17.12.1985
Neðri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. hv. iðnn. Nd. Hér er á ferðinni frv. til l. þar sem ríkisstj. er heimilað að selja Kröfluvirkjun og enn fremur að selja eignir jarðvarmaveitna ríkisins við Bjarnarflag og Námaskarð í Suður-Þingeyjarsýslu. Kaupverðið, sem greiðist með skuldabréfi til 25 ára, er samtals 1170 millj. kr. miðað við verðlag í apríl 1985. Skuldin skv. skuldabréfinu er verðtryggð með lánskjaravísitölu í apríl 1985 og ber 3% lánsvexti.

Heildarskuldir Kröfluvirkjunar námu 3207 millj. kr. 1. apríl 1985. Samhliða sölunni mun ríkissjóður yfirtaka skuldir umfram kaupverð, samtals 2037 millj. kr. miðað við verðlag á sama tíma.

Í 3. gr. samningsins milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um kaup á Kröfluvirkjun segir svo í lok fyrri mgr.:

„Skal óheimilt án samþykkis Landsvirkjunar að stofna þar til annarrar vinnslu er haft geti áhrif á þessa nýtingu.“ Meiri hl. nefndarinnar leggur þann skilning í þetta ákvæði að önnur vinnsla en sú, sem Landsvirkjun á rétt til skv. samningnum, sé háð samkomulagi aðila en ekki beri að túlka greinina þannig að í henni felist afsal á eignarrétti ríkisins yfir jarðhitaréttindum á Kröflusvæðinu umfram jarðvarma sem svarar til 70 megawatta í raforkuframleiðslu.

Í nál. minni hl. á þskj. 291 er þess getið að ráðuneytisstjóri iðnrn. hafi reiknað út kaupverð Kröfluvirkjunar séu boraðar nýjar holur og seinni vél Kröfluvirkjunar tekin í notkun og reiknar þá kaupverðið upp um 388 millj. Á fundi nefndarinnar um þetta mál sagði ráðuneytisstjórinn frá því að þessi reikningur hans byggðist á gefnum forsendum þess sem bað um að reiknað væri.

Nál. meiri hl. nefndarinnar er á þskj. 288. Undir það rita auk frsm. hv, þm. Páll Pétursson formaður, Birgir Ísl. Gunnarsson, Gunnar G. Schram og Ingvar Gíslason. Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt.