12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

145. mál, stjórn fiskveiða

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er ófögur lýsing 5. þm. Vestf. á flokksbróður sínum, hæstv. sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni, þegar hann finnur þá samlíkingu helsta að lýsa honum sem einræðisherra. Það getur vel verið að sjútvrh. séu yfirleitt ráðríkir og komast kannske ekki hjá því eins og allt er í pottinn búið, en hérna þykir mér fulllangt gengið.

Það er auðvitað hryggilegt að ekki skuli vera tækifæri til að ræða þetta mál, stjórnun fiskveiða, með eðlilegum og skynsamlegum hætti í góðu tómi og þannig að menn geti velt fyrir sér þeim grundvallaratriðum sem hér er um að ræða. Ár eftir ár höfum við búið við þær aðstæður að ræða stjórnun fiskveiða á seinustu stundu. Ég hef áður gert það að umtalsefni að auðvitað sé ljóst að á vissum tímapunkti þurfi menn að afgreiða málið, en það sé skoðun mín að menn þurfi að gefa sér betri tíma inn á milli til að hugleiða þau grundvallaratriði sem hér er við að fást vegna þess að þau skipta okkur mjög miklu.

Ég held að allir þm. séu sammála um að góð stjórn á fiskveiðunum sé nauðsynleg, bæði af líffræðilegum ástæðum og eins af efnahagslegum ástæðum, en þegar kemur að framkvæmdinni getur menn greint á. Og menn greinir jafnvel á um misskilning vegna þess að það gefst ekki tóm til að skoða hvað sé um að ræða.

Ég er eins og aðrir sannfærður um að það sé nauðsynlegt að hafa stjórn á fiskveiðunum. Við höfum í grundvallaratriðum reynt tvö kerfi. Við höfum ekki verið fullkomlega ánægð og mjög óánægð á köflum með þau bæði. Ég vísa þar annars vegar til skrapdagakerfisins sem ekki skilaði þeim árangri og ekki var þannig með að fara að menn gætu lýst ánægju sinni yfir því þótt ýmsir yrðu við það að búa sem það eina stjórntæki sem þeir hefðu. Ég vísa til kvótakerfisins sem við höfum búið við að undanförnu. Það má telja fram á því ýmsa kosti, en líka ýmsa megingalla.

Alvarlegasti gallinn er sá að mínu mati að menn festist í ákveðnu fari fortíðarinnar, eins og við höfum gert með því að binda okkur fast við aflatölur sem áttu sér stað á einhverju tilteknu löngu liðnu tímabili. Við þessu hefur verið brugðist að hluta í því lagafrv. sem hér liggur fyrir með því að innleiða svonefndan sóknarkvóta sem hugmyndin er að verði lögfestur hér. Ég tel nauðsynlegt að við reynum að stefna frekar á þá braut meðan við höfum ekki fundið annað betra. Ég tel reyndar að það svigrúm sem veitt er í sóknarkvótanum samkvæmt fyrirliggjandi lagafrv. sé of þröngt. Ég mun þó ekki flytja brtt. þar að lútandi.

Sannleikurinn er sá að við búum við þær aðstæður að stór hluti þeirra sem í greininni vinna hafi í rauninni fallist á að þeir geti sætt sig við þetta kerfi að svo búnu. Þess vegna held ég að tilraunir til að breyta því á þessari stundu, þó að maður vildi lagfæra, mundu ekki bera árangur, og við verðum að taka tillit til þess sem þegar hefur verið gert í þessum efnum.

Annað er það að ég hef ekki á reiðum höndum annað betra eða skárra stjórnkerfi eins og sakir standa. Ég mun þess vegna ekki beita mér gegn þessu frv. En ég á mér eina ósk og eina áskorun sem mig langar til að beina á þessari stundu alveg sérstaklega til hæstv. sjútvrh. Ég vitna þar til þess sem ég hef áður um þetta mál sagt og hvernig ég hóf ræðu mína núna. Óskin og áskorunin er um það að setja niður hóp manna til að fara ofan í stjórnkerfismálin í fiskveiðum í góðu tómi, hugleiða þá reynslu sem við höfum fengið, hugleiða það fordæmi sem við getum fundið annars staðar að í heiminum, að svo miklu leyti sem það er til, og reyna að finna betri stjórnkerfi en við höfum beitt. Ég tel að þetta sé meginmál og ég beini þessari ósk og áskorun til sjútvrh. um leið og ég endurtek það, sem ég sagði, að við þær aðstæður sem nú eru mun ég ekki beita mér gegn því að þetta frv. hljóti samþykki.