11.12.1985
Efri deild: 25. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Iðnn. hefur tekið frv. það sem hér er til umræðu til meðferðar. Nefndin fékk á sinn fund formann og framkvæmdastjóra Hitaveitu Suðurnesja til að ræða efni frv. Nefndin mælir með að frv. verði samþykkt. Einn nefndarmanna, Karl Steinar Guðnason, áskildi sér rétt til að bera fram brtt. sem hann hefur gert á sérstöku þskj. Annar nefndarmaður, Skúli Alexandersson, skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara.

Með frv. þessu er lagt til að gerðar verði þær breytingar á lögum um Hitaveitu Suðurnesja sem leiða af breytingum á hlutverki fyrirtækisins og breyttum eignarhlut sameiganda þess eftir að fyrirtækið keypti rafveitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins á Suðurnesjum og yfirtók allar rafveitur sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Helstu nýmæli skv. frv. eru að staðfest er sú breyting á eignarhlutföllum sem leiðir af samningi um yfirtöku fyrirtækisins á rafveitum sveitarfélaganna. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja verður nú skipuð níu fulltrúum í stað fimm áður og hvert hinna sjö sveitarfélaga, sem eigendur eru að fyrirtækinu, skipar einn fulltrúa í stjórn og ríkið tvo.

Þá er það og nýmæli í frv. þessu að við afgreiðslu mála í stjórn fyrirtækisins verði að viðhafa hlutfallslega atkvæðagreiðslu miðað við eignarhluta komi fram ósk a.m.k. eins stjórnarmanns þar um og þarf þá 60% atkvæða til að mál teljist afgreidd.

Þá má þess geta að í frv. er það nýmæli að Hitaveita Suðurnesja verður undanþegin álagningu hvers konar gjalda til sveitarsjóðanna á svæðinu.

Ég ítreka, sem ég sagði í upphafi, að iðnn. mælir með að frv. þetta verði samþykkt.