16.12.1985
Efri deild: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Mitt erindi í ræðustól er að ítreka nokkuð enn þá einu sinni þær tvær till. og rökstuðning fyrir þeim sem ég hef leyft mér að flytja til breytinga á frv. til lánsfjárlaga. Hins vegar þarf ekki mörg orð um að hafa. Ég ætla t.d. ekki að fara í neinar orðahnippingar á þessu stigi málsins um stóriðju eða orkuveislu Alþb. Það kemur manni á óvart núna í ljósi þess hversu miklum áróðri var haldið uppi gegn hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á sínum tíma. Sagt var þá að hann héldi hinni dauðu hönd aðgerðarleysisins yfir öllu sem snerti orku- og iðnaðarmál. Er gott samræmi í því máli nú þegar menn tala um að hann hafi staðið fyrir sérstakri orkuveislu í þessum efnum?

Brtt. þær sem ég hef flutt, aðra einn og hina ásamt hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Karli Steinari Guðnasyni og Stefáni Benediktssyni, eru þess eðlis að ég hafði vænst þess að fá einhverjar undirtektir undir þær. Önnur brtt. er raunar löngu fram komin. Fyrir því eru ærin rök að útvegað verði lánsfjármagn til þess að loðnuverksmiðjurnar okkar geti staðið á viðunandi hátt að mengunarvörnum hjá sér í samræmi við þá samþykkt sem Alþingi gerði á s.l. vori. Ég las hér á dögunum ályktun frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi til hæstv. forsrh., áskorun um að tillaga þessa efnis yrði samþykkt hér, enda vita menn það gleggst eystra hvaða áhrif eru af mengun frá þessum verksmiðjum þar sem eru þröngir firðir og logn oft og tíðum. Það leiðir reyndar hugann að stóriðju þar yfirleitt og öðrum iðnaði þar sem vel þarf að öllu að gæta.

Það er rétt, eins og hér hefur stundum komið fram, að sumir hafa treyst sér í að fjármagna þetta sjálfir.

Krossanesverksmiðjan er gott dæmi um það þar sem virkilega hefur verið vel að unnið og Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði einnig með miklum og gagngerðum endurbótum þar. Ég sé hins vegar í áætlunum SR að það muni seint koma að síðustu verksmiðju þeirra í lagfæringum og mengunarvörnum ef svo fer fram sem horfir. Næst ætla forráðamenn SR að vísu, að því er þeir segja í svari við fsp. hv. varaþm. Sveins Jónssonar sem hann lagði fram til sjútvrh., að einbeita sér að Seyðisfirði og síðan kemur röðin að öðrum verksmiðjum. Hins vegar hefur fjármagnskostnaðurinn við lagfæringarnar á Siglufirði orðið svo stórkostlegur að ég efa stórlega að hægt sé að ráðast í stórfelldar framkvæmdir á Seyðisfirði á næsta ári, enda ekkert um það sagt.

Ég held að í þessu efni verði þessir aðilar að eiga eðlilegan aðgang að fjármagni. Þeir eiga þann aðgang ekki í dag. Hér hefur margsinnis verið bent á að um svo arðbæra framkvæmd er að ræða að lántaka af þessu tagi á að geta skilað sér fljótt og vel í betri efnisnýtingu, í orkusparnaði og vitanlega í enn betri og verðmætari afurðum síðar.

Ég harma sem sagt að nefndin hefur ekki treyst sér að mæla með þessu - skil það út af fyrir sig í þeirri þröngu stöðu sem virðist alls staðar blasa við stjórnarliðum - en tel engu að síður að áfram þurfi að huga að þessu máli og úr því að ekki er farin þessi leið verði með einhverjum hætti reynt að sjá til þess að þessir aðilar eigi eðlilegan aðgang að því lánsfjármagni sem þeir þurfa örugglega á að halda, jafnvel þó ég geri mér ljóst að hagur loðnuverksmiðjanna hljóti að fara batnandi með vaxandi loðnuveiði og meiri vinnslu eins og nú horfir.

Hin till., sem ég hef leyft mér að flytja hér ásamt þeim hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Stefáni Benediktssyni, um Framkvæmdasjóð fatlaðra, er til komin af sérstöku tilefni eins og ég rakti við 2. umr. þessa máls. Ríkisstj. hefur sem sagt gefið upp boltann varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra og ætlar að sjálfsögðu að fara fram á aukna skattheimtu. Sá skattur er nú með þeim hætti að menn greiða hann yfirleitt með glaðara geði en aðra skatta vegna þess að þeir vita í hvaða málefni það fé fer. Ég hef hins vegar ekki farið dult með að mér hefur þótt fé Framkvæmdasjóðs aldraðra fara allt um of í eina einustu framkvæmd hér á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. við B-álmu Borgarspítalans. Naumt hefur verið skammtað til margra nauðsynlegra framkvæmda annars staðar, úti á landi. Skal ekki nánar úr í það farið hér og þess beðið að stjfrv. þess eðlis komi hingað til okkar í Ed. frá Nd., en sannfærður er ég um að þetta mál á greiðan gang hér í gegnum þingið.

Þar gerir hæstv. ríkisstj. ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður aldraðra fái 55% meira fjármagn en hann fékk á s.l. ári. Ég hef notað sömu prósentu, eða svo til sömu prósentu, á Framkvæmdasjóð fatlaðra. Eftir aukafjárveitingar þær sem hæstv. núv. iðnrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. sá sig knúinn til að veita í Framkvæmdasjóð fatlaðra var sú fjárhæð á þessu ári 80 millj. Hún er 80 millj. á fjárlögum þessa árs eða alveg óbreytt tala frá því sem raunverulega var á þessu ári. Sú tala færist í 125 millj. skv. till. og er notuð til þess sú reiknitala sem ríkisstj. notar gagnvart Framkvæmdasjóði aldraðra.

Nú er ég ekki, og vil taka það skýrt fram, að neita því að margt hafi áunnist í þessum efnum, m.a. sérstaklega vegna þessa sjóðs og framkvæmda sem hafa verið fjármagnaðar af þessum sjóðum. Í kjölfarið hefur orðið á fjárlögum mikil breyting á framlögum til málefna fatlaðra. Það ber að meta og virða. En að þar hafi verið of í lagt, eins og mér heyrist stundum á mönnum að hafi verið gert í þessu efni, er auðvitað fjarri öllu lagi. Ég bendi á það sérstaklega að allar þessar framkvæmdir og allt það sem gert er í þessum málefnum á eftir að skila sér ríkulega inn í samfélagið, ekki bara í mannlegri hamingju sem eykst vitanlega með þessum hætti og þeirri almennu auknu vellíðan, betri réttarstöðu þessa fólks og öðru sem fylgir þar í kjölfarið, heldur einnig í beinum þjóðhagslegum ávinningi af því að þetta fólk geti starfað við sem eðlilegastar aðstæður úti í þjóðfélaginu og lagt sinn skerf til þess.

Ég verð að segja að ég trúi ekki öðru en að lagfæring verði á þessu við 3. umr. fjárlaga. Ég trúi því ekki enn þá að hæstv. núv. fjmrh. muni ekki beita sér fyrir því a.m.k. að leiðrétting verði á þessum sjóði á svipaðan máta og hæstv. fyrrv. fjmrh. gerði þó í fyrra í samráði við þm. hér í hv. deild. Hann hækkaði óviðunandi upphæð þá um 15 millj. kr., úr 65 í 80 millj. Það væri hrein háðung að mínu viti ef Alþingi samþykkti nú nákvæmlega óbreytta upphæð til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það þýddi í raun að ekkert nýtt yrði hægt að aðhafast á næsta ári í þessum efnum og mjög lítið yrði hægt að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem verið er að vinna að á hinum ýmsu stöðum og vissulega kosta mikið en skila einnig góðum arði síðar meir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vænti þess sem sagt, þó að mér sé ljóst að hv. stjórnarliðar ætli ekki að samþykkja þessa till. okkar, muni ekki treysta sér til þess á þessu stigi, að þetta muni samt hafa þau áhrif að við 3. umr. fjárlaganna sjái hæstv. fjmrh. til þess að koma með ekki lakari leiðréttingu en hæstv. fyrrv. fjmrh. gerði á síðasta þingi þannig að raungildisframlag til þessa sjóðs verði eitthvað nálægt því sama og í fyrra þó ekki væri nú fram á meira farið.