12.12.1985
Neðri deild: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil inna virðulegan forseta eftir því hvað hann hyggst halda lengi fram fundi hér í kvöld. Bæði er nú það að fyrir dyrum stendur útvarpsumræða sem mun eiga að hefjast hér kl. 20 og þeir þm. sem taka eiga þátt í henni munu margir hverjir gjarnan kjósa að komast í ró, ofurlítið sálarnæði um stund, áður en hún á að hefjast. En ekki síður hitt, að mæting hv. þdm. hefur ekki verið með þeim ágætum hér í dag að mér þyki sérstök ástæða til að halda mikið lengur fram fundinum. Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að mál eru hér knúin áfram með minni hluta greiddra atkvæða miðað við tölu þdm. og þá með því að krefjast nafnakalls og gilda atkvæðagreiðsluna með hjásetum. Mér finnst þetta vægast sagt rislág afgreiðsla á stjfrv. og ég spyr því virðulegan forsefa hvort honum þyki ekki nóg komið fyrir reisn deildarinnar í fundahaldi í dag.