24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

Um þingsköp

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki hægt annað í umræðum nú um þingsköp en að mótmæla harðlega og lýsa yfir furðu á því að þm. í deildum Alþingis skuli lýsa því yfir og stæra sig af því að þeir muni ganga út úr Alþingi (Gripið fram í.) vegna einhvers tiltekins dags. Það hlýtur að vera skylda þm. að virða Alþingi fyrst og fremst sem æðstu stofnun íslenska lýðveldisins. Þm. getur sýnt samstöðu á margan hátt, en tveir Kvennalistaþingmenn hafa í kvöld stært sig af því að þeir líti nú þeim augum á Alþingi að þeir labbi sig bara út og skítt með það sem eftir er. Þetta er ósiðlegt og er ástæða til að vekja athygli á slíku að vert er að hv. þm. hugsi sitt mál og hugsi það til hvers þeir eru á Alþingi Íslendinga. Það á ekki að vera nein geðþóttaákvörðun hvort menn eru inni á þingi eða ekki ef þeir hafa verið kjörnir til þessa starfs.