24.10.1985
Neðri deild: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það brá til nýlundu í þessum umræðum að aðaltalsmaður Alþb. í þeim hefur verið hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, en ekki formaður bandalagsins sem við erum vanari að heyra sem aðaltalsmann Alþb. í slíkum prinsipmálum.

Í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. hér við 2. umr. vitnaði hann oft til skýringar á afstöðu sinni í það að þetta væri prinsipmál. Í seinni ræðu hans hér áðan við 2. umr. kom hins vegar á daginn að öll voru þessi prinsip fokin út í veður og vind og má þá segja um þá ræðu hans eins og skáldið sagði forðum, að

Allt var gott sem gerði Drottinn forðum,

en prinsip þetta þó hann braut,

þegar hann bjó til Pétur Gaut.

Af fyrri ræðu hans mátti skilja að hann væri andvígur þessu frv. vegna þess að það bæri að virða frjálsa kjarasamninga skilyrðislaust. Í seinni ræðu hans kom á daginn að þetta vildi hann alls ekki sagt hafa, það væri alls ekki skilyrðislaust. Hvað var þá prinsipið? Var það það að aldrei mætti setja lög undir slíkum kringumstæðum? Það mátti skilja á fyrri ræðu, en í seinni ræðu tók hann skýrt fram að það hefði hann aldrei sagt og ekki einu sinni hugsað, enda lá það fyrir að flokkur hans hefur oftar en einu sinni beitt sér fyrir lagasetningu í slíkum málum.

Gat það verið þriðja prinsipið, að aldrei, undir engum kringumstæðum mætti hlutast til um kjaradeilur? Nei, nei. Í seinni ræðunni kom skýrt fram að hann væri alls ekkí þeirrar skoðunar. Hann tók það skilmerkilega fram að þetta bæri að skoða í hvert og eitt skipti, rétt eins og aðrir menn hafa verið að halda fram.

Þegar manni gengur svo illa að úfskýra sín eigin prinsip og standa við þau milli umræðna er ekki von á því að það sé mikið mark takandi á brigslyrðum eins og þeim að í máli okkar Alþýðuflokksmanna hafi komið fram að Alþingi komi ekkert við kaup og kjör. Það kom aldrei fram í okkar máli. Þvert á móti kom það fram að flest af því sem hér er gert varðar með einum eða öðrum hætti íhlutun í kaup og kjör og tekjuskiptingu og hafi menn eitthvað fylgst með málflutningi Alþfl. vita menn að hann hefur flutt hér kannske fleiri tillögur en flestir aðrir flokkar í þá veru að reyna að hafa áhrif á tekjuskiptinguna til hagsbóta fyrir þá sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi.

Um þetta þarf svo ekki að hafa fleiri orð. Ég leyfi mér að lokum að vitna í orð hv. fyrrv. þingflokksformanns Alþb., sem hefur lýst þessum prinsiplausa flokki sem flokki kreppu og þarf ekki að hafa um það mörg fleiri orð, og kannske ljúka ræðunni með því að vitna í hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem sagði í fleygu blaðaviðtali: „Það er allt í lagi með flokkinn [Alþb.] nema eitt. Það skilur hann bara enginn.“