16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

44. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti hæstv. heilbrmrh. frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands. Málið var lagt fram í Ed. og varð 204. mál þingsins á þskj. 366. Þetta frv. var samið af nefnd sem skipuð var í okt. 1980 af þáv. heilbr.- og trmrh. til þess að endurskoða lög um Ljósmæðraskóla Íslands. Í nefndinni áttu sæti m.a. fulltrúi frá skólanum og einnig frá Ljósmæðrafélagi Íslands. Í frv. voru ýmsar breytingar til bóta og voru flestir þeir er um það fjölluðu sammála um það að hér væri á ferðinni hið þarfasta mál.

Í frv. er tiltekið að inntökuskilyrði skólans séu að umsækjendur skuli hafa lokið prófi í hjúkrunarfræði. Síðan er námstími Ljósmæðraskólans tvö skólaár. Þarna er því um að ræða 5 ára nám að loknu stúdentsprófi, fyrst í háskóla, síðan í sérmenntunarskóla eða framhaldsnámi.

Bæði í umr. þm. í deildum og eins við umfjöllun heilbr.- og trn. beggja deilda um málið kom fram vilji og skilningur til þess að tryggja ljósmæðrum sem besta menntun og undirbúning undir störf sín og jafnframt viðurkenning á mikilvægi starfa þeirra og ósk um að þau störf yrðu áfram í höndum ljósmæðra en færðust ekki smám saman yfir á hendur annarra. Hins vegar voru ofarlega í hugum margra efasemdir um það að svo langur námstími væri endilega eðlilegasta og skynsamlegasta leiðin til þess að tryggja hæfilega menntun ljósmæðra. Og það komu einmitt fram áhyggjur yfir því að þeim kynni að fækka sem legðu út í svo langt nám. Þær hugmyndir komu fram að eðlilegra væri að samræma nám í hjúkrunarfræðum og ljósmæðrafræðum þannig að komið yrði á sameiginlegu grunnnámi í t.a.m. tvö ár, en síðan greindist námið í frekara hjúkrunarnám eða ljósmæðranám.

Heilbr.- og trn. Nd. hafði samband við fulltrúa úr stjórn Ljósmæðrafélags Íslands meðan á umfjöllun málsins stóð og samþykktu þeir að skynsamlegt væri að kanna þennan samræmingarmöguleika til þrautar svo og aðra kosti sem stytta mundu námið. En vitað er að menntunarmál ljósmæðra hafa verið mjög mikið rædd innan ljósmæðrastéttarinnar um langt árabil og ekki allir á eitt sáttir um lausn eða hentugast fyrirkomulag þeirra mála. Það var því ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og leggja til að nefnd yrði skipuð í sumar til að endurskoða þennan þátt.

Ég tel þetta hið þarfasta mál og fagna því að hæstv. heilbrmrh. flutti það á síðasta þingi og tel að þetta mál megi ekki tefjast. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. heilbrmrh.: Hvað líður endurskoðun frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands?