12.12.1985
Efri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

178. mál, jarðræktarlög

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skil vestfirska bóndann vel sem fannst ekki taka því að snúast svo mikið í kringum eina rollu, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson var að hafa eftir áðan. Mig undrar það reyndar ekkert þótt hann eigi auðvelt með að setja sig í spor þessa vestfirska bónda því að það eru ekki svo stórar hjarðir sem BJ þarf að stikla í kringum um þessar mundir. En af því að BJ á nú æði marga ferðina í ræðupontu um þessar mundir vildi ég benda þessum virðulegu þm. á að hafa þangað meðferðis alveg einföldustu röksemdir þannig að réttar séu.

Sú venja hefur tíðkast að afgreiða jarðræktarlög ekki öðruvísi en að búnaðarþing hafi fjallað um þau. Búnaðarþing fjallar um jarðræktarlögin væntanlega á fundum sínum í febrúarmánuði n.k. og það er nægilegur tími sem eftir er vetrar til að ganga frá afgreiðslunni hér á Alþingi. Það þurfa ekkert að líða svo og svo margir vetur þess vegna.

Það er líka vert að benda BJ á að ekki dugir að lesa jarðræktarlögin eins og ákveðin persóna les biblíuna, aftur á bak. Það stendur hvergi í þeim að það eigi að verja 19 millj. til nýrra búgreina eða loðdýraræktar, hvergi nokkurs staðar og hefur aldrei staðið þar.