12.12.1985
Efri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. og þá athugasemd og ádeilu að frv. það sem hér er til umræðu er það seint fram komið sem raun ber vitni. Ég tek einnig undir það sem hann hafði eftir hæstv. forseta Sþ. En ég get ekki tekið undir það að málið sem slíkt hafi ekki verið skoðað, enda kemur það fram á bls. 3, sem er fskj., að nefnd til endurskoðunar á verðjöfnunargjaldi af raforku, sem skipuð var með bréfi iðnrh. þann 18. apríl í ár, skilar áliti, dagsetur þetta álit 2. desember, eins og kemur fram á bls. 6. Það var ekki mikill tími í iðnrn. til að skoða þær hugmyndir sem komu fram í þessu nál., en eins og kemur fram á bls. 4 um niðurstöður nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða nefndarinnar er sú að verðjöfnunargjaldið skuli afnumið að fullu frá og með 1. janúar 1986.

Til að mæta þeim tekjumissi Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða sem í niðurfellingu verðjöfnunargjaldsins felst er nú gerð tillaga um aðra lausn en áður. Felst hún í því að ríkissjóður yfirtaki öll áhvílandi lán fyrirtækjanna frá og með 1. janúar 1986. Nægir það til að koma fyrirtækjunum á réttan kjöl þannig að nýjar lántökur verða óþarfar. Hér er um að ræða yfirtökur á lánum Rafmagnsveitna ríkisins að fjárhæð 2975 millj. kr. og Orkubús Vestfjarða að fjárhæð 816 millj. kr.

Lagt er til að tryggilega verði frá því gengið að fyrirtækin stofni ekki til nýrra lána, þegar ráðstafanir þessar hafa verið gerðar, nema því aðeins að fé úr rekstri nægi til endurgreiðslu þeirra.“

Þetta er aðaltillaga nefndarinnar og ég held að það sé öllum ljóst að ríkissjóður þolir ekki að taka á sig á fjórða þús. millj. kr. til viðbótar þeim vanda sem hann er í nema þá að aðrir skattar verði lagðir á til að mæta auknum þunga á ríkissjóði. Þess vegna og þess vegna aðallega er lagt til að framlengja verðjöfnunargjaldið óbreytt frá því sem það hefur verið á þessu ári. En skoðun hefur farið fram, eins og kemur fram í fskj. með frv.

Ég skal ekki segja, ég man ekki orðrétt fyrirheit forvera míns í embætti, en ég leyfi mér að giska á að hann hafi frekar lofað að kanna aðrar leiðir en þá að koma kostnaðinum að fullu og öllu yfir á ríkissjóð eins og hér er lagt til. En þær leiðir hafa ekki fundist.

Það er rétt að hv. þm. Kjartan Jóhannsson er alveg nýbúinn að skila sínu séráliti. Það var í gær. Ég vona að ég fari rétt með. Það getur verið að það hafi verið í fyrrakvöld, en a.m.k. seinni partinn í fyrradag. En það er verið að reikna út. Hugmynd hans er að Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða þurfi ekki meira en 14% verðjöfnunargjald til að standa undir rekstri og kostnaði starfseminnar. Þetta er í útreikningi og veit ég að ráðuneytisstjóri iðnrn. hefur gert ítrekaðar tilraunir, frá því að ég fékk sérálit hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, til að ná í hann og yfirfara það með honum. Að sjálfsögðu mun það koma fram þegar það hefur verið skoðað nánar. En það var svo seint fram komið að ekki vannst tími til þess að láta það fylgja frv.

Meira hef ég ekki um þetta að segja. Ég vona að menn geti sætt sig við og sjái þörfina á því að þetta mál fái fullnaðarafgreiðslu á Alþingi fyrir jólafrí.