16.12.1985
Efri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta stóra mál.

Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður vék að hér áðan. Það er ansi stuttur tími sem við fáum til þess að fjalla um hvert stórmálið á fætur öðru. En varðandi 27. gr. liðinn 27.02 vil ég fá svör, ef hægt væri, frá hæstv. ráðh. Það snertir breytingu á fyrningarreglum. Hér er verið að færa upp núverandi verð á þessari verksmiðju sem reyndar er búið að afskrifa töluverðan hluta af. Verðið er fært upp í 3 milljarða 608,5 millj. kr. Ég vil fá skýringar og svör við því: Hvað þýðir þetta varðandi skattheimtuna? Í athugasemdum með frv. er að mínum dómi ekki nægilega skýrt frá þessu sagt.(Iðnrh.: Hvaða grein var það?) 27. gr., 27.02, þar sem talað er um fyrningar. Það á að afskrifa verksmiðjuna að nýju á tíu árum. Það vitum við frá gildandi fyrningarreglum að eftir því sem við getum afskrifað hærri upphæð er lengra í að við borgum raunverulega skatta af henni. Að að mínum dómi gæti verksmiðjan eftir þessu ákvæði haft meiri gróða í dag áður en hún færi að borga skatta. En þar sem ég er ekki mjög kunnug þessu máli hefði ég viljað fá við þessu svör ef hæstv. ráðh. er kunnugt um hvað þetta þýði miðað við þær reglur sem hafa gilt og hvaða breytingar verði hér á.

Í þessu frv. sé ég einnig að miðað er við 1. janúar 1985, það er sem sagt yfirstandandi ár, og hér er kveðið á um gjald á hvert tonn. Hefur þetta gjald skilað meiru í ríkissjóð á þessu ári en á s.l. ári? Væri hægt að skýra okkur frá því hvað þetta þýði á næsta ári miðað við það sem hefur gilt, án þess að fara út í þessar flóknu reglur hér á víð og dreif og vitna í hliðarsamninga? Það tæki okkur alla vega einn mánuð ef við ættum af einhverju viti að komast til botns í þessu máli.