28.11.1984
Efri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Undir þetta nál. hef ég skrifað og það stendur, en gjarnan hefði ég mátt huga að orðtakinu „flýttu þér hægt“ þegar um er að ræða að greiða fyrir stjfrv., svo sem vandi minn er þegar þau virðast svo sakleysisleg sem þetta frv. lítur út fyrir og grg. þess öll og aths. við það báru með sér, sömuleiðis ræða hæstv. ráðh. Mér brá illa í brún þegar ég las það í mínu blaði að einmitt þetta frv. hefði verið orsök allnokkurra átaka í borgarstjórn og þar komið fram athyglisverðar upplýsingar varðandi þetta mál sérstaklega. Þar upplýstist það nefnilega að það muni hafa verið borgarstjóri Reykjavíkurborgar sem hefði gengið á fund hæstv. ráðh. og beðið um sérstaka meðferð á þessu máli, án samráðs við minni hl. borgarstjórnar og enn frekar án samráðs við heilbrigðismálaráð borgarinnar sem er þó sá umsagnaraðili sem hér á að fjalla um fyrst og fremst. Mér þykir það miður að hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur nú, en mun þar af leiðandi óska eftir því að 3. umr. um þetta mál verði frestað þannig að tími gefist til að spyrja hann nokkurra spurninga. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann nánar hér um þetta. En vitanlega hefði ég átt að vita betur, sem einn þeirra sem áttu þátt í endurskoðun heilbrigðislaganna 1982, um sérskoðanir ýmissa aðila hér á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og þá tregðu sem þar er á ferð um eðlilega aðlögun að heildarlögunum um heilbrigðisþjónustu í landinu. Dæmið frá Garðabæ er eflaust í flestra minnum þar sem hið venjulega heilsugæslukerfi er þverbrotið og læknar reka þjónustuna sjálfir í heilsugæslustöð þar.

Vissulega var það, og ég legg áherslu á það, forgangsstarf eftir setningu hinna merku laga um heilbrigðisþjónustu að uppbygging þeirrar þjónustu færi fram á landsbyggðinni og þar hefur sannarlega vel miðað og ber að fagna því sérstaklega. Það er sannarlega fagnaðarefni hvílík gjörbreyting hefur orðið í öryggismálum fólks þar við tilkomu hinna nýju heilsugæslustöðva og þeirrar þjónustu sem þar er veitt. En á það legg ég einnig áherslu að Reykjavík hlýtur að verða að laga sig að almennum lögum og byggja upp ekki lakari þjónustu en nú er víða á landsbyggðinni. Þar geta ekki geðþóttaákvarðanir ráðið lögum ofar eða einhver sérstök einkasjónarmið, það er útilokað. Þetta vildi ég að kæmi hér skýrt fram.

Ég sá það reyndar í Morgunblaðinu í dag að hér á þessu stóra og fjölmenna svæði eru nú starfandi fjórar heilsugæslustöðvar í þeirri merkingu, fjórar heilsugæslustöðvar aðeins, til viðbótar við heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi sem þjónar nokkrum hluta Reykjavíkur. Það segja mér margir hversu erfitt er að fá hina nauðsynlegustu þjónustu hér. Enn verr gengur það en hjá okkur úti á landi nú orðið. Og ég tala nú ekki um aðkomufólk hér eins og nemendur og aðra slíka sem reyna að komast inn á einhverja þessara fjögurra heilsugæslustöðva, sem hér eru, eða þá inn á göngudeild, reyna að komast þar að með sín brýnu erindi oft. Ástandið á þessu svæði er því áreiðanlega ekki til fyrirmyndar, miðað við það sem gerst hefur annars staðar, þó nóg sé hins vegar af praktíserandi læknum hér á svæðinu, en það er allt önnur saga.

Ég segi því að nefndarskipun, sem greint er frá í grg. og ég taldi út af fyrir sig ekkert óeðlilega við fyrstu yfirsýn, hefði verið góðra gjalda verð ef, ég segi ef, og ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðh. um það ef hann verður við 3. umr., ef þessi nefnd er ekki beinlínis sett upp til að hindra að þessi sömu lög gildi um Reykvíkinga og aðra í heilsugæslumálum. Ég hef grun um að þannig sé þetta. Ég segi það einfaldlega vegna þess að við nefndarskipun af þessu tagi, þar sem greinilega er farið á bak við heilbrigðismálaráð borgarinnar, sem málið snertir fyrst og síðast, er eitthvað bogið. Það er alveg ábyggilegt.

Ég skrifaði hins vegar undir þetta nál. í trausti þess að þannig hefði verið staðið að þessu máli að engin undarlegheit lægju þar að baki, enda er það mjög óvenjulegt, og því lýsi ég yfir hér og mun gera aftúr við 3. umr. þessa máls, að hæstv. heilbrmrh. fari í kringum mál þegar hann leggur þau fyrir. Hann kemur venjulega beint að efninu og segir undanbragðalaust hvernig þau eru til komin, og er það kannske meira en hægt er að segja um suma aðra.

En forsendurnar í sambandi við þetta virðast því miður vera brostnar í ljósi þeirra upplýsinga sem ég hef fengið um þessi mál. Ég lagði hins vegar áherslu á það í n. að þessu umgetna nefndarstarfi, sem getið er um í aths., yrði hraðað sem mest og ef þörf væri lagabreytingar lægi fyrir strax í byrjun næsta þings frv. þar að lútandi. Sú áhersla komst að hluta til inn í nál. eins og hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, 5. þm. Vesturl., tók réttilega fram áðan.

Ég mun því styðja brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v., enda ætti ekkert að vera að vanbúnaði að miða við frest til 1. maí ef rétt er með farið í aths. með frv. að umrædd nefnd ljúki störfum í janúarlok. Ég leyfi mér að óska þess að brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v. verði dregin til baka til 3. umr. sakir hans veikindaforfalla, en vil segja í lokin, þó segja megi að það sé fullsterkt til orða tekið út af ekki stærra máli, en þó er það eflaust stærra en mönnum sýnist, að greinilega er meiri nauðsyn á varúð í nefndarstarfi framvegis, meiri varúð gagnvart sakleysislegum frv. frá hendi þessarar ríkisstj., frv. sem gilt gæti e.t.v. um orðtakið gamla: Oft er flagð undir fögru skinni.