa.

Varðandi neysluskatta ber einnig að geta þess að því miður er talið að þar eigi sér líka stað veruleg skattsvik og álagður söluskattur skili sér t.d. ekki líkt því allur til ríkissjóðs. Skattyfirvöld hafa ávallt talið mjög erfitt að bæta innheimtu söluskattsins, vegna þess hve margvíslegar undanþágur eru veittar frá álagningu hans, og því lagt áherslu á að ef verulega eigi að efla innheimtuaðgerðir og bæta innheimtu skattsins þurfi jafnframt að afnema allar undanþágur. Mundi þetta að sjálfsögðu koma harðast niður á matvörum sem eru að mestu leyti undanþegnar söluskattsálagningunni. Ef þessi leið verður farin ber að hafa í huga að með einhverjum aðferðum verður að mæta skattíþyngingu þeirra fjölskyldna sem þungt framfæri hafa, eru barnmargar eða tekjulágar. Það þarf að gera með einhvers konar fjölskylduafslætti og hækkuðum barnabótum.

Ég hef hins vegar enga sannfæringu fyrir því að þetta sé rétt mat hjá skattyfirvöldum. Ég hef ekki þá trú að skattsvik séu meiri hjá þeim sem versla með matvöru en hjá ýmsum öðrum og þá einkum hvers konar þjónustuaðilum sem engar undanþágur hafa, heldur draga undan verulegan hluta af sinni heildarveltu með aðstoð almennings, þ.e. þeirra sem kaupa þjónustu en gera engar kröfur til að fá kvittun fyrir greiðslu sinni. Þessu verður að breyta, en þá þarf líka að koma til hugarfarsbreyting hjá almenningi. Hér þarf verulega að efla eftirlit og er þá full ástæða til þess að skatteftirlitið og skattstofurnar snúi sér í æ ríkara mæli að því að innheimta þann söluskatt sem ríkinu ber og vinnubrögð verði skipulögð á þann hátt að það megi takast. Verði teknir upp neysluskattar í æ ríkara mæli þarf að leggja enn meiri áherslu á þann þátt skatteftirlitsins sem fylgist með skilum á álögðum neyslusköttum.

Ég vil taka skýrt fram að þetta er ekki sagt í neinum ámælistón í garð starfsfólks í skatteftirliti eða á skattstofum, heldur aðeins sem ábending um hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að breyta áherslu og endurskipuleggja vinnubrögð.

Þá vil ég einnig minna á að á verðbólgutímum undanfarinna ára hefur myndast hópur manna í þjóðfélaginu sem á verulegar eignir sem þeir hafa lítið þurft að hafa fyrir að eignast á meðan verðbólgan greiddi niður skuldir þeirra. Ég tel því vel koma til greina að hækka eignarskatt og hafa hann jafnvel stighækkandi eftir því sem skuldlausar eignir manna eru meiri. Í því sambandi þarf á skipulagðan hátt að endurskoða allt fasteignamat og ganga úr skugga um að allar fasteignir séu skráðar og af þeim séu greidd gjöld, bæði eignarskattur og fasteignagjöld, eins og vera ber. Heyrst hefur að jafnvel sé svo komið að sumar eignir séu hreint ekki á fasteignaskrá og því engar greiðslur inntar af hendi af þeim. Þá þarf einnig að gæta þess að mat sé rétt miðað við það verðgildi sem í þessum eignum felst.

Ég hef nýlega heyrt þá sögu að stórhýsi sem byggt var fyrir skömmu hér í borg fyrir um 16 millj. kr. sé nú að söluverðmæti ekki undir 60 millj. Af hvaða mati skyldi eigandi þessarar eignar greiða sín fasteignagjöld og sinn eignarskatt? Fróðlegt væri að vita það. Og ábyggilega má finna fjölmörg dæmi svipuð þessu.

Þessar hugleiðingar um breytingar á sköttum geri ég að umræðuefni til að benda á hvað þarf að varast og hvaða leiðir ég álít m.a. koma til greina til að bæta stöðu ríkissjóðs. Einnig vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess að skera upp herör gegn skattsvikum og neðanjarðarhagkerfi. Þessi starfsemi er að vísu því miður ekki ný í okkar þjóðfélagi og verður að telja ámælisvert að stjórnvöld skuli ekki fyrir mörgum árum hafa tekið á þessum málum af festu.

Miðstjórn Framsfl. ályktaði á fundi sínum 10. og 11. nóv. s.l. að gerð skyldi róttæk atlaga gegn skattsvikum og neðanjarðarhagkerfi. Í framhaldi af því munu nokkrir þm. Framsfl. leggja fram till. til þál. um að skipuð verði fimm manna nefnd til að gera úttekt á atvinnustarfsemi sem ekki greiðir lögboðin opinber gjöld og benda á leiðir til úrbóta.

Annað atriði í frv., sem ég vil nefna og fara örfáum orðum um, er hið svokallaða þróunarfélag. en í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá því í haust er gert ráð fyrir því að stofnað verði hlutafélag einstaklinga, félaga, stofnana og fyrirtækja í atvinnurekstri, banka og ríkissjóðs sem starfi að rannsóknar- og þróunarverkefnum, eflingu iðnþróunar og tækninýjunga í atvinnulífinu og er hér gert ráð fyrir 50 millj. kr. hlutafjárframlagi ríkisins í hinu nýja félagi. Ég álit að hér sé um mjög mikilvægt og þýðingarmikið atriði að ræða.

Við vitum öll að undirstöðuatvinnuvegirnir, sem stundum eru nefndir svo, landbúnaður og sjávarútvegur, eiga nú við margvíslega erfiðleika að etja. Gert er ráð fyrir að bæta nokkuð stöðu sjávarútvegsins og jafna aðstöðu hans gagnvart öðrum atvinnugreinum með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt að upphæð um 400 millj. kr. Þá er þess vænst að þörf fyrir útflutningsbætur verði minni en útt7utningsbótarétturinn gæti gefið tilefni til. Ekki er enn vitað um framleiðsluverðmæti né hver bótaþörfin kann að verða á næsta ári og er því upphæðin áætluð 380 millj. kr., en útflutningsbótaþörf verður mætt svo sem lög gera ráð fyrir.

Ég ætla ekki að þessu sinni að eyða fleiri orðum að stöðu þessara atvinnuvega. Vandi þeirra er öllum ljós og því enn meiri þörf að leggja mikla áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu. Við stöndum að vissu leyti á vegamótum hvað þetta varðar.

Talað hefur verið um að á næstu árum verði bylting í atvinnulífi þjóða um allan heim, ekki ólíkt því sem var á sínum tíma er iðnvæðingin gekk yfir, hvaða nafn sem menn vilja gefa þessu breytingaskeiði nú, örtölvubylting, þróunarbylting eða þekkingarbylting, en ýmislegt slíkt hefur verið nefnt. Allavega er ljóst að þörf er verulegra breytinga og til að gera þær mögulegar þarf að útvega mikið fé. Í samkomulagi stjórnarflokkanna frá því í haust er gert ráð fyrir að útvega þessu nýja félagi 500 millj. kr. á árinu 1985 til þeirrar nýsköpunar og uppbyggingar í atvinnulífinu sem nauðsynleg er.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og minna aðeins á þá þróun sem orðið hefur í atvinnulífinu á undanförnum mánuðum eða misserum.

Uppbygging hefur orðið geysileg hér á suðvesturhorninu. Skapast hefur mikið þensluástand hér á sama tíma og samdráttur hefur orðið út um land svo að vart verður við unað. Í umr. um fjárlagafrv. á s.l. vetri nefndi ég einnig þetta ástand, sem þá var farið að bera á, og því miður virðist svo sem nú megi endurtaka nokkurn veginn það sem þá var sagt því að ekki hefur tekist að breyta um svo sem æskilegt hefði verið. Þá sagði ég eitthvað á þá leið að ríkisstj. legði mikla áherslu á að halda fullri atvinnu og tryggja atvinnuöryggi og mundi fylgjast vandlega með þróun atvinnumála um allt land. Þar var reyndar vitnað til orða hæstv. fjmrh. í framsöguræðu hans fyrir frv. Ég bætti síðan við, með leyfi forseta:

„Það er ekki vafi á því að á undanförnum árum hefur ríkt töluverð umframeftirspurn á vinnumarkaði og enn mun nokkurrar spennu gæta, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu, umfram það sem er víða úti á landi... Að þessu verður ríkisstj. að gæta vandlega og bregðast við í tæka tíð og á réttan hátt ef verulegra breytinga eða misræmis fer að gæta í atvinnuástandinu. Einnig þarf að hafa þessi atriði í huga þegar skipt verður því takmarkaða framkvæmdafjármagni sem frv. gerir ráð fyrir.“

Því miður eiga þessi orð svo sannarlega við ekki síður í dag en var fyrir ári því það verður að játast að ekki hefur tekist að skapa það æskilega jafnvægi sem þarf að ríkja í atvinnulífinu um land allt.

Varðandi nýsköpun atvinnulífsins nú ber að hafa þetta ástand sérstaklega í huga. Á seinasta áratug átti sér stað mikil uppbygging, t.d. í sjávarútvegi í kaupstöðum og sjávarplássum úti um land, og nú þegar dregur úr möguleikum sjávarútvegsins, a.m.k. um sinn, kemur þetta mjög harkalega niður á atvinnulífinu þar sem það er einhæfast. Þetta hygg ég að stjórnvöld verði að hafa í huga og beita öllum ráðum sem þau hafa tiltæk til að sem mest jafnræði ríki í þessum efnum.

Ég vil skjóta hér fram þeirri hugmynd að hið nýja þróunarfélag verði sett á fót og hafi sitt aðalaðsetur á Akureyri. Það hefur margsinnis verið rætt um flutning ríkisstofnana út á land, en meira verið í orði en á borði. Nú er hins vegar kjörið tækifæri til að sýna vilja stjórnvalda í þessu efni. Samgöngur fara sífellt batnandi og tækni á sviði hvers konar fjarskipta eykst með degi hverjum svo að upplýsingamiðlun á að geta verið auðveld milli landshluta og hinna ýmsu stofnana sem þurfa að hafa samskipti við hið væntanlega þróunarfélag. Hins vegar er ljóst að þjónustan er og verður vaxandi atvinnuvegur, trúlega sá sem mestan mannafla tekur til sín á næstu árum, og ríkið verður stækkandi vinnuveitandi á því sviði. Því er það bráðnauðsynlegt að stjórnvöld hafi víðsýni til að dreifa þjónustustofnunum sínum um landið í æ ríkari mæli en verið hefur og nú er bæði tækifæri og lag til að gera svo.

Það er nánast óviðunandi ef þær fréttir, sem oft heyrast, lýsa raunverulega ástandi, að þeir sem ekki hafa næga atvinnu víða úti um land geti flutt hér til höfuðborgarsvæðisins, fengið þar svo mikla vinnu sem þeir nánast þola að inna af hendi og fái síðan greitt 50–100% hærra kaup en gerðist á meðan þeir höfðu vinnu í sinni heimabyggð. Jafnvel fylgir þessum fréttum að hluti af kaupi þessu sé ekki talinn fram til skatts og ber því saman við þá miklu umræðu sem nú fer fram í þjóðfélaginu um skattsvik og neðanjarðarhagkerfi sem ég hef fjallað um fyrr í minni ræðu.

Þar að auki má og benda á að það eru engu landsvæði til góðs þessir miklu búferlaflutningar, hvorki þeim svæðum sem flutt er frá né heldur þeim svæðum sem flutt er til. Þetta sanna e.t.v. best umræður sem áttu sér stað á nýafstöðnum aðalfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Skv. fréttum kom þar mjög skýrt fram að fulltrúar á þessum aðalfundi töldu að stöðva þyrfti fólksflóttann frá landsbyggðinni. Í viðtali sem NT átti við Júlíus Sólnes, formann Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kemur fram að hann telur að nánast sé að skapast ófremdarástand í umferðarmálum þessa svæðis. Það kalli á stórátak í uppbyggingu vegaframkvæmda sem væru dýrar framkvæmdir og kostnaðarsamar fyrir sveitarfélögin á þessu svæði.

Nýjasta og ljósasta dæmið um þetta er sú staðreynd að á 1–2 árum er að verða til byggð á við heilan kaupstað úti á landi hér uppi í Grafarvoginum með allri þeirri þjónustu sem hlýtur að fylgja og vera nauðsynleg fyrir nýjan byggðarkjarna, svo sem eins og skólamannvirki, dagvistarstofnanir, heilbrigðisstofnanir, svo að eitthvað sé nefnt. Allt þetta mætti í raun spara eða framkvæma mikið hægar ef eðlilegt jafnvægi ríkti í búsetumálum í landinu. Í þessu tilvitnaða blaðaviðtali sem NT átti við Júlíus Sólnes segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Af öðrum málefnum, sem til umfjöllunar voru, nefndi Júlíus framtíðarskipulag almenningssamgangna, samvinnu í vatnsveitumálum og eins yrði að takast á við þá óheppilegu þróun í fólksfjölgun sem væri að skapast á ný með flótta frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Lægi ljóst fyrir að það yrði að hamla á móti þessari þróun sem kæmi illa við byggðarlögin á Reykjavíkursvæðinu. Það mundi kosta óhemju uppbyggingu ef öll þjóðin ætlaði að flytja suður.“

Á þessum orðum sést best að það er öllum til óhagræðis að þessi byggðaröskun eigi sér stað, bæði þeim sem hér ráða ríkjum og eins hinum sem missa fólk frá byggðarlögum sem oft og tíðum þurfa á öllu sínu að halda til að eðlileg byggð geti haldist og hægt sé að halda uppi nauðsynlegri samfélagslegri þjónustu fyrir íbúa þeirra svæða. Þetta vildi ég nefna hér og nú til að leggja áherslu á hversu nauðsynlegt er að stjórnvöld fylgist vel með þeirri þróun sem nú á sér stað og taki í taumana svo að ekki leiði til ófarnaðar fyrir alla aðila.

Í beinu framhaldi af þessu og þeim hugmyndum mínum um nauðsyn þess að dreifa þjónustustarfsemi ríkisins sem mest um landið vil ég minna á þær hugmyndir sem uppi hafa verið um að hefja háskólanám á Akureyri. Svokölluð háskólanefnd skilaði á s.l. vori skýrslu til menntmrn. með tillögum um hvernig vinna mætti að því að efla Akureyri sem miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar. Þar var hreyft þeirri hugmynd að þegar á næsta hausti, þ.e. haustið 1985, yrði hafin kennsla á háskólastigi á Akureyri, sem einkum beindist að tölvuvinnslu og verslunargreinum, og þar kom einnig fram að töluverður hluti þeirra nemenda sem á hverju vori ljúka stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hefði fullan hug á því að stunda sitt háskólanám þar einnig ef þeir ættu þess kost. Þá hafa komið fram þær hugmyndir frá skólamönnum að fyrstu námsár á háskólastigi gætu verið á Akureyri, en síðari árin í Háskólanum í Reykjavík ef ekki er talið skynsamlegt eða hagkvæmt að hafa einstakar námsgreinar einvörðungu fyrir norðan.

Þá vil ég í þriðja lagi fara örfáum orðum um framkvæmda- eða fjárfestingarlið frv. Tveir þættir hafa þar nokkurn forgang, en það eru annars vegar fjárveitingar til vegagerðar og hins vegar til húsnæðismála.

Hvað vegagerð varðar er í frv. gert ráð fyrir fjárveitingum sem nemi 1.9–2% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta er nokkru minna fjármagn en langtímaáætlun um vegagerð gerði ráð fyrir, en skv. upplýsingum frá Vegagerð ríkisins er útlit fyrir að nokkurn veginn megi standa við þau framkvæmdaáform sem fyrirhuguð voru skv. langtímaáætluninni. Stafar það m.a. af því að verðlagsþróun hefur orðið önnur og hagstæðari en ráð var fyrir gert þegar langtímaáætlunin var samin og hins vegar af því að útboð á framkvæmdum hafa leitt til allmiklu lægri framkvæmdakostnaðar en kostnaðaráætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir.

Varðandi útboðin vil ég þó nefna að þau hafa leitt til þess að verkefni hafa að verulegu leyti flust burt frá íbúum sveitarfélaganna þar sem framkvæmdir hafa átt sér stað til annarra aðila, stórra verktaka sem jafnvel hafa komið héðan af höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur að sjálfsögðu bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að verkin hafa reynst ódýrari en kostnaðaráætlanir gerðu ráð fyrir, svo sem ég gat um áðan, en gallarnir þeir að tekjur hverfa burt úr sveitarfélögunum. Þar standa oft og tíðum öflug atvinnutæki ónotuð eða a.m.k. illa nýtt og getur það ekki talist hagkvæmt. Ég vil varpa fram þeirri hugmynd til umhugsunar og athugunar fyrir hæstv. samgrh. og Vegagerðina hvort ekki megi a.m.k. í sumum tilfellum takmarka útboðin eða hafa þau svæðisbundin, þannig að heimamenn á afmörkuðum svæðum hafi vissan forgang. Þó það kunni í fyrstu að virðast eitthvað dýrara en almennt opið útboð er ég þess fullviss að þegar allt er reiknað er þetta ekki þjóðhagslega óhagkvæmara en flytja vélar og tæki aftur og fram um landsbyggðina með ærnum tilkostnaði og jafnframt að flytja verulegt fjármagn á milli sveitarfélaga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem jafnvel geta leitt til eða ýtt undir fólksflutninga og ótímabæra fjárfestingu sem ég gerði hér að umræðuefni áðan.

Varðandi framlög til húsbyggingarsjóðanna vil ég aðeins geta þess að nú eru stórauknar þær fjárveitingar sem ætlaðar eru beint af fjárlögum til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Þetta mun að sjálfsögðu leiða til þess að eiginfjárstaða sjóðanna verður mikið betri en verið hefur um árabil og þó nokkur óvissa ríki enn um lántökur til hins opinbera húsnæðislánakerfis er ljóst að svo mikil aukning á beinum framlögum frá ríkissjóði hlýtur að hafa afgerandi áhrif á stöðu þeirra og gera byggingarsjóðnum mikið betur kleift en ella að þjóna því hlutverki sem þeim er ætlað. Það er full ástæða að geta þess hér að ríkisstj. hefur nú ákveðið að útvega fé til byggingarsjóðanna þannig að þeir geti á þessu ári staðið við þær útlánaáætlanir sem gerðar hafa verið og húsbyggjendur og íbúðakaupendur, sem hafa beðið eftir láni undanfarnar vikur, geta nú reiknað með lánum sínum fyrir áramót svo sem til var ætlast.

Um aðra framkvæmdaliði verður því miður að segjast að vegna þeirrar aðhaldsstefnu sem frv. gerir ráð fyrir var óhjákvæmilegt að draga mjög úr framlögum til þeirra þátta. Sérstaklega vil ég nefna fyrirhugaða fjárveitingu til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, en frv. gerir aðeins ráð fyrir að til þeirra verkefna verði veittar 55 millj. kr. sem er helmingi minni upphæð í krónum talið en á fjárlögum þessa árs. sjálfsagt má telja að skynsamlegt sé að fresta nánast alveg framkvæmdum við einn framkvæmdalið og reyna þá frekar að gera ívið betur við annan heldur en hafa alla liði allt of þrönga. Ýmsum finnst sjálfsagt einkennilegt að þá skuli einmitt hafnarmannvirki hafa orðið fyrir valinu þar sem framkvæmdir í höfnum eru svo geysiþýðingarmiklar fyrir sjávarplássin, útgerðarstaðina allt í kringum land. Á það ber hins vegar að líta að verulegar framkvæmdir hafa átt sér stað víðast hvar á undanförnum árum og öflug og traust hafnarmannvirki risið svo að varla er hægt að segja að neyðarástand ríki nokkurs staðar miðað við það sem var sé litið nokkur ár til baka. Framkvæmdum á nokkrum stöðum er þó nánast útilokað að fresta vegna stöðunnar í einstökum verkáföngum. Einnig má benda á að framkvæmdir við hafnarmannvirki eru allajafnan ekki eins atvinnuskapandi heima í byggðarlögunum og t.d. framkvæmdir við skólabyggingar, byggingar heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa eða dagvistunarstofnana, svo að eitthvað sé nefnt. Að því leytinu til ætti samdráttur í fjárveitingum til hafnarmannvirkja ekki að hafa eins mikil áhrif á atvinnuþróun og atvinnulíf hinna ýmsu staða og ef dregið væri meira úr öðrum framkvæmdaliðum.

Varðandi framkvæmdaliðinn sem ber yfirskriftina Bygging grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra er alveg ljóst að þar verður mjög þröngur stakkur sniðinn. Skv. fjárl. ársins í ár eru um 150 framkvæmdir í gangi og má þá öllum vera ljóst að ef 100 millj. kr. er deilt niður á svo margar framkvæmdir verður lítið í hlut hverrar og einnar. Væri jafnt skipt væru það 600–700 þús. kr. á framkvæmd. Hins vegar hefur komið fram í viðtölum fjvn. við fulltrúa sveitarstjórna að undanförnu að óskir og þarfir eru að sjálfsögðu langt umfram þetta. Einstök sveitarfélög hafa jafnvel óskað eftir fjárveitingum sem skipta tugum millj., svo að hér hlýtur að vera erfitt og vandasamt verk fyrir dyrum.

Á seinasta ári settu stjórnvöld sér það sem markmið að hleypa ekki nýjum framkvæmdum af stað. Átti þetta að gilda um sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, skóla, dagvistarstofnanir, íþróttamannvirki og aðra þá framkvæmdaliði sem ríkið er þátttakandi í á móti sveitarfélögum. Nú er hins vegar orðið ljóst að þessi regla hefur því miður ekki haldið alls staðar. Sum sveitarfélög hafa hafið framkvæmdir, sem ekki var ráðgert að hleypa af stað, vafalaust víðast hvar af brýnni þörf eða jafnvel neyð. Þetta hefur á hinn bóginn valdið verulegri mismunun gagnvart þeim sveitarfélögum sem virtu stefnumið stjórnvalda og héldu að sér höndum svo sem ráð var fyrir gert.

Ég álít því að afar erfitt verði að setja sér þá reglu sem markmið fyrir næsta ár að ekki verði farið af stað með neinar nýjar framkvæmdir. Það sýndi sig líka að reglan hélt ekki á þessu ári. Það er afar erfitt að ætla svo að segja við sveitarstjórnir í mörg ár í röð að ekki megi hefjast handa við ný verkefni og allra síst þær sem virtu þó settar reglur. Þetta er e.t.v. hægt að gera í eitt og eitt ár í setin þó reynslan hafi sýnt að ekki var hægt að standa við það markmið að fullu og öllu. Við verðum því að búa okkur undir að eitthvað fari af stað af nýjum framkvæmdum eða verkefnum á næsta ári sem ríkið þarf að taka þátt í á móti sveitarfélögum.

Í fjórða lagi vil ég nefna að svo virðist sem viðhaldi ýmissa eigna ríkisins víða um land sé mjög ábótavant. Hér verður að ráða bót á því að sjálfsögðu er algerlega óviðunandi að svo fari með þessar eignir að þær grotni nánast niður eða liggi undir stórskemmdum vegna þess að vanáætlað sé fyrir nauðsynlegum viðhaldsverkefnum. Við fjárveitinganefndarmenn heyrum nánast á hverjum degi í viðtölum okkar við forsvarsmenn ríkisfyrirtækja og stofnana að þeir kvarta undan því að viðhaldi sé ábótavant. Ég tel að til greina komi að ráða sérstaka eftirlitsmenn til að fara um landið, gera úttekt á þessum eignum ríkisins og útbúa síðan tillögur um það til fjárveitingavaldsins og Alþingis hvernig best megi standa að framkvæmd sérstakrar áætlunar sem miði að úrbótum á þessu viðhaldsverkefni á tilteknu árabili.

Fimmta atriðið, sem ég vil geta um varðandi framsetningu fjárlagafrv., er sú meginregla að ekki verði fjölgað starfsfólki hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum á næsta ári né nýrri starfsemi hleypt af stað. Ein veigamikil undantekning er þó frá þessari reglu og er það varðandi málefni fatlaðra. Á þessu ári hófu starfsemi 15 ný heimili og stofnanir, sum að vísu nú nýlega, sem þýðir að rekstrarútgjöld þeirra hljóta að hækka verulega. Þá er og gert ráð fyrir að hefja starfsemi níu nýrra heimila fyrir fatlaða og eins leiktækjasafns á næsta ári. stöðum mun því fjölga um 40. Alls er þá gert ráð fyrir fast að 400 stöðugildum á næsta ári til að vinna að málefnum fatlaðra.

Þó þörfin sé vissulega brýn fyrir þessa starfsemi og sjálfsagt finnist ýmsum ekki nóg að gert verður því varla móti mælt að í þeirri þröngu stöðu sem ríkisfjármálin eru í nú og frv. ber með sér hafa stjórnvöld reynt að veita málefnum fatlaðra nokkurn forgang og fjárveitingar aukist verulega til þessa málaflokks.

Í sjötta og síðasta lagi vil ég svo nefna að sú breyting hefur nú verið gerð á ýmsum safnliðum einstakra rn. við uppsetningu þessa fjárlagafrv. að smáliðir, sem þar hafa, margir hverjir, verið inni um árabil með sáralitlum upphæðum, eru nú annaðhvort strikaðir út eða sameinaðir í einum lið sem hefur þá gjarnan yfirskriftina Ýmis framlög. Einkum á þetta við í safnliðum undir menntmrn., þar sem veittir hafa verið ýmsir smástyrkir til einstaklinga, félaga og stofnana, en þetta á einnig við um önnur rn., svo sem dóms- og kirkjumrn., félmrn. og heilbr.- og trmrn. Með þessari breytingu var ekki endilega meiningin að setja alla þá sem áður hafa fengið einhverja fjárveitingu á fjárlögum ríkisins út af þeim lista og hafna þar með óskum þeirra um fjárveitingu, heldur að reyna að fækka þessum liðum eitthvað, einfalda gerð frv. og fjárlaga og síðan væri það þá í valdi fjvn. og viðkomandi rn. hvernig þessum safnliðum væri skipt. Það má hugsa sér að slíkt sé gert með bréfi frá fjvn. og Alþingi til rn. og einnig er ekki ólíklegt að eitthvað af þeim liðum sem felldir voru niður við gerð frv. komi aftur inn í fjárlög í meðförum fjvn. og þings. Sá háttur hefur verið á við frv.-gerð á undanförnum árum að flestir þessir liðir hafa verið settir upp í frv. óbreyttir í krónutölu frá því sem verið hefur í fjárlögum líðandi árs, þannig að fjvn. hefur hverju sinni orðið að fara yfir alla þessa liði og taka tillit til óska og umsókna og leiðrétt eftir því sem hún hefur talið þörf á eða ástæðu til hverju sinni. Að þessu leyti verða vinnubrögð með svipuðu sniði og að undanförnu.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir nokkra þá liði í fjárlagafrv. sem ég taldi sérstaka ástæðu til að nefna og vil þá að lokum aðeins nefna örfá smærri atriði sem ég tel að verði að koma til umfjöllunar og athugunar í fjvn. sérstaklega.

Fyrst vil ég geta þess varðandi rekstur grunnskóla að fjárveiting til aksturs skólabarna er ekki nægjanlega há til að séð verði fyrir því verkefni í óbreyttu formi út næsta ár. Þetta tel ég að verði að leiðrétta. Sjálfsagt er að leita allra leiða til að spara í skólaakstrinum, leita samkomulags við sveitarfélögin um hvernig best verði að þessu staðið og reyna að draga úr útgjöldum svo sem kostur er. Jafnvel mætti hugsa sér að óska eftir útboðum á skólaakstrinum ef það gæti leitt til sparnaðar. En að gera ekki ráð fyrir að nokkurn veginn sé séð fyrir þessum kostnaðarlið í fjárlögum tel ég fráleitt og álít því að fjvn. verði að ráða þar bót á.

Þá eru og tveir tiltölulega litlir framkvæmdaliðir sem oft hefur borið á góma í viðtölum fjvn. við fulltrúa sveitarfélaga.

Annars vegar er það liðurinn Styrkir til vatnsveituframkvæmda. Svo virðist sem margvísleg verkefni séu fram undan hjá mörgum sveitarfélögum á þessu sviði, mörg hver mjög kostnaðarsöm, og því ljóst að miðað við óbreytt lög hlýtur ríkið að þurfa að leggja verulega upphæð til þessara verkefna á næstu árum.

Hitt atriðið er fjárveiting til sjóvarnargarða. Tjón af völdum landbrots verður ótrúlega víða um land og óskir frá sveitarstjórnum koma hvaðanæva að. Sums staðar er búið að gera sérstaka úttekt á ástandinu og setja fram áætlun um hvernig megi að þessum verkefnum standa. Þetta verða stjórnvöld að skoða. Ljóst er að hér er um allverulegar upphæðir að ræða. Á undanförnum árum hefur þessum lið verið skipt milli einstakra sveitarfélaga á þann hátt að veittar hafa verið nokkur hundruð þús. kr. á hvern stað, en ljóst er að verkefnin eru víða miklu stærri en svo að 200–400 þús. dugi til. Það er varla hægt að ráðast í kostnaðarsöm og stór verk fyrir ekki stærri upphæðir og mörg sveitarfélög hafa sýnt fram á þörf fyrir milljónir króna til að framkvæmdir megi verða að gagni. Hins vegar þarf einnig að setja einhver ákvæði um það hver skuli vera hlutur ríkisins og hver skuli vera hlutur sveitarfélaga í verkefnum sem þessum ef ríkið á að veita í þetta verulega auknu fjármagni. Mætti e.t.v. hugsa sér að kostnaðarskipting yrði svipuð og gerist nú í flestum hafnarframkvæmdum, þannig að ríkissjóður greiði 75% af kostnaði við framkvæmdina og viðkomandi sveitarfélag þá 25% á móti. Þetta er tillaga sem ég set hér fram til umhugsunar, en ég tel ljóst að setja verði einhverjar reglur um þetta.

Að lokum langar mig svo til að fara örfáum orðum um málefni Orkusjóðs og þær framkvæmdir sem honum er ætlað að standa fyrir. Þar má t.d. nefna lán til jarðhitaleitar, sveitarafvæðingu, styrkingu dreifikerfis í sveitum og lán til einkarafstöðva. Ég hygg að flestir þessir liðir séu of lágt áætlaðir og þó einkum liðurinn Styrking dreifikerfis í sveitum þar sem gert er ráð fyrir að verja aðeins 20 millj. kr. til þessa verkefnis. En augljóst er af áætlunum, sem þegar hafa verið lagðar fyrir fjvn., að óskir og þarfir eru miklu meiri en svo að 20 millj. kr. dugi til að leysa úr brýnustu verkefnum.

Þá vil ég einnig nefna fjárveitingalið sem settur er undir Ýmis orkumál og hefur yfirskriftina „háhitarannsóknir“. Til hans er ætlað að verja 1 millj. kr. skv. frv. Fyrir 1 millj. kr. verður lítið unnið að rannsóknum á háhitasvæðum. Hér er um að ræða svæði á nokkrum stöðum á landinu sem enn þá hafa lítt verið könnuð, þó aðeins sum hver. Alþingi hefur fyrir nokkrum árum samþykkt sérstaka þál. sem gerir ráð fyrir því að svæði þessi séu rannsökuð ítarlega og upplýsingar liggi fyrir um orkumagn og vinnslumöguleika þeirra og hvernig best verði staðið að virkjun.og nýtingu orkunnar, sem þar kann að vera fyrir hendi, ef upp koma atvinnugreinar sem hafa þörf fyrir og geta nýtt þessar veigamiklu orkulindir.

Herra forseti. Það er ljóst af því sem hér hefur komið fram að í frv. þessu er mjög þröngur stakkur sniðinn ýmsum brýnum þörfum og nauðsynlegum verkefnum. Svo hlýtur það að verða þegar þjóðartekjur dragast saman og þegar minna er úr að spila jafnt hjá einstaklingum sem opinberum aðilum. Við höfum oft heyrt og heyrum ekki síst nú þá kröfu að ríkið sýni fordæmi og taki einnig á. Þegar að herðir sé ekki eingöngu tekið það ráð að velta byrðunum á launþega landsins. Ég tel að fjárlagafrv. þetta sýni að stjórnvöld hafa reynt til hins ýtrasta að gæta aðhalds og sparnaðar og draga úr ýmsum verkefnum, sumum hverjum e.t.v. minna nauðsynlegum en öðrum að sjálfsögðu meira nauðsynlegum. Svo hlýtur það að verða að vera eins og málum er nú háttað.

Fjvn. á erfitt verk fyrir höndum við að reyna að leysa úr þörfum og óskum manna eins og best verður á kosið miðað við þessar þröngu aðstæður. Fjvn. hefur undanfarnar vikur átt viðtöl við ýmsa aðila, fyrst sveitarfélög, síðan fulltrúa frá hinum ýmsu félagasamtökum og stofnunum og nú síðast við fulltrúa rn. og ríkisstofnana. Hún mun svo á næstu dögum setjast niður við það verkefni að skipta þeim framkvæmdaliðum sem frv. gerir ráð fyrir að n. geri tillögur um til þingsins svo og reyna að leiðrétta þá liði sem óhjákvæmilegt er að lagfæra, eins og ávallt hefur reynst nauðsynlegt í meðhöndlun fjvn. á fjárlagafrv. Ég vænti góðs samstarfs við meðnefndarmenn mína í því starfi sem fram undan er.

Herra forseti. Ég hef nú gerst nokkuð langorður, langorðari en ég ætlaði mér í upphafi. Ég hef e.t.v. einnig farið aðeins út fyrir efnið með almennri umr. um skattamál, atvinnuuppbyggingu og byggðamál. Ég segi mér það hins vegar til málsbóta að ég fer ekki í þennan ræðustól á hverjum degi og mælist því ekki í mörgum dálksentimetrum í Alþingistíðindum. Ég vænti því að mér fyrirgefist að þessu sinni og ég hafi ekki farið mjög illa með tíma hins háa Alþingis og hv. alþm.