12.12.1985
Neðri deild: 28. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

173. mál, rannsóknarnefnd til að kanna viðskipti Hafskips hf.

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Gott kvöld. Ég ætla aðeins að eiga í upphafi örlítil orðaskipti við hv. þm. Steingrím Sigfússon. Í fyrsta lagi ætla ég að segja hv. þm. að það er alls ekki í tillögu Bandalags jafnaðarmanna að viðskrh. skipi bankaráð Seðlabanka. Það er tekið fram í frv. þannig að það ætti að vera alveg ljóst. Talað er um skipun bankaráða viðskiptabankanna. Og það getur hv. þm. séð ef hann lítur á það mál.

Hvers vegna á viðskrh. að skipa bankaráð? Það er vegna þess í fyrsta lagi, hv. þm., að það er stjórnarfarslega rétt. Ríkisbankar eins og aðrar stofnanir og önnur fyrirtæki ríkisins eru á ábyrgð og í umsjá framkvæmdavaldsins, ríkisstj., ráðherranna. Og það er stjórnarinnar og ráðherranna að skipa þar stjórnir.

Í öðru lagi segi ég að á þann hátt losna hömlur af Alþingi. Þegar Alþingi, eins og nú er, kýs bankaráðin eru settar hömlur á frelsi og vilja þm. til þess að veita bankakerfinu aðhald. Halda menn t.d. - halda þeir Alþb.-menn - að hv. þm. Garðar Sigurðsson og bankaráðsmaður hefði hlaupið hér upp til varnar Hafskipi og Útvegsbankanum í júní s.l. ef hann hefði ekki verið aðili að þessu sama bankaráði? Þar liggur munurinn. Þegar Alþingi kýs ekki bankaráðin og ber ekki á þeim ábyrgð er það frjálst að því að veita þeim aðhald og ganga að þeim.

Ég vil líka segja að þetta fyrirkomulag, að ríkisstj. og ráðherrar beri ábyrgð á fyrirtækjum ríkisins, eins og ríkisbönkum, er forsenda t.d. fyrir því að margnefndar rannsóknarnefndir, sem hafa nú aldeilis verið til umræðu í kvöld, geti virkað. Við sjáum t.d. að þegar við erum að tala um að setja rannsóknarnefnd til þess að rannsaka starfsemi bankaráðs Útvegsbankans og við erum að tala um að setja þingnefnd er þingið á vissan hátt að tala um að rannsaka sjálft sig, vegna þess að það á menn í þessu sama bankaráði. Og öll sú mikla áhersla sem ræðumenn, bæði Alþb. og Alþfl., hafa lagt á hlutverk löggjafarvaldsins í þessu eftirliti í kvöld er rétt og ég fagna því sem Bandalagsmaður að menn skuli loksins vera búnir að opna augun fyrir þessu. En þessi áhersla gengur ekki upp nema Alþingi á sama tíma fríi sig af beinum inngripum inn í stjórnir, nefndir og ráð framkvæmdavaldsins. Og það er dýrmæt lexía sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon ætti að læra.

Hér hefur verið rætt um hagsmunaárekstra. Það er mikilvægt að taka á því máli. Ég vil leggja áherslu á eitt. Það verður ævinlega mjög erfitt að rannsaka hagsmunaárekstra vegna þess að hagsmunaárekstrarnir eru einfaldlega þess eðlis að þeir fara ekki fram fyrir opnum dyrum og menn ganga ekki fram á víðan völl og játa þá. Það hafa líka vestrænar þjóðir séð og þess vegna setja menn ekki lög um rannsókn á hagsmunaárekstrum. Menn setja lög til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Það er lykillinn að þessu máli. Og þessi lög eiga að byggjast á þeirri fullvissu að það sé svo mikilvægt að starfsemi embættismanna og stjórnmálamanna sé engum vafa undirorpin að þeir megi ekki komast í þá aðstöðu að grunur liggi á um hagsmunaárekstra. Það er eina leiðin sem við höfum í þessu efni. Við verðum að setja ströng lög til varnar hagsmunaárekstrum. Og Bandalag jafnaðarmanna hyggst flytja frv. til laga til varnar hagsmunaárekstrum nú fyrir hátíð.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék að ríkisbönkum. Ég fagna mjög þeirri niðurstöðu þm. að það beri að losa okkur við þann stóra bagga - eða þá stóru, óútfylltu ávísun - sem ríkisbankarnir eru með núverandi fyrirkomulagi á þessari þjóð. Bandalag jafnaðarmanna flutti tillögu um það á síðasta þingi að breyta ríkisbönkum í almenningshlutafélög. Þá var málið fellt með atkvæðum Sjálfstfl. og Framsfl., auðvitað Alþb., og Alþfl. því miður. Ég fagna því að Alþfl. hefur áttað sig á þessu máli. Ég fagna því að Alþfl. hefur áttað sig á gagnsemi þess að breyta ríkisbönkunum í almenningshlutafélög og ég vil vekja athygli hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar á því að nú er líklega, ef vel er á haldið, meiri hluti fyrir því í Alþingi að breyta ríkisbönkum í almenningshlutafélög, og að því skulum við nú stefna. Ég trúi því ekki að sú verði niðurstaðan að það verði Sjálfstfl. sem standi í vegi fyrir því.