17.12.1985
Sameinað þing: 32. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

125. mál, afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Hæstv. forseti. Efnisatriði till. þessarar til þál. má greina í tvennt. Í fyrsta lagi er í henni lýst vilja Alþingis til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki eigi sér ekki stað hér á landi. Í öðru lagi er ríkisstj. falið með henni að skipa nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks hér á landi. Henni er samkvæmt till. ættað að kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.

Með því að leggja fram þáltill. þessa efnis viljum við flm. leggja fram okkar skerf ef verða mætti til að tryggja almenn mannréttindi hér á landi. Það er almennur vilji landsmanna að mannréttindi séu hér eins vel virt og tryggð og framast er kostur. En þess er greinilega þörf að sá vilji sé staðfestur af Alþingi og það hefur Alþingi gert í ýmsum tilvikum. Aðgerðir Alþingis til að koma á jafnrétti kvenna og karla nefni ég fyrst. Einnig minni ég á staðfestingu Alþingis á ýmsum alþjóðlegum sáttmálum um almenn mannréttindi og einstök atriði þeirra.

Hafa verður í huga að fjöldamargt af því sem Alþingi hefur samþykkt í löggjöf og ályktunum um velferðarmál, menntamál, heilbrigðismál o.s.frv. hefur í reynd verið framlag til aukinna almennra mannréttinda. Þjóðfélagsbreytingar í okkar heimshluta á síðustu áratugum felast m.a. í því að vaxandi virðingar gætir fyrir einstaklingnum og rétti hans. Jafnframt hefur skilningur milli þjóðfélagshópa aukist og virðing fyrir rétti þeirra hvers um sig hefur vaxið. Hafa menn betur gert sér grein fyrir tilvist misréttis og skaðsemi þess og hefur það einnig orðið ljósara bæði fyrir þá sem fyrir því verða beinlínis og einnig fyrir alla aðra. Meðal misréttis sem hefur viðgengist í samfélögum með vestræna menningu er misrétti vegna kynhneigðar. Þetta hefur einnig átt við á Íslandi.

Á fyrstu áratugum aldarinnar var mikil hreyfing í mörgum löndum Evrópu í þá átt að afnema slíkt misrétti og á þriðja áratugnum leit út fyrir að þess yrði ekki ýkjalangt að bíða að það tækist. En atburðir fjórða áratugarins í Þýskalandi og Sovétríkjunum bundu skjótan endi á þær framfarir.

Að lokinni heimsstyrjöldinni tóku við tímar kalda stríðsins sem einkenndust af almennri tortryggni gagnvart hverju því sem á einhvern hátt skar sig úr á einhverju sviði þjóðlífsins.

Segja má að umræða um mannréttindi samkynhneigðs fólks hafi ekki orðið almenn erlendis fyrr en fyrir hálfum öðrum áratug. Allt fram til 1972 voru mök milli fólks af sama kyni refsilagabrot í Noregi, svo að dæmi sé nefnt, en í öðrum löndum Vestur-Evrópu þar sem sams konar lagaákvæði giltu voru þau afnumin á árunum sitt hvorum megin við 1970. Má segja að sá tími einkennist af því að þá voru afnumin mörg lagaákvæði sem voru beinlínis ætluð til þess að skerða réttindi samkynhneigðs fólks. En jafnframt tóku augu manna að opnast fyrir því að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki var miklu almennara og víðtækara en í ljós kom af slíkum lagaákvæðum einum og framkvæmd þeirra.

Þegar árið 1973 ályktaði sænska þingið að sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni skyldi virða til jafns við sambúð fólks af gagnstæðu kyni. Árið 1978 skipaði það svo nefnd til að kanna öll sænsk lög með tilliti til þess hvort einhverju þyrfti að breyta í þeim eða bæta þau svo að hvaðeina sem ylli misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hyrfi úr þeim og að því yrði tryggt fullt frelsi og jafnrétti á við aðra. Þessi nefnd skýrgreindi verkefni sitt mjög rúmt og stóð fyrir margs konar rannsóknum á stöðu samkynhneigðs fólks í sænsku samfélagi. Hún lauk störfum árið 1984.

Árið 1981 bætti norska þingið við tvær greinar í hegningarlögum ákvæðum um samkynhneigt fólk. Annars vegar er lögð refsing við því að blása til andúðar á samkynhneigðu fólki á opinberum vettvangi og hins vegar er lögð refsing við því að neita samkynhneigðu fólki um vöru eða þjónustu sem almenningi er boðin. Gildi þessara lagaákvæða til að koma í veg fyrir misrétti innan síns ramma hefur sannast því að einungis örsjaldan hefur komið til kæru samkvæmt fyrra ákvæðinu, en aldrei samkvæmt því síðara. Í ár skipaði norska ríkisstjórnin nefnd til þess að kanna réttindi og skyldur fólks í sambúð, þar á meðal sambúð samkynhneigðs fólks.

Í Danmörku situr þingnefnd sem á að kanna stöðu samkynhneigðs fólks þar í landi og almennt má segja að löggjafarvaldið sé þegar tekið til starfa við að útrýma misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki í flestum löndum Vestur-Evrópu.

Hin almenna umræða um mannréttindi samkynhneigðs fólks hafði náð svo langt á árinu 1981 að þá kom fram á þingmannafundi Evrópuráðsins tillaga til ályktunar um afnám misréttis sem byggðist á samkynhneigð. Það voru norskir og hollenskir þingmenn sem stóðu fyrir tillögunni og hún hlaut gott fylgi þegar hún var samþykkt 1. okt. 1981. Efnisatriði ályktunarinnar miðast við það hversu ólík löndin í Evrópuráðinu eru og eru þess vegna misjafnlega brýn fyrir hvert og eitt ríki. En efnisatriðin í ályktuninni eru þessi:

1. Niður falli lagaákvæði sem gera saknæm sjálfviljug mök einstaklinga af sama kyni.

2. Ein aldurstakmörk gildi í lögum um mök einstaklinga án tillits til kynferðis.

3. Lögreglu og öðrum aðilum skuli skipað að hætta að halda skrár yfir samkynhneigt fólk og að eyða þeim skrám sem til kunna að vera.

4. Samkynhneigðu fólki skuli tryggt jafnrétti til atvinnu með tilliti til ráðningar, kjara og atvinnuöryggis, sérstaklega í þjónustu opinberra aðila.

5. Hætt verði að þröngva mönnum til þess að sæta læknismeðferð í þeim tilgangi að hafa áhrif á breytta kynhneigð þeirra og að hætt verði öllum rannsóknum sem beinast að því að breyta kynhneigð fullvaxins fólks.

6. Tryggt verði að forræði barna og umgengnisréttur og vistun barna hjá foreldrum takmarkist á engan hátt vegna samkynhneigðar foreldris.

7. Fangelsisyfirvöld og aðrir opinberir aðilar séu vel á verði fyrir hættu á nauðgun, ofbeldi og kynferðisafbrotum í fangelsum.

Á árinu 1983 hófu danskir, finnskir, norskir og sænskir þingmenn sem eiga sæti í Norðurlandaráði undirbúning að ályktun frá ráðinu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Ályktunin hlaut yfirgnæfandi fylgi þeirra. Hún var samþykkt í Norðurlandaráði 1. mars 1984. Í grg. með ályktunartillögunni benda flm. á að markmið norrænnar samvinnu sé m.a. það að borgarar Norðurlanda megi búa við sem líkasta löggjöf. Eftir Helsingforssamningnum 1962 beri Norðurlandaþjóðum að vinna að samræmingu einkamála- og refsiréttar. Þeir vekja athygli á ályktun Evrópuráðsins nr. 924 1. okt. 1981 þar sem hvatt er til þess að samkynhneigt fólk njóti sömu réttinda og gagnkynhneigt fólk.

Greinar ályktunarinnar eru tvær. Önnur er til norrænu ráðherranefndarinnar um að hún láti fara fram könnun á stöðu samkynhneigðs fólks á Norðurlöndum hverju um sig svo og að hún leiti leiða til þess að afnumin verði löggjöf sem felur í sér misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki og bætt verði í lög ákvæðum er tryggi jafnrétti samkynhneigðs fólks á við aðra og bann við misrétti gagnvart því.

Hinni greininni er beint til ríkisstjórna landanna og er þess efnis að þær vinni saman að því innan stofnana Sameinuðu þjóðanna og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi að tryggja vörn gegn misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki.

Það verður eftir samþykkt þessarar þáltill. verkefni þeirrar nefndar sem ríkisstj. er með henni falið að skipa að rannsaka allar hliðar á misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hér á landi. Ég mun því ekki reyna að reifa hér þann þátt málsins að öðru leyti en því að ég nefni nokkur augljós og alkunn dæmi.

Í hegningarlögum eru ákvæði t.d. í kaflanum um skírlífisbrot, XXII kafla, í 203. gr., sem skerða rétt fólks sem vill eiga hlut að mökum við einstakling sama kyns umfram það sem gildir ef einstaklingar eru af gagnstæðu kyni. Fyrst og fremst er hér um það að ræða að hærri aldursmörk gilda svo að mök séu aðilum refsilaus ef um einstaklinga af sama kyni er að ræða.

En fleiri ákvæði er einnig að finna þar sem gerður er greinarmunur eftir kynferði aðila að mökum. Lög þau sem heimila hjúskap, þ.e. lög um stofnun og slit hjúskapar, gera einungis ráð fyrir hjúskap milli karls og konu og geta þau réttindi sem fylgja hjúskap þar með ekki nýst í sambúð samkynhneigðs fólks, t.d. hvað varðar ættleiðingarlög. Jafnframt er að finna í lögum ákvæði um réttindi fólks í óvígðri sambúð og eru þau jafnan svo orðuð að þau nýtast einungis karli og konu í sambúð.

Menningarlegs misréttis hefur gætt í því m.a. að þess sá hvergi stað í menntun og kennslu, listum og fjölmiðlun að samkynhneigt fólk væri til. Þetta hefur þó breyst mjög mikið á undanförnum árum, en margt er enn óunnið sem koma þarf í kring í þessu efni.

Til þess að hver og einn einstaklingur sé virtur og til þess að hann öðlist þá sjálfsvirðingu sem nauðsynleg er til að honum auðnist að lifa farsælu lífi þarf hann að njóta stuðnings af umhverfi sínu. Enn sem komið er er augljóst að mikið skortir á að menntakerfið veiti þann stuðning sem þarf svo að æskufólk sé viðbúið að virða til fulls samkynhneigð sína eða annarra þegar það gerir sér hana ljósa.

Félagslegs misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki gætir á öllum sviðum þjóðlífsins. Margsinnis hafa komið fram upplýsingar um að einstaklingum er neitað um vöru eða þjónustu sem almenningi stendur til boða fyrir það eitt að seljanda vörunnar eða þjónustunnar er kunnugt um samkynhneigð þeirra. Sama á við um stöðu samkynhneigðs fólks á húsnæðis- og atvinnumarkaði. Það virðist alltaf eiga á hættu að kynhneigð þess verði notuð sem átylla til misréttis.

Það er sérstakt eðli félagslegs misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki að það fer afskaplega leynt. Sérhvert dæmi sem fram kemur um það er því fulltrúi fyrir fjöldamörg önnur. Hér skal ekkert rakið af einstökum dæmum, enda verður það m.a. hlutverk nefndarinnar að safna þeim.

Þar sem þáltill. fjallar um afnám misréttis finnst mér nauðsynlegt að fjalla ekki einungis um hin ytri merki misréttis á einstaklinga og þjóðlíf heldur tel ég afar brýnt að við gerum okkur ljósa grein fyrir því sem að baki því býr, að við skoðum áhrif misréttis á einstaklinginn sjálfan og aðstöðu hans til þess að sækja rétt sinn.

Með misrétti er átt við það þegar menn búa við ójafnan rétt lagalega, menningarlega eða félagslega, og sá ójöfnuður byggist á einhverjum eiginleikum sem eru órjúfanlega tengdir persónu þeirra, svo sem kynferði, litarhætti, þjóðerni eða uppruna, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða kynhneigð, svo að fátt eitt sé talið af þeim eiginleikum mannanna sem hafa reynst veita einum forréttindi og öðrum réttleysi.

Það liggur í augum uppi að margs konar misrétti hefur viðgengist, a.m.k. svo lengi sem sögur ná aftur. Misrétti er ákaflega sterkt valdatæki. Því mun fleiri stoðum sem rennt er undir það, fleiri þættir látnir valda því, þeim mun fleiri verða fyrir því á einn eða annan hátt og þeim mun fámennari verður sá hópur manna sem telst búa yfir réttum eiginleikum í öllum greinum og þá einnig sterkari aðstaða þeirra einstaklinga sem tilheyra honum. Þetta er kjarninn í skýringum þess að misrétti á sér stað í öllum samfélögum.

En misrétti viðgengst ekki eingöngu fyrir ásetning þeirra sem vilja njóta afleiðinga þess. Það krefst þess nefnilega einnig að þeir sem fyrir því verða viðurkenni réttmæti þess. Á því byggist það að misrétti viðgengst á svo mörgum sviðum þjóðlífsins, að menn una menningarlegu misrétti og að menn sætta sig við að hið menningarlega misrétti teljist réttlæta félagslegt misrétti. Því þarf ekki að undra þótt valdamenn allra tíma hafi veitt sér að festa ákvæði um misrétti í lög. Það að þeir sem verða fyrir misrétti sætta sig við það byggist á því að hver sá sem elst upp við það frá fyrstu tíð, frá blautu barnsbeini að hann sjálfur, hans fólk, hans þjóð sé minni máttar og öðrum óæðri, verður að sjálfsögðu minni máttar. Þetta þarf enginn að undrast eða lá nokkrum manni. Misréttið brýtur niður sjálfsvirðingu þess sem fyrir því verður. Hann veit upp á sig að búa yfir einhverjum þeim eiginleikum sem virðast réttlæta það að hann njóti ekki jafnréttis. Hann dirfist ekki að krefjast réttar síns því að hann fellst á það, a.m.k. í verki, að sér beri ekki sá réttur sem aðrir njóta.

Það er sem betur fer í eðli sérhvers manns að eiga sér snefil af sjálfsvirðingu. Aðstaða þeirra sem búa við misrétti til þess að næra sjálfsvirðingu sína, til þess að læra að virða sjálfa sig og þá eiginleika sem valda því þó að þeir séu beittir misrétti er ákaflega misjöfn. Að sjálfsögðu eru einstaklingar hver öðrum ólíkir að þessu leyti. En hér kemur einnig annað til. Það er hin menningarlega og félagslega aðstaða.

Þrátt fyrir það misrétti sem konur hafa löngum búið við hafa þær þó sem einstaklingar ævinlega notið þess hve þær eru stór og augljós hópur. Telpur eiga sér frá fyrstu tíð fyrirmyndir þar sem aðrar konur eru, nákomnar sem óskyldar. Af þeim læra þær að virða sjálfa sig og aðrar konur hvað sem líður skorti á jafnrétti við karla.

Svartir menn sem búa við misrétti af hálfu hvítra manna hafa alist upp hjá svörtum foreldrum. Til þeirra hafa þeir alla sína æsku sótt þrótt til að geta síðar beitt sér gegn misrétti. Og þennan þrótt hafa foreldrarnir getað eflt með því að miðla af menningu sinni og sögu kynþáttar síns.

Þar sem trúarhópar búa við misrétti treystist einatt samstaða þeirra sem til þeirra vilja teljast svo að þrátt fyrir misrétti í samfélaginu elst sá, sem fæðist til að tilheyra slíkum hópi, upp við sannfæringu um að hann breyti rétt með því að afneita ekki trú sinni.

Þessu er öðruvísi varið þegar það er kynhneigð manns sem misrétti veldur. Þó að mannfólkið hafi á öllum tímum búið yfir þeim eiginleika að sumir fella hug til einstaklinga gagnstæðs kyns, sumir til einstaklinga sama kyns og enn aðrir til einstaklinga án tillits til kynferðis, þá er það svo að allir hafa frá barnsaldri alist upp við það á heimili sínu og í samfélaginu að allir menn búi yfir sömu kynhneigð, þránni að bindast ástum við einstakling af gagnstæðu kyni. Hér er þá komin fyrsta ástæða þess hve það er sérstaklega erfitt fyrir samkynhneigðan einstakling að öðlast sjálfstraust og sjálfsvirðingu svo að hann geti farið að hyggja að því að krefjast réttar síns í samfélaginu. Hann elst ekki upp við það að vitneskjan um aðra í sömu sporum berist frá kynslóð til kynslóðar, frá foreldrum til barns. Hann elst ekki upp við það að foreldrar hans séu honum þær fyrirmyndir sem hann sem samkynhneigður einstaklingur þarf á að halda í æsku og gildir einu hver kynhneigð foreldranna er. Þegar að því kemur að uppvaxandi einstaklingur gerir sér ljóst hvernig kynhneigð hans er varið er hann allsendis óundirbúinn að virða hana til fulls ef hún reynist önnur en sú gagnkynhneigð sem hann var alinn upp til að búast við.

Önnur ástæða sem mér finnst ég verða að fá að nefna hér er að hin menningarlegu skilyrði vantar til þess að samkynhneigður einstaklingur geti viðstöðulaust sótt sér fyrirmynd og stuðning til sér eldra fólks. Fólks sem hefur aflað sér þekkingar og reynslu til þess að lifa farsælu lífi í samfélaginu. Fólks sem einstaklingurinn gæti notið trausts og halds af.

Herra forseti. Þar sem tíminn er liðinn þá vil ég að lokinni þessari umræðu leggja til að þessari till. verði vísað til 2. umr. og til félmn.